Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fullyrti í fréttaviðtali við RÚV í gær að hann hefði aldrei gert tilraun til að stöðva umfjöllun um viðskiptagjörninga sína í aðdraganda hrunsins. „Ég hef aldrei gert neina tilraun til að stöðva slíkan fréttaflutning. Ég hef bara leitast við að koma fram með svör,“ sagði hann.
Raunin er hins vegar sú að þegar DV hóf umfjöllun um Vafningsviðskiptin og aðkomu Bjarna Benediktssonar að þeim árið 2009, brást Bjarni við með því að hringja í eiganda blaðsins og reyna þannig að hafa áhrif á fréttaflutninginn. „Hann var ekkert að skafa af því, hann ætlaðist til þess að ég stöðvaði þennan fréttaflutning,“ sagði Hreinn Loftsson, aðaleigandi DV, þegar hann lýsti símtali Bjarna árið 2009. Sjálfur viðurkenndi Bjarni að hafa beitt sér gagnvart eigandanum en hafnaði því að hafa reynt að stöðva fréttaflutninginn.
Segist hafa „leitast við að koma fram með svör“
Bjarni sagði í viðtali við RÚV í gær að hann teldi lögbann sýslumanns á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavik Media upp úr gögnum Glitnis vera fjarstæðukennt og koma sjálfum sér illa.
Í viðtalinu fullyrðir Bjarni ekki aðeins að hann hafi aldrei reynt að stöðva fréttaflutning af sínum málum heldur einnig að hann hafi sjálfur alltaf reynt að gefa skýringar og svara spurningum um fjármál sín og viðskiptagjörninga.
„Ég hef bara leitast við að koma fram með svör. Og ég tel að við eigum að byggja okkar opna samfélag upp með þeim hætti að fjölmiðlar séu frjálsir af því að flytja fréttir, fjalla um málefni, sérstaklega þau sem varða almenning,“ sagði Bjarni orðrétt í viðtali við RÚV í gær.
Undanfarnar vikur hefur Stundin ítrekað óskað eftir viðtali við Bjarna Benediktsson vegna umfjöllunar blaðsins um fjármál hans og fjölskyldu hans í aðdraganda hrunsins. Við því hefur ekki verið orðið. Þá hefur Stundin sent Bjarna spurningar um einstök atriði sem fjallað hefur verið um en ekki fengið svör.
Blaðamaður Guardian leiðrétti Bjarna
Bjarni hefur hins vegar tjáð sig um málið á öðrum vettvangi og gagnrýnt fjölmiðla harðlega.
Daginn sem Stundin, Guardian og Reykjavik Media birtu fyrstu umfjöllunina sem byggði á gögnum Glitnis fullyrti Bjarni að tímasetningu frétta hefði verið hagrætt til að koma höggi á sig. „Blaðamaðurinn sem hringdi í mig frá Bretlandi, hann beinlínis sagði mér að þeir hefðu haft þessi gögn, þessar upplýsingar, í margar vikur og að þeir hefðu beðið eftir réttu tímasetningunni,“ sagði Bjarni.
Í kjölfarið sendi blaðamaður Guardian, Jon Henley, frá sér yfirlýsingu og sagði forsætisráðherra hafa lagt sér orð í munn og fara með kolrangt mál.
Gögnin afjúpuðu villandi málflutning
„Ég hef aldrei veigrað mér við því að koma með skýringar og svör við því sem menn vilja vita um mín málefni,“ sagði Bjarni í viðtalinu við RÚV í gær. „Maður fórnar miklu með því að fara í pólitík af persónufrelsi sínu. Og það er staðreynd sem ég hef fyrir löngu sætt mig við.“
Umfjöllun Stundarinnar á grundvelli Glitnisgagnanna hefur varpað ljósi á að „skýringar og svör [forsætisráðherra] við því sem menn vilja vita“ hafa í gegnum árin oft verið villandi eða falið í sér rangfærslur.
Dæmi um þetta er vitnisburður hans í Vafningsmálinu, þar sem hann sagðist enga aðkomu hafa átt að Vafningsfléttunni aðra en að skrifa undir skjöl fyrir hönd ættingja sinna.
Eins og Stundin hefur greint frá benda Glitnisgögnin til þess að aðkoma Bjarna og vitneskja hafi verið meiri og að það sem Bjarni hefur lýst sem „þriðja aðila“ hafi verið félag sem var að mestu stýrt af Bjarna sjálfum.
Annað dæmi eru ummæli Bjarna fyrir tæpu ári um að hann hefði ekki átt „neitt sem máli skipti“ í peningamarkaðssjóðnum Sjóði 9 fyrir hrun.
Raunin er sú að hann átti 165 milljónir króna í sjóðnum nokkrum mánuðum fyrir hrun og innleysti rúmlega 50 milljónir úr sjóðnum dagana 2. til 6. október 2008.
Fleiri sams konar dæmi um ýmist villandi eða rangan málflutning Bjarna verða rakin í næsta tölublaði Stundarinnar sem kemur út á föstudag. Vegna lögbannsins sem sett hefur verið á umfjöllun á grundvelli Glitnisgagnanna getur blaðið þó ekki byggt á frekari upplýsingum úr gögnunum en nú þegar hafa komið fram í fréttum Stundarinnar.
Viðurkenndi að hafa beitt sér gagnvart eiganda
Þegar Bjarni var sakaður um að hafa reynt að stöðva fréttaflutning DV á sínum tíma staðfesti hann að hafa hringt í eiganda til að kvarta undan umfjölluninni. „Ætlun mín var einfaldlega sú að segja eiganda blaðsins skoðun mína á óásættanlegum vinnubrögðum blaðamanns sem þar starfar og útskýra fyrir honum í hverju ég teldi rangfærslur þess liggja,“ sagði Bjarni í samtali við Pressuna á sínum tíma.
„Hann svaraði því til að ég ætti
að stöðva þennan fréttaflutning“
Hreinn Loftsson brást við og sagðist standa við yfirlýsingu sína. „Bjarni Benediktsson er ómerkingur og ætti ekki að koma nálægt stjórnmálum. Hann lýgur því að Pressunni að ég hafi ekki borið upp þá spurningu við hann, hvers hann ætlaðist til af mér í framhaldi af athugasemdum hans við fréttaflutning DV í símtali fyrr í dag,“ sagði Hreinn. „Þessa spurningu bar ég fram og hann svaraði því til að ég ætti að stöðva þennan fréttaflutning. Þetta var ekki langt samtal, það er rétt hjá Bjarna, því ég sagðist ekki lúta boðvaldi hans og hann skyldi gera athugasemdir við ritstjórn DV, ef hann teldi ekki rétt með farið varðandi þessar fréttir. Þá er það einnig rétt hjá Bjarna, að ég skellti á hann, enda er ég ekki vanur að eiga löng samtöl við símadóna af þessu tagi.“
Athugasemdir