Þegar við komum aftur heim til Berlínar í lok sumars eftir mánaðardvöl á Íslandi minnti blokkin okkar einna helst á hústökuna í götunni fyrir neðan okkur. Framhliðin var þakin fánum sem hengu utan á svölum einstakra íbúða og á þeim ýmis skilaboð á borð við: „Við förum ekki“, „Berlín, keyptu mig“ og „Stöðvum miðstéttarvæðinguna“. Í fyrstu höfðum við ekki hugmynd um hvað gengi á. Síðar komumst við að því að skúffufélagið Albert Immo S.a.r.l, sem skráð er í Lúxemborg og rekja má í gegnum tíu önnur skúffufélög til fjölskyldu í Lundúnum, hefði keypt blokkina eins og hún lagði sig. Við vissum ekkert um fyrirætlanir þeirra en nágrannarnir á Matternstrasse, sem sumir hverjir hafa búið í húsinu frá því fyrir fall múrsins, voru skiljanlega uggandi um hvers væri að vænta.
Haustið 2015 fluttumst við kærastan mín, Hlín Ólafsdóttir, til Berlínar þar sem við leggjum nú bæði stund á nám. Eftir eitt og hálft ár af flandri á milli hverfa, þar sem við framleigðum íbúðir án eiginlegra leigusamninga líkt og svo margir aðrir sem eru nýkomnir til borgarinnar, tryggðum við okkur loks langtímaleigusamning á íbúð í hverfinu Friedrichshain í austurhluta borgarinnar. Við fögnuðum ákaft, enda slíkur samningur trygging fyrir því að þarna gætum við komið okkur upp vísi að heimili án þess að þurfa að óttast hvað yrði um næstu mánaðamót. Okkur var því hreint ekki sama þegar við komumst að því nokkrum mánuðum síðar að húsið – allar 33 íbúðirnar og þar á meðal okkar – væri komið í hendur lúxemborgsks skúffufélags. Hvað myndi það þýða fyrir okkur?
Réttur leigjenda sterkur
Leigjendur í Þýskalandi búa almennt við mjög mikið leiguöryggi. Réttindi þeirra eru tryggð í gegnum hvers kyns reglugerðir sem kveða til dæmis á um að leigu megi ekki hækka nema um það sem nemur tiltekinni prósentutölu á hverju ári. Þá hefur verið sett upp ákveðið leiguþak [þ. Mietbremse] í borgum eins og Berlín, sem felur í sér að nýir eigendur leiguhúsnæðis geta ekki hækkað leiguna umfram tíu prósent af meðalleiguverði hverfisins.
Margir kannast svo eflaust við fréttir þess efnis að Berlínarborg hafi sett blátt bann við útleigu íbúða í gegnum vefinn Airbnb nema á sérstaklega tilgreindum svæðum. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að tryggja sterkan leigumarkað þar sem fólk getur búið við öryggi, en um helmingur Þjóðverja er á leigumarkaði og er hlutfallið hvergi hærra í Evrópu, að frátöldu Sviss.
Hina sterku þýsku leigulöggjöf má rekja allt til fyrstu áranna eftir seinni heimsstyrjöldina. Til þess að bregðast við eyðileggingu stríðsins, þar sem um tuttugu prósent af öllu íbúðarhúsnæði landsins hafði verið jafnað við jörðu, studdu stjórnvöld í Vestur-Þýskalandi við stórtæka uppbyggingu á leiguhúsnæði í þeim tilgangi að sjá öllum íbúum fyrir sómasamlegu húsaskjóli. Einkaaðilum var áfram heimilt að eiga heilu blokkirnar og reka þær til útleigu íbúðarhúsnæðis en var gert að sæta strangri löggjöf grundvallaðri á þeirri hugmynd að allir ættu rétt á þaki yfir höfuðið á sér.
Farið í kringum reglugerðir
Við sameiningu Þýskalands árið 1990 var það íbúðarhúsnæði sem Austur-Þýskaland hafði þjóðnýtt selt til einkaaðila og/eða fært aftur í hendur fyrrum eigenda en húsnæðiskerfið byggðist áfram á þeim grunni sem byggður hafði verið upp í Vestur-Þýskalandi.
Þrátt fyrir að leiguhúsnæði sé enn í dag almennt ódýrara í Þýskalandi en í mörgum öðrum löndum Vestur-Evrópu hafa íbúar í helstu borgum landsins ekki farið varhluta af síhækkandi leiguverði. Berlín, höfuðborg Þýskalands, hefur lengi vel verið sú höfuðborg í Vestur-Evrópu þar sem leiguverð er hvað lægst. Ungt og skapandi fólk alls staðar að úr heiminum hefur streymt til borgarinnar undanfarin ár að hluta til vegna þessa.
Kaldhæðni örlaganna er svo auðvitað sú að þessar miklu vinsældir borgarinnar hafa þrýst leiguverði upp. Margir leigusalar reyna hvað þeir geta að komast í kringum lög og reglugerðir í þeim tilgangi að hækka leigu umfram það sem löglegt er og ávaxta þannig pund sitt hvað mest þeir geta. Þá hafa þýsk og/eða alþjóðleg fjárfestingafélög með kennitölur í skattaparadísum hugsað sér gott til glóðarinnar og keypt upp heilu blokkirnar.
Hverfin umturnast
Þegar leiguhúsnæði gengur kaupum og sölum með þessum hætti fylgja fyrrum leigjendur svo að segja með í kaupunum. Nýir eigendur taka við hlutverki sem leigusalar og verða að virða þá leigusamninga sem fyrir eru. Þetta þýðir til að mynda að þeir geta ekki losað sig við leigjendur nema með þeirra samþykki, eða eftir atvikum að undangengnu tímafreku ferli sem getur tekið allt upp í sjö ár. Þá geta þeir ekki hækkað leiguverð umfram þá prósentutölu sem tiltekin er í eldri samningum.
Á þessu eru þó ýmsar undantekningar. Þannig geta nýir eigendur til að mynda gert upp eða „nútímavætt“ blokkirnar með því að setja upp lyftur eða annan slíkan búnað og um leið gert kröfu um mun hærra leiguverð. Slíkar aðgerðir leiða síðan oftar en ekki til þess að fyrrum leigjendur sjá sér engan annan kost en að flytja burt sem gerir hinum nýju eigendum loks kleift að leigja íbúðirnar á enn hærra verði, nú eða selja þær hreinlega með stórkostlegum ágóða. Þannig má segja að fólkið sem fyrir var hafi verið hreinsað út – þeim efnaminni hreinlega skipt út fyrir einstaklinga með meiri fjárráð.
Umræðan um slíka miðstéttarvæðingu (þ. Gentrifizierung) hefur stigmagnast á undanförnum árum enda hefur hún haft gríðarleg áhrif á íbúasamsetningu borgarinnar. Hverfi á borð við Prenzlauer Berg í gamla austurhlutanum eða Kreuzberg og Neukölln í vestrinu hafa umturnast, þar sem ungt listafólk hélt áður til í hústökum vappa nú miðaldra Skandinavar á milli hönnunarbúða með barnavagna sína, þar sem tyrkneskir innflytjendur seldu áður kebaba hanga nú alþjóðlegir hipsterar og semja öpp. Borgaryfirvöld hafa brugðið á ýmis ráð í þeim tilgangi að bregðast við þessari þróun en mörgum finnst hreint ekki nóg að gert.
Hryllingssögur af húseigendum
En aftur að blokkinni okkar á Matternstrasse og lúxemborgska skúffufélaginu sem enginn vissi nein frekari deili á. Hefðu nágrannar okkar ekki komist að því fyrir algjöra tilviljun að húsið hefði verið selt, má telja öruggt að kaupin hefðu gengið í gegn án frekari eftirmála. En þar sem íbúum var orðið ljóst að svona væri í pottinn búið tóku þeir sig saman í daufri von um að hægt væri að stöðva söluna með einhverjum hætti. Eftir að hafa þrætt sig í gegnum hvert skúffufélagið á fætur öðru komst Martin Strubelt, aðalsprautan á bak við mótmæli íbúa og einn þeirra sem búið hefur í húsinu frá því fyrir múrfall, að því að aðilarnir sem stóðu á bak við Albert Immo S.a.r.l hefðu þegar keypt fjölmargar blokkir í Berlín.
Og viti menn, yfirlýstur tilgangur móðurfélagsins var að fjárfesta í slíku húsnæði í þeim tilgangi að breyta í lúxusíbúðir og selja þær síðan hverja í sínu lagi með miklum hagnaði. Nýir húseigendur úr röðum ósýnilegra skattaskjólskennitalna láta sér ekki endilega nægja að nýta undanþágur og/eða lagagloppur til að sprengja leiguna upp úr öllu valdi. Það ganga hryllingssögur um borgina, lýsingar sem lesa má á ýmsum vefsíðum, um það hvernig slíkir aðilar svæla eldri leigjendur hreinlega út. Þetta er til dæmis gert með stanslausum en tilgangslausum framkvæmdum með tilheyrandi hávaða á ýmsum tímum sólarhrings, þar sem gluggar eru ef til vill skyggðir mánuðum saman, hitinn tekinn af húsinu á meðan frosthörkur geisa eða þá að skyndilega er skrúfað fyrir heita vatnið. Þá hafa sumir jafnvel lýst hótunum í sinn garð auk þess sem allmörg dæmi eru um að nýir eigendur borgi eldri leigjendum hreinlega fyrir það að flytja út.
„Manni leið eins og maður væri varnarlaust dýr, ljónið væri á harðahlaupum á eftir manni en maður gæti ekkert gert, maður væri ekki neins virði vegna þess að peningarnir skipta öllu máli en litla fjölskyldan okkar engu“
Upplifðu varnarleysi
Það var engin leið að vita nákvæmlega hvernig eigendur Albert Immo S.a.r.l hugðust ná fram markmiðum sínum en sporin hræddu. Hvernig ætti eftirlaunaþegi með 30 ára gamlan leigusamning eiginlega að fóta sig ef leigan hans yrði skyndilega hækkuð upp úr öllu valdi? Hvað með nýbakaða foreldra í svipaðri stöðu? „Maður var hræddur og hjálparlaus,“ segir einn nágranna okkar, Anja. Hún og unnusti hennar, Henry, eignuðust lítinn dreng fyrir um ári síðan og voru í óða önn að skipta um eldhúsinnréttingu þegar fréttirnar af eigendaskiptunum bárust þeim til eyrna. „Manni leið eins og maður væri varnarlaust dýr, ljónið væri á harðahlaupum á eftir manni en maður gæti ekkert gert, maður væri ekki neins virði vegna þess að peningarnir skipta öllu máli en litla fjölskyldan okkar engu.“
Þau Anja og Henry sammælast um að andlitsleysi hinna nýju eigenda hafi skapað einkar óþægilega tilfinningu á meðal íbúa. Henry, sem hefur sjálfur búið í húsinu allt frá því að múrinn féll árið 1989, minnist fyrri eigenda með miklum hlýhug, hinna gömlu Katzor-hjóna, sem fengu húsið aftur í hendurnar við hrun Þýska Alþýðulýðveldisins. „Það brást ekki að hvern einasta mánudag buðu þau þeim íbúum sem það vildu til kvöldverðar í íbúðinni sinni,“ segir Henry þegar hann rifjaði upp kynni sín af hjónunum. „Þau voru alltaf svo vinaleg í fasi og góðhjörtuð en þau töpuðu eflaust miklu á húsinu þar sem þau hækkuðu aldrei leiguna,“ segir Henry.
Þegar Katzor-hjónin létust árið 2008 sóttu flestir íbúarnir jarðarförina. Sonur þeirra erfði húsið og hefur verið í litlum samskiptum við íbúana síðan. „Hann var allt öðruvísi en foreldrarnir og virtist ekki hafa neinn áhuga a leigjendunum.“ Þegar ljóst var að hann hefði selt blokkina reyndu einhverjir íbúar að höfða til samvisku hans með því að vísa til þess hvernig foreldrar hans hefðu komið fram við íbúana en viðbrögðin létu á sér standa.
„Við þurfum bara samstöðu á meðal íbúa í húsinu og við þurfum að komast í samband við stjórnmálamenn“
Barátta Davíðs við Golíat
„Þeim mun meira sem ég las um fólk sem hafði verið í svipaðri stöðu því meira leið mér eins og ég væri föst ofan í svartri holu,“ segir Anja. „Maður las um að fimmtíu manns hefðu þurft að flytja úr þessari byggingu og hundrað manns úr hinni. Þetta var svo svört orka og ég þurfti virkilega að vanda mig við að missa ekki alla von,“ segir Anja sem herti þó fljótt upp hugann. „Ég hugsaði með mér: Við getum gert þetta! Við þurfum bara samstöðu á meðal íbúa í húsinu og við þurfum að komast í samband við stjórnmálamenn. Þá held ég að við eigum séns á því að bjarga húsinu okkar.“
Anja, Henry, Martin og fleiri í innsta hring höfðu í nógu að snúast. Það þurfti að grennslast fyrir um lagaverkið og hvaða möguleikar væru uppi í stöðunni, skipuleggja íbúafundi, setja upp vefsíðu og senda tölvupósta á stjórnmálamenn, fjölmiðla og aðra íbúa sem staðið höfðu í svipaðri baráttu, svo eitthvað sé nefnt. „Við skrifuðum stundum tuttugu tölvupósta á dag,“ segir Anja sem bendir á að þetta hafi á tímum reynt mjög á þau sem voru hvað virkust í baráttunni.
Við útlendingarnir höfðum því miður litla trú á því að nokkuð væri hægt að aðhafast. Við fylgdumst með nágrönnum okkar vinna baki brotnu við að leita leiða til þess að afturkalla söluna, sýndum samstöðu með því að setja mótmælafána framan á svalirnar, en fannst þó innst inni eins og þetta væri lítið annað en vonlaus barátta Davíðs við Golíat. Komandi frá landi þar sem leigjendur búa við stanslaust óöryggi – þar sem réttindi hins frjálsa markaðar trompa iðulega réttindi leigjenda – höfðum við hreinlega ekki nægt hugmyndaflug til þess að sjá fyrir þá atburðarás sem var að fara af stað.
London víti til varnaðar
Florian Schmidt nokkur situr sem borgarfulltrúi í hverfisráði [þ. Berzirksamt] Friedrichshain-Kreuzberg hverfisins fyrir hönd Græningja en flokkurinn hefur síðustu ár sett baráttuna gegn miðstéttarvæðingunni á oddinn. Sagan segir að forveri Schmidt í embætti hafi komist að því eftir nokkra eftirgrennslan að enn væru í gildi sérstök lög frá 19. öld sem veita sveitarfélögum heimild til þess að taka yfir sölu finni þau fjármagn til þess innan þriggja mánaða frá því að skrifað var undir kaupsamning. Græningjar og fleiri á vinstri væng stjórnmálanna hafa síðan þá beitt sér fyrir því að borgin nýti sér slíka heimild um forkaupsrétt [þ. Vorkaufsrecht] þegar ljóst þykir að stefna fjárfesta gengur í berhögg við yfirlýsta stefnu yfirvalda um að borgin verði áfram allra þjóðfélagshópa – ekki bara hinna efnameiri.
Petra Rohland, talskona ráðuneytis húsnæðis- og borgarskipulags Berlínarborgar, sagði nýlega að hækkandi leiguverð og húsnæðisskortur væri helsta vandamálið sem borgin stæði frammi fyrir. „Við viljum ekki að ástandið verði eins og í London eða París,“ sagði Reiner Wild, forstöðumaður samtaka leigjenda í Berlín, í samtali við Guardian árið 2015. „Veruleikinn í París eða London er sá að fólk með lægri innkomu þarf að flytjast út í jaðra borgarinnar.“ Fjölmargir grasrótahópar hafa síðustu ár þrýst á stjórnvöld að bregðast við vandanum og nýting forkaupsréttarins er eitt af því sem Berlínarþingið hefur lagt blessun sína yfir og jafnvel stutt við með fjármagni.
„Við uppgötvuðum það bara í gegnum ferlið að þessi möguleiki væri til staðar,“ segir Anja. Borgaryfirvöld hafa skilgreint ákveðin svæði borgarinnar sem sérstaklega viðkvæm fyrir miðstéttarvæðingu. Þau eiga það sammerkt að leiguverð er ennþá tiltölulega lágt og meirihluti íbúa er með fremur lágar tekjur. Í Friedrichshain-hverfinu eru þrjú slík vernduð svæði [þ. Milieuschutz] og er húsið á Matternstrasse 4 staðsett á einu þeirra, sem skipti sköpum í því að hægt var að þrýsta á borgina um að nýta forkaupsréttinn.
Kosningabaráttan hjálpaði
Kaupsamningurinn hafði verið undirritaður í lok júní. Íbúar höfðu ekki komist að því fyrr en um mánuði síðar. Það var svo ekki fyrr en í lok ágúst, þegar búið var að vinna alla undirbúningsvinnuna sem nefnd var hér á undan, sem baráttan hófst loks fyrir alvöru. Nýir eigendur höfðu ekki skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að þeir hygðust ekki endurnýja húsið með það að markmiði að selja það aftur í formi lúxusíbúða en hverfisráðin í borginni bjóða leigusölum að skrifa undir slík plögg í þeim tilgangi að ganga úr skugga um fyrirætlanir þeirra. Með einungis mánuð til stefnu herjuðu íbúar nú grimmt á stjórnmálamennina í hverfinu og ekki skemmdi fyrir að kosningabarátta vegna kosninga til þýska sambandsþingsins var í fullum gangi.
„Það hjálpaði okkur mjög mikið,“ segir Anja. Stjórnmálamenn í hverfinu komu vikulega saman fyrir framan Pfingstkirkjuna á svokölluðu Pétursborgartorgi til þess að ræða við kjósendur. „Við birtumst alltaf þarna með skiltin okkar og mótmælaspjöldin og útskýrðum stöðuna fyrir þeim. Við vorum virkilega heppin með það að kosningar voru í nánd. Þeir voru tilbúnir að hlusta.“ Græninginn Florian Schmidt, sem nefndur var hér á undan, var á bandi íbúa alveg frá upphafi. Hann beitti sér fyrir því að leigufélagið WBM, sem rekið er á samfélagslegum forsendum, myndi ganga inn í kaupin. Vandinn var hins vegar sá að lúxemborgska félagið hafði greitt 5,1 milljón evra fyrir húsið á meðan WBM sá ekki fram á að geta greitt nema 4,4 milljónir án þess að kaupin yrðu ósjálfbær.
Tvísýnt fram á síðasta dag
Stjórnmálamenn í hverfinu með Schmidt í fararbroddi biðluðu því næst til Berlínarþingsins um að styrkja leigufélagið um þá upphæð sem upp á vantaði. Þingið hafði nýlega komið á fót sérstökum sjóði til sambærilegra verkefna og svo virtist sem allt ætlaði þetta að ganga í gegn. „Við munum kaupa Matternstrasse 4,“ sagði Schmidt í hátíðlegri yfirlýsingu. Íbúar fögnuðu ógurlega. Það var dansað og sungið á götum hverfisins. Allt þar til þær fregnir bárust að alls óvíst væri hvort leigufélagið myndi ganga inn í kaupin þrátt fyrir hinn ríflega styrk frá borginni.
„Þegar þessar neikvæðu fréttir komu þá vorum við að velta því fyrir okkur hvort stjórnmálamennirnir hefðu hreinlega verið að spila með okkur?“
Nú voru ekki nema örfáir dagar til stefnu og baráttuandi margra íbúa á þrotum. „Við vorum svo glöð þegar við fengum skilaboðin fyrst um að okkur hefði verið bjargað en svo þegar þessar neikvæðu fréttir komu þá vorum við að velta því fyrir okkur hvort stjórnmálamennirnir hefðu hreinlega verið að spila með okkur? Þeir hefðu lofað öllu fögru í kosningabaráttunni en nú þegar svo stutt væri í kosningar hefðu þeir snúið baki við okkur. Maður fór að hugsa ýmislegt og manni leið aftur eins og maður væri einskis virði.“
Florian Schmidt mætti á spennuþrunginn fund með íbúum í Pfingstkirkjunni. Hann útskýrði að WBM hefðu ennþá ákveðnar áhyggjur af kaupverðinu. Það væri algjör forsenda fyrir leigufélag í almannaeigu að slík viðskipti stæðu undir sér. Við íbúar samþykktum viljayfirlýsingu þess efnis að við værum tilbúin til þess að taka á okkur örlitla leiguhækkun til þess að standa undir þessum kostnaði. Daginn eftir fengum við þær fregnir að salan hefði verið stöðvuð af borginni og WBM gengið inn í samninginn. Við vorum hólpin. „Þetta var svo ótrúlega mikill léttir,“ segir Anja. Sigurhátíðinni sem halda átti í haust var frestað vegna veðurs en verður þess í stað haldin með vorinu. Vinveittum og úrlausnargóðum stjórnmálamönnum er boðið.
Athugasemdir