Varaþingkonan Karólína Helga Símonardóttir, sem tekur við þingsæti Theodóru S. Þorsteinsdóttur eftir áramót, gagnrýnir karllægt vinnuumhverfi á Alþingi í viðtali í Morgunblaðinu í dag og nefnir sérstaklega að vinnudagar séu langir.
„Það er bara spurning hvort þetta þurfi að vera svona, þarf alltaf að geyma allt til þess síðasta, er ekki hægt að klára aðeins fyrr og vera aðeins skipulagðari?“ er haft eftir Karólínu.
Sem kunnugt er þiggja þingmenn meira en 1,1 milljón í laun á mánuði og fá fleiri frídaga en flestar aðrar starfsstéttir. Þá eru engin viðurlög við því að þingmenn mæti ekki til vinnu mánuðum saman, sniðgangi atkvæðagreiðslur og nefndarfundi.
Theodóra, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, tilkynnti í viðtali við Kópavogsblaðið um helgina að hún ætlaði að hætta þingmennsku. Fullyrti hún að þingmenn kæmu „hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur“ og gagnrýndi að flest mál sem væru samþykkt kæmu úr ráðuneytum í gegnum ríkisstjórn. Sjálf hefur Theodóra aldrei lagt fram þingmál, hvorki lagafrumvarp né þingsályktunartillögu.
Karólína Helga hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri hjá fyrirtækinu Seeds, en hún er mannfræðingur að mennt. Á vef Bjartrar framtíðar líkir hún sjálfri sér við vasahníf. „Hnífinn er hægt að nýta á marga vegu, hann er harðgerður, vinnusamur, þú veist alltaf að hverju þú gengur, hann er öllu viðbúin og alltaf til staðar. Þar er mér ágætlega lýst, ég er ekki mikið fyrir að berja mér á brjóst en ég hef ástríðu fyrir þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendi og klára þau af fagmennsku,“ skrifar hún.
Fram kemur að ástæða þess að Karólína valdi Bjarta framtíð sé fyrst og fremst sú að hún „trúi á þær hugsjónir sem Björt framtíð hefur fram að færa, meiri vinnu og minna tuð. Flokkur með framtíðarsýn í öllum málum, ekki skammtímalausnir.“
Athugasemdir