Sigríður Andersen dómsmálaráðherra skráði ekki símtal sitt við Bjarna Benediktsson í málaskrá ráðuneytisins þegar hún tjáði honum að Benedikt Sveinsson faðir hans væri einn af meðmælendum kynferðisbrotamannsins Hjalta Sigurjóns Haukssonar. „Símtöl dómsmálaráðherra eru ekki skráð sérstaklega,“ segir í svari dómsmálaráðuneytisins við upplýsingabeiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um málið.
Samkvæmt grein sem var bætt inn í lög um Stjórnarráð Íslands árið 2015 ber að skrá öll formleg samskipti milli ráðuneyta Stjórnarráðsins og við aðila utan þess, en einnig „óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg“. Þann 15. apríl í fyrra var svo sett ítarleg reglugerð um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands þar sem tilgreindar eru lágmarkskröfur um skráningu formlegra og óformlegra samskipta. Sú reglugerð leysti eldri reglugerð af hólmi þar sem einnig voru gerðar strangar kröfur um skráningu, meðal annars símtala. Þær reglur komu talsvert við sögu þegar umboðsmaður Alþingis rannsakaði samskipti fyrrverandi innanríkisráðherra við lögreglustjóra vegna lekamálsins árið 2015.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur gefið þær skýringar á símtali sínu við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra – sem er sagt hafa átt sér stað þann 21. júlí síðastliðinn – að hún hafi viljað vita hvort hann hefði átt aðkomu að ákvörðun um uppreist æru Hjalta Sigurjóns og talið rétt að upplýsa hann um að faðir hans væri á meðal meðmælenda Hjalta.
Fram kemur í nýlegri skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um uppreist æru, reglur og framkvæmd að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hafi greint nefndinni frá því á fundi að hann teldi hafa verið málefnalega ástæðu fyrir dómsmálaráðherra að „upplýsa forsætisráðherra í trúnaði um trúnaðargögn úr stjórnsýslumáli sem tengdust aðila honum nákomnum þar sem tilefnið hafi verið að þá hafi verið uppi vangaveltur um að forsætisráðherra hefði komið að afgreiðslu þessa tiltekna máls“. Benti umboðsmaður jafnframt á að slík samskipti gætu verið eðlileg til að taka afstöðu til hæfis í viðkomandi máli, þ.e. hvort sá sem tók ákvörðun hefði uppfyllt hæfisskilyrði.
Nú liggur fyrir að engar upplýsingar voru skráðar um samskipti dómsmálaráðherra og forsætisráðherra um meðmæli Benedikts Sveinssonar og meinta aðkomu Bjarna Benediktssonar að ákvörðunum er varða Hjalta Sigurjón Hauksson.
Stundin sendi dómsmálaráðuneytinu ítarlega upplýsingabeiðni um meðferð málanna í september en hefur engin svör fengið þrátt fyrir skýr ákvæði upplýsingalaga um að greina eigi fyrirspyrjanda um móttöku upplýsingabeiðni þegar hún berst og að útskýra beri ástæður tafa ef svar hefur ekki borist innan sjö daga.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi ráðuneytinu einnig upplýsingabeiðni í september að frumkvæði Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, og fékk svar innan lögbundins frests.
Þar kemur fram að símtalið hafi ekki verið skráð. Þingnefndin óskaði eftir dagbókarfærslum eða sambærilegum gögnum sem staðfesti símtal dómsmálaráðherra við forsætisráðherra eða efni þess, en fær engin slík gögn.
Í svari ráðuneytisins kemur jafnframt fram að sú ákvörðun ráðherra að veita ekki fleiri einstaklingum uppreist æru og hefja endurskoðun á lagaákvæðum hafi einungis verið tekin munnlega en ekki verið skráð eða skriflega rökstudd þegar hún var tekin.
Athugasemdir