Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi flokksins í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, ætlar að leggja til að Alþingi veiti dómsmálaráðherra skýra lagaheimild til að hætta að veita mönnum uppreist æru meðan unnið er að breytingum á lagaumhverfinu um slíkar stjórnsýsluathafnir.
„Það virðast allir sammála um að kerfið í kringum uppreist æru sé ónýtt og kalli á umfangsmiklar lagabreytingar. Við þær aðstæður er eðlilegt að ráðuneytið afgreiði héðan í frá ekki umsóknir um uppreist æru, en ráðherrann virtist á fundinum ekki telja sig hafa heimild til þess,“ segir Andrés Ingi í samtali við Stundina.
Á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í gær neitaði ráðherra að svara spurningu Andrésar um hvort ráðuneytið hygðist setja ferli við veitingu uppreist æru „í frost“ meðan vinna við endurskoðun lagaákvæða stæði yfir.
Andrés segir mikilvægt að ráðherra fái skýra lagaheimild til þess. „Ég hef sett af stað vinnu við að semja frumvarp sem frysti kerfið á meðan unnið er að lagfæringum. Þegar málið er tilbúið mun ég bjóða öllum þingmönnum sem áhuga hafa að flytja það með mér og vona að við getum klárað það hratt og örugglega,“ segir hann.
Fyrir rúmum tveimur vikum birti dómsmálaráðneytið yfirlit um beiðnir um uppreist æru. Þar kemur fram að umsókn barnaníðings, sem hlaut 18 mánaða dóm, liggur fyrir í ráðuneytinu en ákvörðun hefur ekki verið tekin í málinu.
Mikil reiði blossaði upp í vor eftir að greint var frá því að kynferðisbrotamaðurinn Robert Downey hefði fengið uppreist æru og öðlast lögmannsréttindi á ný. Robert var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2008 fyrir að brjóta gegn fjórum stúlkum, einni sem var fjórtán ára þegar brotin voru framin og þremur sem voru fimmtán ára. Hann komst í samband við stúlkurnar með blekkingum og tældi þær til kynmaka með peningagjöfum. Árið 2010 var hann dæmdur á ný fyrir brot gegn fimmtu stúlkunni án þess að honum væri gerð refsing í því máli.
Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, lagði til við forseta Íslands þann 14. september 2016 að Robert fengi uppreist æru og óflekkað mannorð en bréfið var undirritað af forseta tveimur dögum síðar og öðlaðist þá formlegt gildi. Stundin greindi svo frá því í síðustu viku að sama dag hefði maður, sem dæmdur var árið 2004 fyrir að nauðga stjúpdóttur sinni nær daglega frá því hún var um 5 ára gömul þar til hún var tæplega 18 ára, fengið uppreist æru.
Athugasemdir