Eftir að ég hætti á sjónlistarbraut í Myndlistaskólanum í Reykjavík í fyrra leið mér frekar ömurlega. Sem fimm ára stelpa var ég send á myndlistarnámskeið á meðan aðrir krakkar voru í ballett eða íþróttum því ég var svo óð í að teikna. Ég fékk mikla útrás í listum, en ég fæ líka útrás í mörgum öðrum áhugamálum þannig að ég vissi ekki hvort ég vildi gera list að ævistarfi mínu eða ekki.
Í kjölfarið tók ég ákvörðun um að ferðast til Indlands með kærastanum mínum, en við vorum þar frá janúar og fram í apríl. Við tókum skeifu í gegnum landið frá Kerala í suðri til Rajasthan í norðri og síðan aftur suður til Góa. Ferðin var ótrúleg og það var mikið menningarsjokk að koma aftur heim til Íslands eftir þetta ferðalag, en síðan duttum við aftur í rútínuna bakvið hversdagslífið.
Margir vinir mínir hafa farið í heimsreisu eftir menntaskóla og sumir þeirra hafa „frelsast“ í Indlandi, en góð vinkona mín sagði mér að ég hefði verið eina manneskjan sem kom aftur og var ekki gjörsamlega breytt. Ég held að það sé vegna þess að mér finnst eins og ég sé alltaf að breytast og þróast með hverjum deginum.
Ég held að því meira sem þú ferðast, því meira sérðu, og því meira minnkar þú; þú sérð að tilvera þín er stórmerkileg, en á sama tíma alls ekki. Maður er bara peð í þessum heimi, og á meðan að peð getur fellt konunginn þá getur það líka bara ferðast svolítið um skákborðið og notið útsýnisins.
Athugasemdir