Bandaríkin hafa lagt hald á stórt olíuflutningaskip undan strönd Venesúela, sagði Donald Trump forseti í dag. Þetta eykur spennuna milli stjórnvalda í Washington og Caracas til muna.
Aðgerðin kemur í kjölfar árása á meinta fíkniefnabáta og mikillar hernaðaruppbyggingar bandaríska flotans á Karíbahafi, sem Nicolas Maduro, einræðissinnaður leiðtogi vinstrimanna í Venesúela, segir miða að stjórnarskiptum.
Í myndbandi sem Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, birti mátti sjá hermenn síga úr þyrlu niður á þilfar flutningaskipsins og fara síðan inn í brú skipsins með riffla á lofti.
„Við lögðum rétt í þessu hald á flutningaskip við strönd Venesúela, stórt flutningaskip, mjög stórt – það stærsta sem lagt hefur verið hald á, raunar,“ sagði Trump við fréttamenn í upphafi hringborðsumræðna með leiðtogum í viðskiptalífinu í Hvíta húsinu.
„Og fleira er að gerast, þannig að þið munuð sjá það síðar.“
Bondi sagði að flutningaskipið væri hluti af „ólöglegu olíuflutninganeti“ sem notað væri til að flytja olíu frá Venesúela og Íran sem sætir viðskiptaþvingunum.
Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því að flutningaskipið hafi verið á leið til Kúbu, annars andstæðings Bandaríkjanna, og hafi verið stöðvað af bandarísku strandgæslunni.
Trump sagði aðeins að flutningaskipið „hafi verið tekið af mjög góðri ástæðu.“
Tilkynning Trumps kom degi áður en Maria Corina Machado, friðarverðlaunahafi Nóbels frá Venesúela og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, átti að ávarpa heiminn frá Ósló eftir að hafa komið úr felum.
Machado, sem hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir að ögra valdatökum Maduro í olíuríka Venesúela, hefur ekki sést opinberlega í marga mánuði eftir að lífi hennar var hótað, en boðað hefur verið til blaðamannafundar með henni á morgun.
Venesúela hafði varað við því að hún gæti verið handtekin sem strokufangi ef hún reyndi að koma aftur inn í landið eftir að hafa ferðast vegna Nóbelsverðlaunanna, en Trump varaði Caracas við slíkum aðgerðum.
„Mér líkar ekki ef hún yrði handtekin, ég yrði ekki ánægður með það,“ sagði Trump við fréttamenn.
„Ríkisofbeldi“ Maduros
Eftir að hafa sagt að hún væri á leið til Noregs en myndi ekki koma í tæka tíð fyrir verðlaunaafhendinguna í dag, mun Machado koma fyrst fram opinberlega á blaðamannafundi í Ósló klukkan 09:15 í fyrramálið, að sögn norskra stjórnvalda.
Dóttir hennar tók við verðlaununum fyrir hönd Machado í dag og flutti harðorða þakkarræðu hennar, þar sem hún hvatti samlanda sína til að berjast fyrir frelsi gegn „ríkisofbeldi“ Maduro.
Stjórn Trumps hefur aukið þrýstinginn á Maduro undanfarna mánuði og sent herskipaflota og stærsta flugmóðurskip heims undir því yfirskini að berjast gegn fíkniefnasmygli.
Bandaríkin hafa einnig gert mannskæðar árásir á meira en 20 meinta fíkniefnabáta á svæðinu og fellt að minnsta kosti 87 manns.
Bandarísk stjórnvöld hafa sakað Maduro um að leiða hið meinta „Cartel de los Soles“, sem þau lýstu „fíkniefnahryðjuverkasamtök“ í síðasta mánuði.
Trump sagði við Politico á mánudag að dagar Maduro væru „taldir“ og neitaði að útiloka innrás Bandaríkjahers á landi í Venesúela.
Maduro – pólitískur arftaki Hugo Chavez – segir að Bandaríkin séu staðráðin í stjórnarskiptum og vilji ná yfirráðum yfir olíubirgðum Venesúela.
Á laugardag sóru 5.600 nýir hermenn eið eftir að Maduro kallaði eftir aukinni nýliðun í herinn.
Stjórn Trumps heldur því einnig fram að valdataka Maduro sé ólögmæt og að hann hafi stolið kosningunum í Venesúela í júlí 2024 – fullyrðing sem stjórnarandstöðuleiðtoginn Machado styður.
Frá því að Machado fór í felur hefur hún aðeins komið einu sinni fram opinberlega, þann 9. janúar í Caracas, þar sem hún mótmælti innsetningu Maduro í embætti fyrir þriðja kjörtímabil sitt.

















































Athugasemdir