Nú þegar við Íslendingar erum orðnir HM-þjóð í fótbolta karla, þá er ekki seinna vænna að við verðum öll sérfræðingar í sögu HM bæði fyrr og síðar. Þar er mörg flækjan en óhætt að segja að einn allra sögufrægasti úrslitaleikurinn hafi verið á mótinu 1954 sem haldið var í Sviss. Úrslitin hafa líklega aldrei orðið óvæntari en þá, né fleiri spurningar vaknað eftir mótið.
En margt hafði gengið á á mótinu í Sviss áður en að úrslitaleiknum kom. Alls tóku sextán lið þátt í mótinu og í riðlakeppninni gerðist ekkert verulega óvænt. Öll þau lið sem fyrirfram voru talin sterkust komust áfram, það voru Úrúgvæjar heimsmeistararnir frá 1950, Englendingar, Brasilíumenn og síðast en ekki síst Ungverjar sem höfðu ekki tapað leik í fjögur ár og flestir töldu reyndar að ættu gullverðlaunin vís.
Í átta liða úrslitum fór ýmislegt að ganga á.
Englendingar voru handvissir um að þeir væru langbestir í heimi þrátt fyrir ýmis áföll á undanförnum árum en stóðust þrautþjálfuðu liði heimsmeistaranna engan snúning. Úrúgvæ vann 4-2.
Geggjaður leikur
Tvö af veikari liðunum í útsláttarkeppninni áttust svo við í einum ótrúlegasta fótboltaleik sögunnar, en það voru heimamenn í Sviss og nágrannar þeirra í Austurríki. Á 16. mínútu skoruðu Svisslendingar fyrsta markið og tveim mínútum síðar var staðan orðin 3-0! Ætla hefði mátt að Austurríkismenn legðu árar í bát en það var nú eitthvað annað. Á 25. mínútu minnkuðu þeir muninn í 3-1 og hófst þá þvílík markasúpa að á 9 mínútum skoruðu þeir 5 mörk. Svisslendingar náðu að svara fyrir sig fyrir leikhlé svo staðan í hálfleik var 5-4 fyrir Austurríki! Þessum geggjaða leik lauk svo 7-5 og hafa enn ekki verið skoruð fleiri mörk í einum leik í undankeppni HM.
Þriðji leikurinn í 8 liða úrslitum er þó enn frægari en þessi markaveisla, viðureign Brasilíu og Ungverjalands. Brasilíumenn höfðu haldið HM fjórum árum fyrr og höfðu þá talið sér sigurinn vísan. Þeir áttu þá stórkostlegt lið lipurra og sókndjarfra leikmanna og fór þar fremstur í flokki snillingurinn Zizinho sem var átrúnaðargoð hins unga Pelé. Brassar voru hins vegar of sigurvissir og grimmir Úrúgvæjar hrifsuðu af þeim HM-gullið í síðasta leik. Þessi ósigur var svo mikið áfall fyrir Brasilíumenn að þeir spiluðu ekki landsleik í tvö ár en voru nú að byggja upp nýtt lið sem þegar var orðið giska öflugt. Menn hlökkuðu til að sjá þá etja kappi við hina frábæru Ungverja sem höfðu fáum árum fyrr þótt koma fram með allt öðruvísi fótbolta en áður hafði sést, frjálsari og liðugri. Oft er talað um ungverska Gullaldarliðið – sem kallað er – sem fyrirrennara þess fræga hollenska liðs sem spilaði 20 árum síðar „total football“ með Johan Cruyff í broddi fylkingar, en í því fólst að leikmenn sátu ekki niðurnjörvaðir í sínum stöðum á vellinum, heldur áttu að geta skipt um stöður og hlutverk eftir þörfum og allt liðið tók þátt í bæði sókn og vörn.
Grófasti og ruddalegasti leikurinn
Mestu skipti þó fyrir Ungverja að af einhverjum ástæðum kom fram á árunum eftir stríð ótrúleg kynslóð ofursnjallra sóknarmanna. Það voru menn eins og Sándor Kocsis (68 landsleikir, 75 mörk), Nándor Hidegkuti (69 leikir, 39 mörk) og síðast en ekki síðast Ferenc Puskás (85 leikir, 84 mörk) sem auk þess að dæla inn mörkum var leiðtogi liðsins á vellinum og stjórnaði sóknarleiknum. Það þótti sannkölluð unun að horfa á lið Puskásar leika listir sínar á vellinum og því var viðureign þess við Brasilíumenn talið sérstakt tilhlökkunarefni.
Leikurinn fór vissulega í sögubækurnar en ekki fyrir þann flotta og leiftrandi fótbolta sem bæði lið áttu að geta sýnt. Þvert á móti. Úr varð ljótasti, grófasti og ruddalegasti fótboltaleikur í sögu lokamóta HM. Ekki mátti á milli sjá hvort liðið hagaði sér verr eða sýndi hættulegri tæklingar og bætti síst úr skák að leikurinn fór fram í ausandi rigningu sem gerði völlinn að forarsvaði og blautan leðurboltann bæði níðþungan og óútreiknanlegan. Þrír leikmenn voru reknir af velli fyrir slagsmál og hefðu víst fleiri mátt fjúka. Alls voru dæmdar 42 aukaspyrnur í leiknum og tvö víti. Þessi herlegheit hafa verið kölluð „orrustan í Bern“ en þar í borg var „leikurinn“ háður. Þegar upp var staðið höfðu Ungverjar unnið 4-2 og héldu því áfram en Brasilíumenn sneru heim með glóðarauga og öngul í rassi.
„Þýska efnahagsundrið“
Í fjórða leiknum í 8 liða úrslitum unnu Vestur-Þjóðverjar Júgóslava 2-0 en þýska liðið hafði naumlega komist í útsláttarkeppnina og meðal annars tapað 3-8 fyrir Ungverjum; þar skoraði Hidegkuti fjögur mörk. Þýskaland var enn í rústum eftir síðari heimsstyrjöldina og „þýska efnahagsundrið“ ekki hafið svo þessi árangur Vestur-Þjóðverja var talinn furðu góður en enginn kæmist öllu lengra í keppninni. Þeir lentu hins vegar á móti Austurríkismönnum í undanúrslitum og unnu nágranna sína af miklu öryggi 6-1.
„Það voru bæði efnahagsleg sár og sálræn.“
Þar með voru Vestur-Þjóðverjar komnir alla leið í úrslitaleikinn á HM, öllum á óvart. En þar skyldu þeir mæta Ungverjum öðru sinni á mótinu og var ekki búist við að útreið þeirra yrði öllu skárri en í fyrri leiknum. Ungverjar voru að vísu farnir að sýna nokkur þreytumerki og höfðu þurft framlengingu til að knésetja Úrúgvæja 4-2 í undanúrslitum, auk þess sem Puskás var hálfmeiddur, en hinir stórkostlegu hæfileikar sem bjuggu í léttleikandi Ungverjunum voru taldir yfrið nægir til að vinna Þjóðverja hvernig sem ástandið væri.
Bandamenn í seinni heimsstyrjöld
Það gleymist stundum, þegar um þennan leik er talað, undir hve stóru og dimmu pólitísku skýi hann var spilaður. Ungversk yfirvöld undir forystu fasistans Horthys flotaforingja og ríkisstjóra höfðu stutt Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og tekið til dæmis fullan þátt í innrásinni í Sovétríkin. Snemma árs 1944 höfðu þó verið farnar að renna allmargar grímur á Ungverja, enda mátti þá öllum vera ljóst að stríðið var tapað fyrir Þjóðverja og bandamenn þeirra. Þá hófu Ungverjar leynilegar viðræður við Breta og Bandaríkjamenn um að gefast upp en vildu ekkert við Sovétmenn tala. Þjóðverjar fréttu af þessu og tóku um vorið öll völd í Ungverjalandi og héldu þeim til stríðsloka með dyggum stuðningi ungverskra nasista í vígasveitum sem kölluðu sig Örvakrossinn. Síðasta hrina helfararinnar gegn Gyðingum reið þá yfir Ungverjaland og er af því hörmuleg saga. Ekkert af þessu breytti óaflátanlegri sókn hins sovéska Rauða hers vestur á bóginn og í desember 1944 settust Sovétmenn um Búdapest, höfuðborg Ungverjalands. Í febrúar 1945 gafst varnarlið borgarinnar upp og leifar þýska hersins í Ungverjalandi reyndi að komast heim til Þýskalands þar sem ósigur blasti þó líka við.
Járntjaldið
Eftir stríðið lenti Ungverjaland handan járntjaldsins. Sovétmenn stýrðu þar öllu með harðri hendi með hjálp ungverskra kommúnista og máttu Ungverjar nú iðrast stuðningsins við Þjóðverja. Þar hófst uppbygging, sem meðal annars gerði Ungverjum kleift að halda úti hinu stórkostlega fótboltaliði sínu, en árið 1954 voru sárin eftir heimsstyrjöldina fjarri því gróin. Það voru bæði efnahagsleg sár og sálræn. Athugið að aðeins voru níu ár frá stríðslokum eða nákvæmlega jafn langur tími og nú er liðinn á Íslandi frá hruninu. Flestallir leikmenn bæði Ungverja og Vestur-Þjóðverja höfðu verið komnir á táningsaldur og sumir fast að tvítugu þegar heimsstyrjöldinni lauk og því sannarlega mátt súpa af því ýmislegt seyði. Strákarnir í þýska liðinu höfðu eftir því sem best er vitað allir verið meðlimir í Hitlers-Æskunni og tekið þátt í að hylla foringjann Adolf Hitler fram á síðasta dag, þótt ekki viti ég til þess að þeim hafi verið att út í beina þátttöku í bardögum eins og raunin var um suma Hitlers-Æsku-stráka.
Og ungversku piltarnir höfðu horft upp á þau hervirki sem Þjóðverjar höfðu unnið í landi þeirra, bæði þeir sjálfir og óbeint með því að valda innrás og hernámi Rauða hersins.
Enn rigndi í Bern
Úrslitaleikurinn fór fram í Bern 4. júlí. Það rigndi frá fyrstu mínutu og þegar leið á leiðinn var rigningin orðin mjög veruleg. Ungverjar voru þreyttir eftir erfiðan leik gegn Úrúgvæ og langa og stranga rútuferð á leikstað en byrjuðu þó eins og búist var við með stórsókn. Þrátt fyrir meiðsli sín skoraði Puskás eftir aðeins 6 mínútur og Zoltán Czibor bætti við öðru marki tveim mínútum seinna.
2-0 eftir átta mínútur. Var nú ógurlegt burst í vændum? Jafnvel verra en 8-3 úrslitin í leik liðanna í riðlakeppninni?
Aldeilis ekki. Á 10. mínútu náðu Ungverjar ekki að hreinsa eftir sendingu inn í vítateig og þýski framherjinn Morlock potaði boltanum í markið. Á 16. mínútu jafnaði svo annar framherji, Walter Rahn, eftir hornspyrnu.
Fjögur mörk á 16 mínútum og jafnt. Ljóst var að þýska þjálfaranum, nasistanum Sepp Herberger, hafði auðnast að efla baráttuhug og sjálfstraust sinna manna svo þeir sýndu hinum mögnuðu Ungverjum enga virðingu. En nú tóku Ungverjar öll völd á vellinum. Í 70 mínútur samfleytt dundu ungverskar sóknir á þýska markinu í vaxandi steypirigningu en einhvern veginn tókst Þjóðverjum að verjast þeim öllum með samblandi af heppni og harðfylgni. Á 84. mínútu komust Þjóðverjar hins vegar í sjaldgæfa sókn og Rahn náði að gabba ungverskan varnarmann og skjóta í markið. Þjóðverjar voru komnir yfir. Puskás jafnaði um leið en markið var dæmt af vegna rangstöðu, sem þótti mjög umdeilanleg ákvörðun. Leiktíminn rann út í svaðinu sem völlurinn var og hið ótrúlega hafði gerst, hinir miklu Ungverjar voru að velli lagðir í fyrsta sinn í 40 leikjum.
Fræ uppreisnarinnar
Þetta voru óvæntustu og margir myndu segja ósanngjörnustu úrslit í sögu úrslitaleikja á HM. En Þjóðverjar skoruðu einfaldlega fleiri mörk en Ungverjar að þessu sinni, framhjá því varð ekki litið. Og þarna fæddist fótboltagoðsögnin um „þýska stálið“, liðið sem aldrei gefst upp, heldur seiglast áfram, ekki alltaf fagurlega og ekki alltaf fullkomlega heiðarlega kannski, en vinnur alltaf að lokum. Óhætt er að segja að sigurinn hafi skipt Vestur-Þjóðverja gríðarlegu máli. Þeir höfðu setið í níu ár í rústum Þriðja ríkisins, hnípnir og sjálfum sér sundurþykkir eftir ósköp heimsstyrjaldarinnar, en loksins fengu þeir eitthvað til að vera stoltir af á ný, loks fengu þeir eitthvað sem sameinaði en ekki sundraði.
Í Þýskalandi heitir þessi leikur „kraftaverkið í Bern“. Hann átti áreiðanlega sinn þátt í að Þjóðverjar tóku nú brátt að rétta svo úr kútnum að „efnahagsundrið“ fræga varð að veruleika. Hve stóran þátt er ekki gott að segja, en örugglega umtalsverðan.
En Ungverjar voru niðurbrotnir. Þeir höfðu búið sig undir að fagna heimsmeistaratitli hetjanna sinna en nú streymdu þeir í hundruða þúsunda tali út á götur í Búdapest og víðar til að lýsa vonbrigðum sínum, og voru fyrr en varði farnir að mótmæla leppstjórn Sovétríkjanna í landi sínu. Margir fullyrða að í viðbrögðunum eftir þennan ósigur hafi fallið fræ uppreisnarinnar sem braust út tveim árum seinna, haustið 1956 – og var brotin á bak aftur af mikilli grimmd af sovéskum skriðdrekum.
Maðkur í mysunni?
Svo sögulegur var þessi leikur sannarlega. Eftirmál snúast svo um að þrálátur orðrómur hefur æ síðan verið á kreiki um að hið mikla þolgæði sem þýsku leikmennirnir sýndu í Bern, og sú endalausa þrautseigja sem þeir höfðu til að verjast leiftrandi sóknum Ungverja, hafi í raun stafað af því að þeir hafi verið sprautaðir fullir af því amfetamíni sem þýskir hermenn í heimsstyrjöldinni höfðu verið látnir neyta ósparlega. Þjóðverjar hafa að vísu alltaf neitað þessu en það er þó líklegra en hitt að þetta eigi við rök að styðjast. Það mun þó aldrei verða til þess að Þjóðverjar verði sviptir þessum fyrsta heimsmeistaratitli sínum af fjórum, enda var lyfjaneyslan raunar alls ekki bönnuð á HM 1954.
Athugasemdir