Vinstri græn hafa á síðustu vikum sennilega upplifað erfiðustu stundirnar í sögu flokksins hingað til en kannski eru þær aðdragandi að bestu tíð flokksins. Vg hafa í sögu sinni gert talsvert út á pólitíska samkvæmni og heiðarleika og ákveðna prinsippfestu sem mörgum finnst að flokkurinn hafi kastað fyrir róða með því að opna á ríkisstjórnarsamarstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Katrín Jakobsdóttir segist nú vera bjartsýn og „brött“ á að þetta samstarf gangi upp „þjóðinni til heilla“.
Fjölmargir, meðal annars ég, hafa lýst þessari hneykslun sinni á Vg út af þessari ákvörðun flokksins. Kannski má segja að viðbrögð mín og margra hafi einkennst af því sem kalla má siðferðilegt sjokk; sjokk sem svo hefur leitt til stórra orða um Vg, fordæminga og upphrópana. Þetta er hneykslun sem byggir ekkert á því að flokkarnir hafi ólíkar málefnaáherslur á einhverjum sviðum heldur bara á spillingarsögu Sjálfstæðisflokksins og því hvort Vg vilji leiða slíkan flokk til valda eftir hrunið og stjórnarslitin sem Sjálfstæðiflokkurinn hefur valdið.
Vinstri græn hafa verið vænd um hræsni, pólitíska hræsni, með því að ætla að vinna með höfuðandstæðingi sínum í íslenskri pólitík; andstæðingi sem flokksmenn Vg hafa svo oft fordæmt fyrir spillingu í gegnum árin. Fyrir kosningarnar í haust sagði Kolbeinn Óttarson Proppé, þingmaður Vg, meðal annars: „Okkur gefst nú einstakt tækifæri til að sýna í verki hver skoðun okkar er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur meira eða minna haldið um valdataumana síðustu áratugi og skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við.“
En spurningin er hvort hræsnin eigi rétt á sér og sé réttlætanleg? Er þessi háværa gagnrýni á Vg ósanngjarn og ómálefnaleg? Á hverju byggir hún?
Þráin eftir ómögulegum, hræsnilausum stjórnmálum
Eitt sem ég held að gagnrýnin á Vg byggi á er kannski sú trú eða vilji margra að stjórnmál og stjórnmálaheimspeki eigi ekki að byggja á pólitískri hræsni eða siðferðilegum óheilindum. Þegar stjórnmálaheimspekingar og aðrir sem hugsa um og smíða kenningar um hvernig stjórnmál eiga að vera þá er auðvitað ekki gert ráð fyrir pólitískri hræsni. Stjórnmálakenningar eru oftast svokallaðar kjörkenningar (e. ideal theory), þær byggja á því og lýsa stöðunni og aðstæðum eins og þær ættu að vera samkvæmt kenningunni. Þessar fræðilegu aðstæður eru yfirleitt langt frá skítugum og gráum hversdagsleika stjórnmálamanna. Þegar almenningur horfir á stjórnmálin af hliðarlínunni hugsar fólk gjarnan með svipuðum hætti um stjórnmálin: Hvernig eiga stjórnmálin að vera í fullkomnum heimi?
Kolbeinn Proppé er til dæmis augljós hræsnari þegar litið er til þess að fyrir kosningar boðaði hann uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn - hver skilur orð hans hér að ofan eins og hann hafi verið að boða samstarf við Sjálfstæðisflokkinn? - en eftir kosningar er hann farinn að verja samstarf við flokkinn. „Fyrir kosningar sögðum við að við útilokuðum ekki neinn. Það væri óheiðarlegt að koma eftir kosningar og útiloka Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Kolbeinn fyrir skömmu. Erfitt er að halda öðru fram en Kolbeinn hafi verið með verið með lítið lygaramerki þegar hann lét þessi orð um Sjálfstæðisflokkinn falla fyrir kosningar og gaf í skyn að Sjálfstæðisflokkurinn væri langt í frá ákjósanlegur til samstarfs og að kosningarnar snérust að einhverju leyti um að koma þeim flokki frá völdum.
En þá má líka spyrja: Er hægt að vera þátttakandi í stjórnmálum án þess að vera hræsnari í einhverjum skilningi?
Hvernig á að losna við hræsni úr stjórnmálum?
Í tæplega 10 ára gamalli bók, Polticial Hypocrisy: The Mask of Power, From Hobbes to Orwell and Beyond, ræðir breski stjórnmálafræðingurinn David Runciman um pólitíka hræsni í stjórnmálum og þá tálsýn að hægt sé að útiloka slíka hræsni úr pólitíkinni. Runciman rekur hugmyndir og kenningar margra heimspekinga úr sögunni og útskýrir hvernig þeir reyndu að taka á því vandamáli sem hræsni er í praxís í stjórnmálum.
Eitt dæmið er af breska nítjándu aldar heimspekingnum Henry Sidgwick sem var afar prinsippfastur maður. Sidgwick var svo mikill prinsippmaður að hann sagði upp stöðu sinni við Cambridge-háskóla árið 1870 vegna þess að hann gat ekki hugsað sér að lýsa sig samþykkan hinum 39 trúarsetningum ensku biskupakirkjunnar sem hann þurfti að gera til að kenna við stofnunina. Einfaldast hefði verið fyrir Sidgwick að vera hræsnari, lýsa stuðningi við trúarsetningarnar gegn betri vitund og halda stöðu sinni. Sidgwick þagði svo um ástæður uppsagnar sinnar um langt árabil af því hann hafði áhyggjur af afleiðingum þess fyrir óbreytta borgara í Bretlandi ef þeir heyrðu að hann teldi að trúarsetningar kirkjunnar skorti rökrétta stoð til að teljast sannar. Hann var nytjahyggjumaður - einhver sem setur heildarhagsmuni, velferð og hamingju heildarinnar á oddinn í rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum - og vildi því ekki að persónuleg ákvörðun sín hefði slæmar afleiðingar á líf annars fólks og myndi ala á óvissu.
Sidgwick líkti stjórnmálamanninum við lögmann sem flytur mál fyrir dómi og sem þarf að reyna að sannfæra kviðdóm og dómara um réttmæti sjónarmiða sinna. Muninn á stjórnmálamanninum og lögmanninum sagði Sidgwick vera að enginn lögmaður og enginn kviðdómur mæti röksemdir stjórnmálamannsins með nákvæmum hætti og sagði hann kviðdóm almenningsálitisins ekki vera nægjanlega traustan í það verk og sagði að slíkur kviðdómur væri því ekkert annað en skáldskapur. Þess vegna væri ógerlegt að koma böndum á pólitíska hræsni í stjórnmálum því enginn eiginlegur dómari væri til staðar til að vega, meta og dæma orð stjórnmálamannanna.
Fyrir vikið þá skrifaði Sidgwick ekki mikið beint um stjórnmál; þau fylltu hann vonleysi þar sem ógerlegt var að útiloka pólitíska hræsni úr stjórnmálum, eins og Runciman orðar það þegar hann súmmerar upp hugsanir Sidgwicks: „Á endanum er ekki nokkur flóttaleið frá þeirri skítugu og óyfirstíganlegu hræsni sem einkennir flokkapólitík…“
„Það er ógerningur að eyða hræsni í stjórnmálalífinu og allar tilraunir til að finna slíka flóttaleið undan pólitískri hræsni eru tálsýn.“
Innihaldslaus öskur
Í niðurstöðukafla sínum um hræsni í stjórnmálum dregur David Runciman þá ályktun að í stað þess að reyna að halda því fram að hægt sé að hreinsa stjórnmálin af pólitískri hræsni þá eigi frekar að reyna að finna leiðir til að horfa á stjórnmál þannig að ómögulegt sé að útiloka þennan eiginlega þeirra. „Álitsgjafar um stjórnmál halda því stundum fram að nú þurfum við að taka á því vandamáli sem pólitísk hræsni er í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar er það svo að sem krafan gengur ekki upp og er merkingarlaus. Þetta er fyrsti lærdómur þeirrar sögu sem ég er að reyna að segja hérna: Það er ógerningur að eyða hræsni í stjórnmálalífinu og allar tilraunir til að finna slíka flóttaleið undan pólitískri hræsni eru tálsýn,“ segir Runciman.
Runciman gerir svo grín að blaðamanninum Peter Oborne sem kallaði eftir byltingu í stjórnmálum í Bretlandi í bók um óheiðarleika í pólitík sem hann gaf út árið 2005, The Rise of Political Lying, þar sem hann sagði að stjórnmálamenn í Bretlandi þyrftu á „hugarfarsbreytingu“ að halda: „Við stöndum frammi fyrir vali. Við getum setið með hendur í skauti og haldið áfram að svíkja og pretta hvert annað og beðið eftir þeirri reiði almennings, vonbrigðum og viðbjóði sem svo fylgir í kjölfarið. […] Eða við getum byrjað að hegða okkur meira eins og manneskjur,“ sagði Oborne í bókinni.
Runciman segir að þessi orð Obornes séu ekki annað en „viðbragð sem kalla megi öskur“ og að sem greining á því hvernig eigi að taka í tvöföldu siðgæði í stjórnmálum þá bæti það „engu við“ þekkingu okkar. Að mati Runciman þá geti slík áköll um algjörlegan siðferðilegan hreinleika í stjórnmálum haft öfug áhrif en hin ætluðu þar sem almenningur geti byrjað að líta svo á að „herskáir blaðamenn“ eins og Oborne geri of miklar og strangar siðferðiskröfur til stjórnmálamanna með því krefjast endurnýjunar stjórnmálanna á þeim forsendum að séu spillt. Runciman segir hins vegar að hann skilji að „freistingin“ til að kalla eftir nýjum hræsnilausum stjórnálum sé mikil þar sem slík boðun nýrra tíma byggi á þeirri útópíu að stjórnmálin hætti að snúast í sínu hefðbundnu hringi hagsmuna, málamiðlana og hræsni og verði göfugri fyrir vikið.
Auðvelt er að heimfæra þessa gagnrýni Runcimans upp á margt það sem sagt hefur verið um Vinstri græn á liðnum vikum. Þeir sem hafa gagnrýnt flokkinn á þessum prinsippforsendum, eins og til dæmis ég, eru þá kannski svolítið barnalegir vegna þessa. Kannski er efnislega gagnrýnin á Vg lítið annað en hróp eða öskur í raun sem byggja á þeirri trú eða von að Vg sé flokkur sem eigi að vera hafinn yfir hræsni í stjórnmálum.
Þá má spyrja að því, líkt og Runciman gerir, hvort sú krafa gegn Vg séu af ströng því þó flokkurinn hafi í gegnum árið verið minna í því að haga seglum eftir vindi og staðið fastar á prinsippum en margir aðrir þá er Vg í grunninn auðvitað bara stjórnmálaflokkur eins og allir hinir. Og stjórnmálaflokkar vilja hafa völd og setja mark sitt og spor á samfélagið.
Að kjósa rétta hræsnarann
Ein af niðurstöðum Runcimans er því að kjósendur standi frammi fyrir því vali að kjósa „rétta hræsnarann“ þar sem eiginlega allir stjórnmálamenn eru hræsnarar í einhverjum skilningi. Runciman tekur sem dæmi að nær ómögulegt er að forðast að gerast sekur um einhvers konar hræsni í umhverfismálum, bæði hvað varðar persónulegt líf stjórnmálamannsins - hann gæti notað bíl, flogið mikið eða átt bát sem brennir díselolíu - og eins þá stefnu í umhverfismálum sem hann talar fyrir - á að banna alla framleiðslu eða iðnað sem á einhvern hátt hefur slæm umhverfisáhrif?
Stjórnmálamaður sem gefur sig út fyrir að vera umhverfissinna og grænan pólitíkus getur nánast ekki komist hjá því að vera hræsnari í málaflokknum í einhverjum skilningi. David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hjólaði til dæmis til vinnu um tíma af umhverfisverndarástæðum en svo keyrði bílstjóri bílinn hans til vinnu á hverjum degi með hlutunum sem hann þurfti þann daginn. Fræg er svo sagan af fyrrverandi þingmanni og talsmanni sænska Umhverfisflokksins, Åsu Romson, sem varð það á að nota óumhverfisvæna, bannaða málningu til að mála bátinn sinn og var henni nuddað upp úr því í mörg ár allt þar til hún hætti í stjórnmálum í fyrra.
Runciman segir að kjósendur þurfi að greina á milli ólíkra „tegunda af hræsni“ hjá stjórnmálamönnum og ákveða svo hvaða dæmi um pólitíska hræsni eru þess verðar að hafa áhyggjur af. Teljum við að notkun þingmanns Vinstri grænna á díselknúnum einkabíl sínum sé nægjanleg ástæða til að kalla hann hræsnara og til að kjósa hann ekki eða horfum við í gegnum fingur okkur með það og teljum að hann geti samt verið grænn umhverfissinni og barist fyrir þeim málstað þrátt fyrir þetta?
Runciman er því alls ekki að segja að fólk eigi bara að sætta sig við spillingu, tvöfalt siðgæði og pólitíska hræsni í stjórnmálum alveg sama hvað og stjórnmálamönnum eigi að vera allt leyfilegt á þessu sviði. Hann segir auðvitað að hræsni og tvöfalt siðgæði í stjórnmálum séu ekki æskilegir eiginleikar en bendir jafnframt á að hræsni séu óhjákvæmilegur fylgifiskur stjórnmálanna. Spurningin er bara hversu mikla hræsni og hversu mikla tvöfeldni kjósendur telji sig geta þolað.
„Þegar hræsni gerir það að verkum að við áttum okkur ekki á því hvað það er sem við leggum að veði í pólitísku lífi okkar, þá getur hræsnin samt sem áður eyðilagt allt fyrir öllum.“
Átta Vinstri græn sig á því hvað þau leggja að veði?
Spurningin sem eftir stendur er hvort sú hræsni Vinstri grænna að taka upp ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn sé þannig tegund af pólitískri hræsni sem kjósendur, og væntanlegir kjósendur, flokksins geta ekki og eiga ekki að sætta sig við.
Margir eru á þeirri skoðun nú þegar vegna þess spillingarfarangurs sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með inni í þetta stjórnarsamstarf, farangurs sem meðal annars felur í sér að flokkurinn hefur átt þátt í að sprengja tvær ríkisstjórnir á einu og hálfu ári. Þetta er kannski fólk sem tekur svipaða afstöðu og Henry Sidgwick gerði þegar hann sagði starfi sínu við Cambridge lausu af samviskuástæðum; þetta er fólk sem vill halda í ákveðin prinsipp í stjórnmálum en sem kannski sýnir líka af sér pólitískan barnaskap meðn því að halda að stjórnmálamenn geti og eigi að vera heilagir. Eins og einn ættingi minn sagði við mig þegar við ræddum gagnrýnina á Vinstri græn: „Heldurðu að stjórnmálamenn séu heilagir? Þetta er bara fólk.“
Aðrir vilja gefa Vinstri grænum möguleika á því að sýna til hvers þetta samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn leiðir og kannski spyrja svo að leikslokum.
Alveg sama hvernig hvort er rétt þá er morgunljóst að áhættan sem Vinstri græn taka með þessu samstarfi er mikil, flokkurinn hefur aldrei tekið viðlíka pólitíska áhættu í sögu sinni. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vg, virðist vera meðvituð um áhættuna um samstarfinu þegar hún stillir ákvörðuninni upp eins og að Vg sé að vissu leyti að fórna sér þjóðinni sem slíkri til heilla, að flokkurinn taki heildarhagsmuni allra fram yfir eigin pólitíska hagsmuni. Þetta eru klassísk nytjahyggjurök hjá Katrínu; að fórnarkostnaður velferðar þjóðarinnar sé kannski bara Vg sem flokkur. Og hverjir munu svo kannski hagnast mest á þessari fórn Vg? Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gera það núna með þessu samstarfi og kannski einnig til framtíðar, í næstu kosningum, á meðan Vg kann að tapa miklu.
Lokaorð bókar David Runcimans má skoða í ljósi þeirrar áhættu sem VG taka því þau sýna stærð vandamálsins sem flokkurinn stendur frammi fyrir. Runciman segir: „Með því að líta til sögunnar getum við séð að margs konar pólitísk hræsni er óumflýjanleg, og þess vegna er óþarfi að hafa áhyggjur af henni, og svo eru aðrir tegundir af hræsni sem eru jafnvel ákjósanlegar í lýðræðissamfélögum. En, eins og [Thomas] Hobbes segir, þegar hræsni gerir það að verkum að við áttum okkur ekki á því hvað það er sem við leggum að veði í pólitísku lífi okkar, þá getur hræsnin samt sem áður eyðilegt allt fyrir öllum.“
Spurningin er hvort pólitískt hræsni Vg hér sé „óumflýjanleg“ eða hvort flokkurinn vilji bara einfaldlega fara í þessa ríkisstjórn og noti nytjahyggjurökin til að rökstyðja niðurstöðu sem svo margir kjósendur flokksins geta ekki sætt sig við. Þá er spurningin hvort pólitísk hræsni Vg í málinu sé svo stór pólitísk hræsni að hún muni eyðileggja fyrir flokknum og kannski „öllum“ í samfélaginu. Lömuð, ráðvillt, leiðtogalaus og fylgislítil Vinstri græn auka líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái aftur frítt spil til annarrar nýfrjálshyggjutilraunar, eins og á árunum 1991 til 2008, í nánustu framtíð og kannski strax eftir næstu kosningar.
Ómögulegt er auðvitað að segja það á þessari stundu hversu mikil áhætta Vg af ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn er því afleiðingarnar af ákvörðun flokksins eiga enn eftir að koma fram. En áhættan er til staðar, og hún er til staðar á svipuðum forsendum og þarna er lýst.
Athugasemdir