Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Tilkynnt var um málið á Facebook-síðu flokksins eftir að fundi lauk, en ástæða stjórnarslitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar vegna máls Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Seinna í nótt sendi þingflokkur Viðreisnar frá sér yfirlýsingu þar sem kallað er eftir því að boðað verði til kosninga sem fyrst.
Hjalti Sigurjón var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi árið 2004 fyrir að hafa brotið gegn stjúpdóttur sinni nær daglega í tólf ár. Stundin greindi frá því þann 25. ágúst síðastliðinn að Hjalti hefði fengið uppreist æru, og í gær var staðfest að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, væri einn þeirra sem veitt hefðu Hjalta meðmæli vegna umsóknar hans.
Dómsmálaráðuneytið og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa beitt sér af mikilli hörku fyrir því að leynd ríki um nöfn umsækjenda um uppreist æru, meðmælenda þeirra og málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins. Þetta var gert undir þeim formerkjum að um viðkvæmar persónuupplýsingar væri að ræða sem ættu lögum samkvæmt að fara leynt.
Engu að síður viðurkenndi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, í gærkvöldi að hafa greint Bjarna Benediktssyni frá því í sumar að faðir hans hefði veitt Hjalta Sigurjóni meðmæli. Svo virðist sem þetta hafi verið dropinn sem fyllti mælinn hjá Bjartri framtíð.
Í yfirlýsingu Viðreisnar, sem send var út um fjögurleytið í nótt, kemur fram að fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafi vakið sterk viðbrögð meðal flokksmanna líkt og í samfélaginu öllu. „Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varða,“ segir í yfirlýsingunni.
Athugasemdir