Karlmaður reyndi í morgun að lokka telpu í fjórða bekk inn í bíl til sín við Flataskóla í Garðabæ. Hann mun hafa kallað til hennar, sagt að mamma hennar væri á spítala og að hún yrði að koma með honum. Lögreglan rannsakar nú málið.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bréfi sem Edda Björg Sigurðardóttir, skólastjóri Sjálandsskóla í Garðabæ, sendi foreldrum nú síðdegis. Þá segir einnig að telpan hafi brugðist rétt við, hlaupið í skólann og látið vita. Foreldrar eru beðnir að ræða við börnin um málið.
Bréf skólastjóra Sjálandsskóla í heild:
„Komið þið sæl.
Ég vil upplýsa ykkur kæru forráðamenn um að nú í morgun gerðist það við Flataskóla við skólabyrjun að lítil telpa, nemandi í fjórða bekk, varð fyrir því að ókunnur maður kallaði til hennar og reyndi að fá hana í bílinn til sín. Hann tjáði henni að mamma hennar væri á spítala og að stelpan ætti að koma með honum. Hún var að ganga á Smáraflötinni á leið sinni til skólans. Telpan brást hárrétt við og kom hlaupandi niður í skóla og lét vita. Málið var tafarlaust tilkynnt til lögreglu sem er nú með það til rannsóknar. Lögreglan mun einnig verða með bíl á sveimi hér við helstu gönguleiðir næstu daga.
Við munum biðja umsjónarkennara að ræða við börnin í skólanum varðandi þetta mál. Það er mikilvægt að þið ræðið við börnin ykkar án þess að hræða þau um of. Góð regla er að segja börnum að ef einhver þeim nákominn lendir í slysi eða einhverju slíku að þá er það lögregla í lögreglubúning eða einhver sem þau þekkja vel sem tilkynnir málið og þau eigi aldrei að fara upp í bíl með ókunnugum.
Með kærri kveðju,
Edda Björg Sigurðardóttir
skólastjóri Sjálandsskóla“
Athugasemdir