Líkamsleifar 90 palestínskra fanga sem ísraelsk yfirvöld skiluðu til Gaza samkvæmt nýgerðu vopnahléssamkomulagi, báru merki um pyntingar og aftökur. Þar á meðal virðast fangarnir hafa verið með bundið fyrir augu, með bundnar hendur og skotsár á höfði, að sögn lækna sem breska blaðið Guardian vitnar til.
Sem hluti af vopnahléi sem Bandaríkin áttu milligöngu um hafa Hamas-samtökin skilað líkum gísla sem létust í stríðinu, og Ísrael afhent líkamsleifar tveggja hópa, hvorum um sig 45 Palestínumanna, sem féllu í átökunum. Skiptin fóru fram í gegnum Alþjóða Rauða krossinn (ICRC).
Læknar á Nasser-sjúkrahúsinu í Khan Younis í suðurhluta Gaza, sem tók á móti líkunum frá Rauða krossinum, sögðust í gær hafa séð veruleg ummerki um barsmíðar og aftökur og að ekkert líkamanna væri auðkennanlegt. „Næstum öll voru með bundið fyrir augu og bundnar hendur og þau voru með skotsár á milli augnanna. Næstum öll höfðu verið tekin af lífi,“ sagði Dr. Ahmed al-Farra, yfirlæknir barnadeildar Nasser-sjúkrahússins.
„Það voru líka ör og aflitun á húð sem sýndi að þau höfðu verið barin áður en þau voru drepin. Það voru líka merki um að líkum þeirra hefði verið misþyrmt eftir dauðann.“
Farra bætti við að ísraelsk yfirvöld hefðu afhent líkin án auðkenningar og að sjúkrahús í Gaza, sem hefðu orðið fyrir miklum loftárásum á tveimur ára stríðstímabili, hefðu ekki tök á að gera DNA-rannsóknir.
„Þeir þekkja auðkenni þessara líkama en þeir vilja að fjölskyldurnar þjáist enn meira út af þessum fórnarlömbum,“ sagði læknirinn.
Stjórnendur Nasser-spítalans sögðu lík sem hefðu verið geymd í kælikistum í Ísrael hafa verið afhent með númeramiðum en án nafna. Læknar sögðu að biðlað hefði verið til nánustu aðstandenda palestínskra karlmanna sem saknað væri að aðstoða við auðkenningu.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (ICC) rannsakar stríðsglæpaásakanir á hendur báðum aðilum í tveggja ára stríðinu í Gaza, þar á meðal dráp Ísraelshers á 15 palestínskum sjúkraflutninga- og björgunarsveitarmönnum sem fundust í grunnri gröf í mars, eftir að myndband hafði sýnt atburðarásina.
Að sögn yfirstjórnar sjúkrahússins sem kom að því máli voru fórnarlömbin kefluð á höndum og fótum og höfðu verið skotin í höfuð.
Afhending líkamsleifa af hálfu beggja aðila hafa reynst stór hindrun í innleiðingu vopnahlésins sem tók gildi um helgina. Ísrael tilkynnti að hægja yrði á afhendingu mannúðaraðstoðar inn í Gaza vegna tafa á afhendingu 28 líka ísraelskra gísla sem taldir eru hafa látist í stríðinu. Þá fullyrtu ísraelsk stjórnvöld að eitt líkanna sem hefði verið afhent væri ekki úr hópi fyrrverandi gísla.
Á miðvikudagskvöld tilkynnti Hamas að hópurinn hefði skilað öllum jarðneskum leifum látinna gísla sem hann hefði aðgang að, og ísraelski herinn staðfesti að Rauði krossinn hefði móttekið tvö lík til viðbótar í Gaza.
Athugasemdir