Af hverju er öll þessi olía í Venesúela?

Vald­arán eða vald­aránstilraun Trumps í Venesúela snýst um olíu, það er ljóst. En hvað er öll þessi ol­ía að gera í iðr­um lands­ins?

Af hverju er öll þessi olía í Venesúela?
Lífið í Venesúela fyrir 100 milljónum ára. Landið var þá að mestu undir sjávarmáli. Þessi sjávardýr urðu hluti olíuauðlindanna sem nú er bitist um þó megnið af olíunni sé raunar myndað af örsmáum þörungum.

Ég hef sannfrétt að þið þráið að vita hvernig á því stendur að Venesúela situr á stærstu olíulindum í öllum heiminum en mun minna er af olíu í nágrannaríkinu Kólumbíu.

Munurinn er sannarlega himinhrópandi.

Þótt Kólumbía og Venesúela deili landamærum, þá situr Venesúela á um 304 milljörðum tunna af olíubirgðum, sem vitað er um, á meðan Kólumbía á aðeins um 2 milljarða. Þetta þýðir að Venesúela á um 150 tunnur fyrir hverja eina sem Kólumbía á.

Þegar kemur að vinnslunni snýst dæmið við á óvæntan hátt.

Vegna pólitísks óstöðugleika, viðskiptabanna og skorts á viðhaldi hafa innviðir Venesúela drabbast niður. Þrátt fyrir þessar óskaplegu olíulindir, sem eru meiri en lindir Sádi-Arabíu, dæla Venesúelamenn nú aðeins upp um 800.000 til 900.000 tunnum á dag.

Kólumbíumenn, sem eiga örlítið brot af birgðum Venesúela, dæla hins vegar upp næstum jafn miklu, eða um 750.000 tunnum á dag.

Kólumbía vinnur því af mikilli natni úr sínum litlu lindum á meðan „risinn í austri“ nær aðeins að nýta örfá prósent af olíuhafinu undir yfirborðinu.

En magnið segir raunar aðeins hálfa söguna; gæðin eru nefnilega allt önnur. Olían í Kólumbíu er að miklu leyti „létt“ eða „miðlungsþung“, sem kallað er, sem þýðir að hún er þunnfljótandi og auðveld í vinnslu. Hins vegar er stærsti hlutinn af olíu Venesúela „ofurþung“ olía. Hún er svo seig að hún minnir helst á fljótandi malbik eða sýróp.

Það þarf að hita hana upp eða blanda hana með þynnri efnum bara til að geta dælt henni eftir leiðslum til frekari vinnslu.

Þetta gerir olíuna í Venesúela mun dýrari og flóknari í hreinsun en þá kólumbísku.

Fjarlægðin frá fjöllunum

En hvernig stendur á því að nágrannaríki, sem virðast svipuð að allri jarðfræði, búa yfir svo mismunandi magni?

Ég fór á stúfana og kannaði málið fyrir ykkur.

Ástæðan er í örstuttu máli fjarlægð Venesúela frá Andesfjöllum.

Uppruna olíunnar má rekja til Krítartímabilsins í jarðsögunni (sem var við lýði fyrir um 90 til 120 milljónum ára). Á þeim tíma var norðurhluti Suður-Ameríku ekki fjalllendi heldur grunnt, hlýtt innhaf við miðbaug.

Þarna ríkti hið fullkomna „dauðans jafnvægi“ í óralangan tíma og gríðarlegt magn af svifi og þörungum lifði þar og dó og sökk til botns.

En á botninum varð sjórinn afar súrefnissnauður með tímanum.

Lítið súrefni

Ástæðan fyrir súrefnisleysinu er flókin en snýst um hve heitt var á svæðinu í mjög, mjög langan tíma. Þörungablóminn í þessu grunna hafi var gríðarlegur. Magn hinna dauðu þörunga sem féllu niður á botn var svo mikið að bakteríurnar, sem brutu þá niður og átu, þeir eyddu í raun og veru stórum hluta súrefnisins á botninum.

Og vegna þess hve heitt var, þá blandaðist sjórinn lítið. Dýpt þessa hafs var aðeins um 50-200 metrar en það var eigi að síður mjög lagskipt. Súrefnisríkt yfirborðsvatn náði aldrei niður á botninn til að endurnýja það súrefni sem bakteríurnar notuðu við veisluhöld sín niðri við og á botninum.

Þær höfðu á endanum notað næstum hver einasta súrefnismolekúl í botnlaginu til að „melta“ þessa ofgnótt af mat.

Þegar súrefnið kláraðist, þá gátu bakteríurnar (og önnur dýr) ekki lengur lifað þarna niðri. Niðurbrotið stöðvaðist. Þörungarnir í yfirborðssjónum, sem héldu náttúrlega áfram að falla dauðir til botns, „rotnuðu“ nú ekki í raun, heldur súrnuðu eða breyttust í vaxkennt efni (kerógen).

Andesfjöll rísa

Nú gerðist það næst að fyrir um 65 milljónum byrjuðu Andesfjöllin að rísa á vesturjaðri Suður-Ameríkuflekans. Það tók tugi milljóna ára og raunar eru fjöllin enn að rísa. En þegar fjöllin risu þrýstu þau setlögunum á botni hins gamla grunna innhafs í austri niður á við með þunga sínum en huldu þau um leið með efnum sem veðruðust jafnóðum af fjöllunum.

Þarna myndaðist mikill þrýstingur og hiti og kerógenið tók að ummyndast í olíu.

Olían tók svo að leita í einskonar „hvolf“ eða „skálar“ neðanjarðar.

Örlagaríkasti tíminn var fyrir um 20 milljónum ára þegar Andes-fjallgarðurinn var að mestu risinn og gamli hafsbotninn (Kólumbía og síðan Venesúela) reis nú líka úr sjónum. Nálægt fjöllunum voru hamfarir miklar (en vissulega afar hægar) og fjöllin „brutu“ skálarnar fyrrnefndu svo olían, sem þarna hafði verið að myndast, seytlaði hingað og þangað.

Hnausþykk olía

Þess vegna er svo agnarlítið af olíu í Kólumbíu miðað við Venesúela. Fjær fjöllunum, í Venesúela, eru skálarnar hins vegar óskaddaðar að mestu og því er svo miklu meira magn olíu þar.

Það hafði líka sitt að segja að þar rakst olían á hinn litla en harða Gvæjana-skjöld, sem kallaður er, og komst ekki lengra, heldur safnaðist enn betur fyrir í risastórum neðanjarðarlónum.

En þar sem þessi mikla olía lenti nálægt yfirborðinu, komst hún í snertingu við grunnvatn og bakteríur sem átu úr henni léttustu efnin. Eftir varð þessi hnausþykka og seiga olía sem Venesúela er þekkt fyrir, ólíkt þunnfljótandi olíunni sem leynist dýpra í kólumbískri jörð.. 

Þess má svo geta að lokum að nýlega hafa fundist gríðarlega miklar olíulindir í hafinu skammt frá ströndum nágrannaríkis Venesúela í austri, Gvæjana, og eru þær af svipuðum meiði og olían í Venesúela. Gvæjanska olían er þó mun þynnri og því auðveldari til vinnslu en olían í Venesúela.

Líklegt er talið að enn meiri lindir muni finnast út af ströndum Gvæjana og þar sem íbúar landsins eru aðeins 800.000 gæti svo farið að þeir verði orðnir hlutfallslega ríkasta þjóð heimsins áður en við er litið.

Ef þeir gæta þess að láta ekki stela frá sér olíunni!

***

Listi yfir þau tíu lönd sem eiga mest af ennþá óunninni olíu (tölurnar sýna milljarða tunna):

1.  Venesúela  304 – Stærsti hlutinn er „ofurþung“ olía í Orinoco-beltinu.

2.  Sádi-Arabía  298 — Var lengi í fyrsta sæti; olían þar er mjög ódýr í vinnslu. Því eru olíubirgðir Sáda (ennþá að minnsta kosti) verðmætari en birgðir Venesúela.

3.  Kanada  168 — Mestmegnis fólgin í „olíusandi“ í Alberta og því álíka seig og olían í Venesúela.

4.  Íran  156 — Útflutningur erfiður vegna viðskiptabanna.

5.  Írak  145 — Á mikið af ódýrri, léttri olíu sem enn á eftir að kanna að fullu.

6.  Rússland  108 — Mest af olíunni er í Síberíu; nýjar lindir eru að finnast á norðurslóðum.

7.  Kúveit  102 —  Örsmátt land en gríðarlega olíuríkt miðað við stærð.

8.   Sameinuðu arabísku furstadæmin   98 — Abu Dhabi á um 90 prósent af þessum birgðum.

9.  Bandaríkin  69  —  Birgðir hafa aukist mikið vegna nýrrar tækni við að vinna olíu úr skífusteini.

10.  Líbýa  48 —  Mestu olíubirgðir í Afríku.

Brasilía myndi lenda í 15. sæti á þessum lista með 13 milljarða tunna, Gvæjana í 17. sæti með 11 milljarða og Noregur í 22. sæti með 7,6. Kólumbía situr í 35. sæti með sínar tunnur.

Kjósa
35
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Maður getur ekki tekið neinu sem sjálfsögðum hlut
4
Viðtal

Mað­ur get­ur ekki tek­ið neinu sem sjálf­sögð­um hlut

Linda Þor­valds­dótt­ir er húsa­mál­ari sem mál­ar mál­verk og steypu­lista­verk í líki dauð­ans hafa vak­ið at­hygli á lóð­inni henn­ar. Und­ir niðri kraum­ar þung­lyndi sem hef­ur fylgt henni alla tíð. Sorg­ina þekk­ir hún, eft­ir að hafa misst syst­ur sína en í fyrra lést barns­fað­ir henn­ar þeg­ar hann féll of­an í sprungu í Grinda­vík. Eft­ir kuln­un hóf hún störf hjá Kirkju­görð­um Reykja­vík­ur.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Maður getur ekki tekið neinu sem sjálfsögðum hlut
6
Viðtal

Mað­ur get­ur ekki tek­ið neinu sem sjálf­sögð­um hlut

Linda Þor­valds­dótt­ir er húsa­mál­ari sem mál­ar mál­verk og steypu­lista­verk í líki dauð­ans hafa vak­ið at­hygli á lóð­inni henn­ar. Und­ir niðri kraum­ar þung­lyndi sem hef­ur fylgt henni alla tíð. Sorg­ina þekk­ir hún, eft­ir að hafa misst syst­ur sína en í fyrra lést barns­fað­ir henn­ar þeg­ar hann féll of­an í sprungu í Grinda­vík. Eft­ir kuln­un hóf hún störf hjá Kirkju­görð­um Reykja­vík­ur.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var lifandi dauð“
3
Viðtal

„Ég var lif­andi dauð“

Lína Birgitta Sig­urð­ar­dótt­ir hlú­ir vel að heils­unni. Hún er 34 ára í dag og seg­ist ætla að vera í sínu besta formi fer­tug, and­lega og lík­am­lega. Á sinni ævi hef­ur hún þurft að tak­ast á við marg­vís­leg áföll, en fað­ir henn­ar sat í fang­elsi og hún glímdi með­al ann­ars við ofsa­hræðslu, þrá­hyggju og bú­lemíu. Fyrsta fyr­ir­tæk­ið fór í gjald­þrot en nú horf­ir hún björt­um aug­um fram á veg­inn og stefn­ir á er­lend­an mark­að.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu