Eigendur Hringbrautar, Fréttatímans og Kjarnans styrktu Viðreisn samtals um meira en tvær milljónir króna í fyrra samkvæmt ársreikningi flokksins.
Aðaleigandi Hringbrautar, Sigurður Arngrímsson, styrkti flokkinn um meira en milljón þegar allt er tekið saman. 400 þúsund krónur voru gefnar í gegnum félag hans Saffron Holding, sem á 99,18 prósenta hlut í Hringbraut og er í eigu félagsins Saffron Holding Malta Ltd. á Möltu; 400 þúsund krónur komu frá Sigurði milligöngulaust og um 400 þúsund krónur í gegnum félagið Ursus Maritimus (sem nú heitir Maritimus Investors) sem hann á 75 prósenta hlut í. Guðmundur Örn Jóhannsson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri Hringbrautar og er fyrrverandi aðaleigandi stöðvarinnar, styrkti flokkinn um 310 þúsund krónur.
Dexter fjárfestingar ehf., félag Sigurðar Gísla Pálmasonar sem átti 18 prósenta hlut í Fréttatímanum sáluga, styrkti Viðreisn um 400 þúsund krónur. Þá styrkti Miðeind, félag Vilhjálms Þorsteinssonar fjárfestis sem á 15,98 prósenta hlut í Kjarnanum, flokkinn um 200 þúsund krónur.
Athugasemdir