Bjarni Benediktsson, þingmaður og núverandi forsætisráðherra, fundaði ítrekað með forsvarsmönnum Glitnis í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi í október árið 2008. Stundin hefur áður greint frá fundi hans með bankastjóra Glitnis, Lárusi Welding, þann 19. febrúar 2008, tveimur dögum áður en hann hóf sölu á hlutabréfum sínum í bankanum, og frá fundinum sem hann sat í höfuðstöðvum Stoða aðfaranótt 29. september, daginn áður en ríkið lofaði að taka yfir 75 prósent í Glitni til að bjarga bankanum frá falli.
Bjarni var þátttakandi í báðum þessum fundum sem stjórnmálamaður en hann var líka fjárfestir á þessum tíma og átti mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta í Glitni, meðal annars í Sjóði 9, eins og greint hefur verið frá í Stundinni.
Vildi „reglulegt“ samband við Lárus
Bjarni var einnig með Lárusi Welding í lok ágúst 2008, rúmum mánuði fyrir bankahrunið, og sendi hann honum tölvupóst um það þann 23. ágúst þar sem hann þakkaði fyrir „samveruna fyrir austan“ og sagði meðal annars: „Við skulum endilega halda sambandi. Gott að fara yfir stöðuna reglulega, m.a. í efnahagsmálum.“
„Gott að fara yfir stöðuna reglulega“
Bjarni sendi þennan tölvupóst til Lárusar af netfangi sínu hjá Alþingi Íslands, líkt og hann gerði nær alltaf þegar hann átti í samskiptum við stjórnendur og starfsmenn Glitnis á þessum tíma. Þá skipti ekki máli hvort hann ræddi við þá sem stjórnmálamaður eða fjárfestir, hvort sem hann ræddi um eigin fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum eða sem stjórnarformaður olíufélagsins N1 og móðurfélags þess BNT.
Þessi tölvupóstur til Lárusar Weldings er bara einn af mörgum sem sýnir náin samskipti hans við Glitni og starfsmenn bankans á árunum fyrir bankahrunið 2008. Eins og Stundin greindi frá í gær þá ræddi Bjarni við Lárus um „lausn“ á „vanda bankanna“ í febrúar 2008. Tveimur dögum síðar seldi Bjarni hlutabréf í Glitni fyrir 119 milljónir króna.
Bjarni ósáttur við orðalagið „fundi“
Bjarni Benediktsson er ekki sáttur við fréttaflutning Stundarinnar af viðskiptum hans með hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 í aðdraganda hrunsins 2008 og hefur gagnrýnt sérstaklega það orðalag á Facebook-síðu sinni að hann hafi setið „fundi“ um stöðu Glitnis í aðdraganda bankahrunsins 2008. Í grein Stundarinnar var orðið fundur notað í fleirtölu og svo var rætt ítarlega um fundinn í höfuðstöðvum Stoða aðfaranótt 29. september. Í greininni er einnig líka rætt ítarlega um fund hans með Lárusi Welding í febrúar.
Í gagnrýni sinni lætur Bjarni að því liggja að fram hafi komið í Stundinni að hann hefði fundað með efnahags- og skattanefnd Alþingis vegna Glitnis. Ekki kemur fram í neinni umfjöllun Stundarinnar að fundað hafi verið í efnahags- og skattanefnd dagana fyrir hrun, eða að fjallað hafi verið um „gríðarlega alvarlega“ stöðu Glitnis í nefndinni, en það var gert í þeim fundi sem Stundin vísaði til í höfuðstöðvum Stoða.
Miðað við upplýsingarnar sem fyrir liggja voru samskipti Bjarna og Lárusar talsverð á þessum mánuðum fyrir hrunið enda vildi Bjarni halda „reglulegu sambandi“ við hann. Hvað þeir voru að gera saman „fyrir austan“ í lok ágúst 2008 kemur ekki fram í tölvupóstinum, eða hvort þar hafi verið um að ræða formleg eða óformleg samskipti.
Þannig átti Bjarni reglulega samskipti við forsvarsmenn Glitnis sem kjörinn fulltrúi, að eigin frumkvæði, samhliða því og í aðdraganda þess að hann átti í persónulegum viðskiptum með hlutabréf í bankanum og svo bréf í Sjóði 9 á vegum bankans. Þá áttu nánir ættingjar hans, faðir hans og föðurbróðir, í verulegum viðskiptum tengdum bankanum á sama tímabili og Bjarni.
Athugasemdir