„Það er það sem ég býst við, að verðbólga muni hjaðna hratt,“ sagði Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri við kynningu á vaxtaákvörðun seðlabankans í morgun. Þar var kynnt óvænt 0,25% stýrivaxtalækkun þrátt fyrir háa verðbólgu, sem kemur til vegna þess sem peningastefnunefndin kallar „raunverulega kólnun í kerfinu“. Þessar slæmu fréttir fyrir hagkerfi Íslands gætu á móti opnað á möguleikann á að veruleiki húsnæðiseigenda batni til muna næsta árið.
Á fundinum gekkst Þórarinn við því að það væri „alveg hörmulegt“ að verðbólga hefði verið yfir 2,5% viðmiði bankans í fimm ár.
„Er þetta ásættanlegur tími? Auðvitað ekki. Fimm ár eru náttúrlega … Þetta er alveg hörmulegt. Það endurspeglast því að við erum með yfir sjö prósent vexti: Önnur lönd eru með vexti í einhverju tvö, þrjú, mesta lagi fjögur prósent. Það er þá birtingamynd yfir því að við erum frekar súr yfir þessu,“ sagði hann, en stýrivextir eru nú 7,25%.
Vegna vaxtahækkana Seðlabankans síðustu ár hafa óverðtryggðir húsnæðislánavextir farið vel yfir 10 prósent í sumum tilfellum, sem hefur leitt til þess að langflest ný húsnæðislán hafa verið verðtryggð.
Hagkerfið kólnar

Vegna ýmissa áfalla í hagkerfi Íslands er nú kólnun yfirvofandi, sem mun þýða minni hagvöxtur en á móti lægri verðbólga, sem getur leitt til örrar vaxtalækkunar hjá Seðlabankanum. Horfur um hagvöxt hafa verið „færðar niður um tvær prósentur í heild“ í ár og næsta ári, sagði Þórarinn og bætti við að „atvinnuleysi [verði] hálfu prósentu meiri á næsta ári og ári þar á eftir.“
Aukið atvinnuleysi og kólnun almennt leiðir til þess að „um mitt næsta ár er verðbólgan hálfu prósentu minni en við spáðum í ágúst,“ sagði Þórarinn.
Eins og Heimildin fjallaði um í morgun leiðir þetta til þess að vertryggð lán verða hagstæðari en áður. Þau hafa verið ódýrari en óverðtryggð lán frá árinu 2023.


















































Athugasemdir