Norskir fjölmiðlar hafa nú birt öll samskipti forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, og Alexander Stubb, forseta Finnlands, við Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem leiddu til ógnandi svars frá þeim síðarnefnda.
Norrænu leiðtogarnir vildu freista þess að bera klæði á vopnin eftir að Trump tilkynnti um 10% og svo 25% refsitolla á nokkur Evrópuríki sem styðja fullveldi Grænlands gegn ásælni Trumps og áformum um að innlima landið með valdi inn í Bandaríkin.
„Kæri forseti, kæri Donald – varðandi samskiptin yfir Atlantshafið – varðandi Grænland, Gasa, Úkraínu – og tollatilkynningu þína í gær.
Þú þekkir afstöðu okkar í þessum málum. En við teljum að við ættum öll að vinna að því að róa ástandið og draga úr spennu – það er svo mikið að gerast í kringum okkur þar sem við þurfum að standa saman.
Við leggjum til símtal við þig seinna í dag – annaðhvort með okkur báðum eða hvorum í sínu lagi – láttu okkur vita hvað þú kýst! Bestu kveðjur – Alex og Jonas.“
Svar Trumps hefur verið skilið sem svo að hann hafni fullveldi Danmerkur og Grænlands, og í raun fleiri ríkja. Þá felst í því undirliggjandi hótun um að beita hernaði.
Trump ávarpaði aðeins Jonas Gahr Støre, þrátt fyrir að hann hafi átt í góðum samskiptum við Finnlandsforseta.
Skilaboðin voru eftirfarandi, í gegnum sendiherra:
„Kæri sendiherra:
Trump forseti hefur beðið um að eftirfarandi skilaboð, sem deilt var með Jonas Gahr Støre forsætisráðherra, verði áframsend til [nafn þjóðhöfðingja/ríkisstjórnarleiðtoga] yðar
„Kæri Jonas: Í ljósi þess að land þitt ákvað að veita mér ekki friðarverðlaun Nóbels fyrir að hafa stöðvað ÁTTA stríð PLÚS, finnst mér ég ekki lengur skuldbundinn til að hugsa eingöngu um frið, þótt hann verði ávallt í fyrirrúmi, heldur get ég nú hugsað um það sem er gott og rétt fyrir Bandaríki Norður-Ameríku. Danmörk getur ekki varið það land fyrir Rússlandi eða Kína, og hvers vegna eiga þeir yfirleitt „eignarrétt“? Það eru engin skrifleg skjöl, það er aðeins vegna þess að bátur lenti þar fyrir hundruðum ára, en við létum báta lenda þar líka. Ég hef gert meira fyrir NATO en nokkur annar frá stofnun þess, og nú ætti NATO að gera eitthvað fyrir Bandaríkin. Heimurinn er ekki öruggur nema við höfum ALGJÖRA og FULLA stjórn á Grænlandi. Takk fyrir! DJT forseti“
Norsk stjórnvöld hafa reynt að leiða Trump fyrir sjónir að það er sérstök nóbelsnefnd sem ákvarðar hverjir fá friðarverðlaun Nóbels, en hún er skipuð af norska Stórþinginu.
Trump fékk í síðustu viku verðlaunapeninginn að gjöf frá Mariu Corinu Machado, friðarverðlaunahafa Nóbels, eftir að hafa kvartað sáran undan því að fá ekki verðlaunin.




















































Athugasemdir (3)