„Ríkisstjórn Íslands fallin vegna nýjasta hneykslismálsins.“
„Ríkisstjórn Íslands í uppnámi eftir að samstarfsflokkur hættir.“
„Ríkisstjórn Íslands riðar til falls vegna hneykslismáls.“
Þetta eru dæmi um fyrirsagnir sem birst hafa í erlendum fjölmiðlum í morgun eftir að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Ástæðan sem Björt framtíð gefur er trúnaðarbrestur í máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar, manns sem dæmdur var árið 2004 fyrir að brjóta gegn stjúpdóttur sinni nær daglega í tólf ár. Faðir forsætisráðherra veitti Hjalta meðmæli þegar hann sótti um og fékk uppreist æru, en því var haldið leyndu fyrir almenningi, Alþingi og samstarfsflokkum sjálfstæðismanna í ríkisstjórn.
Á vefsíðu Breska ríkisútvarpsins, BBC, er slegið upp: „Ríkisstjórn Íslands fallin vegna barnaníðingsfárs“.
Í fréttinni kemur fram að uppþot vegna tengsla barnaníðings við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hafi orðið til þess að ríkisstjórn Íslands féll.
Athugasemdir