Sjálfstæðisflokkurinn leggur minnsta áherslu á að vinna gegn loftslagsbreytingum í stefnu sinni, en Píratar þá metnaðarfyllstu, samkvæmt úttekt Parísarhópsins svokallaða, sem berst fyrir því að Ísland geri sitt til að stöðva hlýnun jarðar við 1,5 gráðu og forða þar með frá afdrifaríkari breytingum á náttúrunni.
Píratar fengu 8,5 í einkunn en Björt framtíð kom fast á eftir með 8,1, Samfylkingin 7,8 og Vinstri græn 7,6.
Sjálfstæðisflokkurinn var neðstur með 4,7, en næstlægstur var Framsóknarflokkurinn með 5,5.
„Átta flokkar standast prófið eins og staðan er í dag og eru Píratar með metnaðarfyllstu stefnuna miðað við þetta rýni,“ segir í niðurstöðunum. „Lítið vantar uppá að Sjálfstæðisflokkurinn standist matið og virðist bara lítillega vanta uppá metnaðinn við að setja skýrari markmið og aðeins ítarlegri stefnu, en það þarf ekki mikið til og það virðist vera áhugi fyrir hendi þannig að þau geta vonandi gert enn betur í framtíðinni.“
Þess ber að geta að hvorki Miðflokkurinn né Flokkur fólksins svaraði spurningum hópsins og eru því ekki með í úttektinni.
„Loftslagsstefnur flokkanna miðað við þau svör og stefnur sem flokkarnir leggja fram fyrir kosningarnar 2017 virðast betri en var fyrir ári síðan,“ segir í umfjöllun hópsins. „Ef við göngum ekki vel til verks í þessum efnum í dag, þá skipta öll hin málin miklu minna máli. Við erum hluti af borgurum jarðarinnar og við þurfum öll að gera okkar til að minnka kolefnisfótspor af mannavöldum, því fyrr sem við byrjum þá mikilvægu vinnu, því betra.“
Í úttektinni voru flokkar spurðir út í stefnu þeirra í sex málum: 1. Olíuvinnslu á Drekasvæðinu. 2. Tölu- eða tímasett markmið í losun koltvíoxíðs. 3. Hagræna hvata gegn losun koltvíoxíðs. 4. Tillögur um breytingu innviða til að mæta vandanum, til dæmis um flýtingu rafbílavæðingar. 5. Tillögur varðandi endurheimt votlendis og skógrækt. 6. Annað almennt um loftslagsmál.
Athugasemdir