Skýrsla starfshópsins um stefnumörkun í fiskeldi á Íslandi, sem gerð var opinber á miðvikudaginn, snýst nær alfarið um sjókvíaeldi á laxfiskum við strendur landsins. Þannig er skýrslan innrömmuð af því að það er þetta eldi sem laxeldisfyrirtækin íslensku stunda.
Þessi aðferðafræði við vinnslu skýrslunnar kemur ágætlega fram í eftirfarandi textabroti á bls. 5 í skýrslunni: „Með vísan til þessa hefur mestur tími starfshópsins farið í umræður og skoðun á starfsskilyrðum sjókvíaeldis, þeim tækifærum sem í slíku eldi felast auk greiningar á þeim áskorunum sem slíkt eldi stendur frammi fyrir við strendur landsins.“
Eins og áhersla stærsta hagsmunaaðilans í laxeldi á Íslandi, SalMar AS, á aflandseldislausnum sýnir þá er sjókvíaeldi við strendur landa ekki framtíðin í greininni vegna þess að til eru sjálfbærari lausnir sem vernda betur lífríki sjávar og eins fallvatna við strendur landa. Eitt helsta markmið starfshópsins varðandi íslenskt fiskeldi næst því væntanlega betur með öðrum aðferðum en sjókvíaeldi þótt skýrslan snúist nær bara um það: „Að íslenskt fiskeldi í sjókvíum byggi á sjálfbærri þróun og vernd lífríkis.“
Sú staðreynd að sjókvíaeldi við strendur landa er ekki framtíðin má ekki bara sjá í vinnu norska laxeldisfyrirtækisins sem byggir á þeirri staðreynd að ljóst þykir að slíkt eldi hefur slæm umhverfisáhrif og að til eru „sjálfbærari“ lausnir eins og SalMar sjálft er meðvitað um. Sænskur dómstóll ákvað til dæmis fyrr á árinu að banna sjókvíaeldi í opnum sjókvíum úti fyrir austurströnd landsins, á svæði við Eystrasaltið sem kallast Höga kusten, með fjórum dómum.
„Dregið er sterklega í efa að opnar sjókvíar séu besta mögulega tæknin til að stunda fiskeldi“
Dómarnir eru byltingarkenndir af því þeir gera þá kröfu til eldisfyrirtækjanna að þau sanni að fiskeldi í sjókvíum valdi lífríki sjávar ekki skaða og benda þeim á að finna eigi umhverfisvænni aðferðir við eldið. Í sænskum náttúruverndarlögum er tekið fram að í iðnaði sem spillir umhverfinu skuli ætíð notast við „bestu mögulegu tækni“ sem minnstu umhverfisáhrifin hefur og er vísað til þessara laga í dómunum.
Í einum þeirra segir meðal annars: „Dregið er sterklega í efa að opnar sjókvíar séu besta mögulega tæknin til að stunda fiskeldi: Á sama tíma og það er erfitt að meta umhverfisáhrifin af starfseminni þá má setja spurningarmerki við þá tækni sem notuð er – opnar kvíar sem ekki veitir neinn möguleika á hreinsun á fóðurleifum eða saur – sé besta mögulega tæknin,“ segir þar og þurfa eldisfyrirtækin að fjarlægja sjókvíar sínar frá ströndinni innan þriggja ára til að koma í veg fyrir umhverfisáhrifin af fiskeldinu. Í einum dómnum er svo meira segja tekið fram að eitt af eldisfyrirtækjunum fái einungis þrjú ár til að fjarlægja sjókvíar sínar úr Eystrasaltinu en ekki sjö ár eins og héraðsdómstóll í Svíþjóð hafði kveðið á um. Ástæða þessa er sú sænski dómstóllinn telur að umhverfinu stafi það mikil möguleg hætta af fiskeldi í opnum sjókvíum að ekki sé verjandi að leyfa eldið áfram til sjö ára.
Í löndunum í kringum okkur þar sem fiskeldi er stundað eru opnar sjókvíar því að verða að fiskeldisaðferðum fortíðarinnar vegna umhverfisáhrifa þeirra. Og það sem meira er þá eru fiskeldisfyrirtækin sjálf sem nota þessar aðferðir, eins og SalMar, farin að þróa nýjar eldisaðferðir sem talið er að hafi minni umhverfisáhrif.
En íslenska stefnumörkunin byggist bara á þessari eldisaðferð þó hún sé á undanhaldi og að búið sé að finna upp nýjar tæknilausnir eins og aflandseldið, og eins fiskeldi á landi, sem eru sjálfbærari og umhverfisvænni.
Athugasemdir