Matvælaframleiðsla ISS, sem framleiðir mat fyrir leikskóla, skólamötuneyti og öldrunarheimili, auk fjölda fyrirtækja, hefur ekki uppfyllt „kröfur um góða starfshætti sem settar eru fram í reglugerð um hollustuhætti sem varða matvæli“.
Bæjarráð Kópavogs ákvað 15. júní síðastliðinn að semja við ISS um matseld fyrir tvo grunnskóla, Kópavogsskóla og Smáraskóla, til næstu þriggja ára. Útboðið hefur nú verið kært, þar sem tilboð lægstbjóðanda, Sölufélags garðyrkjumanna, var metið ógilt vegna skorts á gögnum.
Tugir frávika greindust í eftirliti heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í janúar síðastliðnum og höfðu mörg þeirra verið greind strax í apríl 2016. Daginn eftir ákvörðun bæjarráðs Kópavogs, 16. júní síðastliðinn, fór heilbrigðiseftirlit aftur í vettvangsrannsókn hjá ISS og komst að því að lítið hafði verið um úrbætur. Hálfu ári eftir margvíslegar athugasemdir heilbrigðiseftirlitsins hafði engin úrbótaáætlun verið færð fram af fyrirtækinu og auk þess greindist „alvarlegt frávik“ frá starfsleyfi vegna slæms ástands, hita, rakaskemmda, „skordýraálags“ og fleira í uppþvottarými.
„Sem betur fer er ekki mikið um það.“
Þess ber að geta að algengt er að gerðar séu athugasemdir eftir eftirlitsferðir hjá matvælafyrirtækjum. Ekkert matvælafyrirtæki kemst fullkomlega athugasemdalaust í gegnum skoðun eftirlitsins, en þar sem ISS eldar fyrir viðkvæma hópa og í miklu magni eru gerðar sérstakar kröfur um verklag, sem ISS hefur ekki náð að uppfylla þrátt fyrir áskoranir heilbrigðiseftirlitsins.
Jón Ragnar Gunnarsson, fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins, segir að ekki sé algengt að alvarleg frávik greinist, en býst við að úrbætur séu í farvegi. „Það er ekki mjög algengt, nei. Það er eitthvað um það. Sem betur fer er ekki mikið um það.“
Athugasemdir