„Í gildandi lagaumhverfi er ekki kveðið á um leyfisskyldu eða eftirlit með rekstri og umsjón áfangaheimila.“ Þetta kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögu sem Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur tvívegis lagt fram á Alþingi.
Tillagan í heild sinni hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að undirbúa lagasetningu um leyfisskyldu og eftirlit með rekstri áfangaheimila, skilgreiningu þeirra og hlutverk.”
Jódís bendir á að ekki sé einu sinni almennileg skilgreining í lögum á því hvað áfangaheimili sé. „Þarna er verið að þjónusta rosalega ólíka hópa fólks í mjög ólíkri stöðu. Ég get nefnt dæmi um einstaklinga sem eru að koma úr áfengismeðferð og þurfa svokölluð þurr úrræði. Ég get nefnt fanga sem eru að ljúka afplánun dóma. Ég get nefnt einstaklinga sem eru í virkri neyslu og þurfa aðstoð og annars konar úrræði, og lagaverkið er einfaldlega of veikt og eftirliti ábótavant,“ segir hún.
Jódís er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Þeir sem lögðu hana fram með Jódísi eru þingmenn Vinstri grænna. Þarna er því um tillögu af hálfu þingmanna stjórnarmeirihlutans að ræða.
Heimildin hefur að undanförnu fjallað ítarlega um málefni áfangaheimila Betra lífs. Þar kom fram að deildarstjóri hollustueftirlits hjá sameiginlegu Heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness segir kallað verði eftir breytingu á lögum til að bæta áfangaheimilum á lista yfir eftirlits-og starfsleyfisskylda starfsemi.
Í lok maímánaðar kærði slökkviliðið forstöðumann Betra lífs, Arnar Gunnar Hjálmtýsson, til lögreglu fyrir að stofna lífi og heilsu fólks í hættu í gróðaskyni eftir brunann í Vatnagörðum 18 í febrúar 2023.
Slökkviliðið hefur eins og heilbrigðiseftirlitið takmarkaðar heimildir til þess að fara í skoðun á íbúðarhúsnæði, líkt og áfangaheimili Betra lífs sem var rekið á Kópavogsbraut 69, þar til húsið - sem var í niðurníðslu - var rifið í maíbyrjun. Til þess að fara í skoðun þarf leyfi eiganda, en án þess þarf slökkviliðið úrskurð dómara, sem hefur hingað til ekki fengist.
Málaflokkur sem sker sig úr
Hvað finnst þér um að það sé hægt að reka áfangaheimili, og kalla það þessu nafni, án þess að þú þurfir leyfi og að það sé ekkert eftirlit með þessum rekstri?
„Það er auðvitað fullkomlega galið,“ segir Jódís. Hún leggur áherslu á að forsendan til að geta stutt við þá einstaklinga sem þurfa á þjónustu áfangaheimila að halda sé að vel sé haldið utan um hlutina, að „við öll hljótum að ætlast til þess.“
„Við myndum aldrei sætta okkur við í neinum öðrum málaflokki innan heilbrigðisþjónustu að þar gæti hver sem er opnað í rauninni hvað sem er og kallað sig einhvers konar heilbrigðisþjónustu,“ segir hún.
Ástæðan fyrir því að Jódís lagði fram þingsályktunartillöguna, fyrst árið 2022 og aftur árið 2023, er að hún þekkir málaflokkinn ágætlega og hefur látið sig þessi mál varða, löngu áður en hún fór að taka þátt í stjórnmálum. „En í gegn um tíðina hef ég líka upplifað að það séu brotalamir í þessari starfsemi og það er ýmislegt sem er ábótavant, þá sérstaklega hvað varðar eftirlitið,“ segir hún.
„Þau tilfelli þar sem framkoma við skjólstæðinga hefur varðað við lög vegna misneytingar og annars ofbeldis eru fjöldamörg“
Annað sem er ábótavant við að hennar mati eru ekki aðeins atriði á borð við aðbúnað - húsnæði og brunavarnir - heldur sé margt sem megi gera athugasemdir við þegar kemur að reglum hvers og eins áfangaheimilis, en þeim er í sjálfvald sett hvaða reglur gilda í starfinu
„Það er auðvitað óeðlilegt að það séu gerðar kröfur um einhvers konar trúarskoðanir eða ákveðna fundasókn 12 spora samtaka. Þó að ég skilji á hvaða forsendum þetta er þá verðum við að hafa einhverskonar regluverk utan um það að veikir einstaklingar sem þurfa að þiggja þjónustu séu ekki settir í einhvern annan flokk en aðrir sjúklingar,“ segir Jódís og vísar til þess hvernig mun minni kröfur eru gerðar til umgjarðar þeirra sem veita þessum viðkvæma hópi þjónustu.
Í greinargerðinni með tillögunin er fjallað um að í sögulegu samhengi „hefur eftirliti með úrræðum til handa fólki með fjölþættan vanda verið ábótavant. Þau tilfelli þar sem framkoma við skjólstæðinga hefur varðað við lög vegna misneytingar og annars ofbeldis eru fjöldamörg.“
Það stendur hér í greinargerð með þingsályktunartillögunni: „ Á síðustu árum hafa komið upp dæmi þess að á áfangaheimilum sem rekin eru í þágu fólks með fíknivanda hafi verið tilfinnanlegur skortur á eftirliti með aðbúnaði, hreinlæti og öryggi.“ Er þarna verið að vísa í einhvern ákveðin áfangaheimili?
„Ég ætla nú ekki að tjá mig sérstaklega um ákveðin áfangaheimili en við höfum auðvitað öll lesið í fjölmiðlum skelfilegar lýsingar. Það hafa komið upp brunatilvik, það hafa komið upp atriði þar sem öll umgjörð, hreinlæti og annað er algjörlega óboðlegt, og á meðan við erum að gera út á að þetta sé einhvers konar þjónusta fyrir einstaklinga og jafnvel að hið opinbera sé að styrkja það fjárhagslega þá verðum við bara að gera meiri kröfur. Það er alveg ljóst,“ segir hún.
Í bæði skiptin sem tillagan var lögð fram, núna síðast bara síðasta haust, þá fór hún til fyrri umræðu á alþingi, fór svo til velferðarnefndar, og síðan ekki söguna meir. Það hljóta að vera vonbrigði.
„Já, auðvitað eru það vonbrigði og auðvitað eru ótal mál góð mál lögð fyrir á hverju þingi sem ekki næst að klára. Málið hefur þó fengið góða meðferð og í fyrra skiptið sem málið var lagt fram þá komu mikilvægar umsagnir um tillöguna inn til velferðarnefndar, og málið er örlítið breytt eftir að tillit var tekið til umsagnanna þannig að auðvitað er vinnslan líka mikilvæg. Það er ekki nóg að bara mál séu keyrð í gegn, það þarf líka að hlusta á fagaðila og þau sem veita umsagnir. En þingið er nú ekki búið. Ég mun halda áfram að leggja hana fram ef hún klárast ekki núna, og ég held að það sé alveg pólitískur vilji til þess, og við erum þvert á flokka sammála um það að það þarf auðvitað að hafa alla umgjörð um þennan sérstaklega viðkvæma hóp bara eins og best verður á kosið,“ segir Jódís.
Nú er þetta tillaga sem miðar að ákveðnum aðgerðum af hálfu félags- og vinnumarkaðsráðherra. Geturðu tjáð þig um það hvort hann hefur brugðist við sérstaklega?
Hann hefur bara tekið mjög vel í tillöguna og ég geri ráð fyrir því að það standi ekki á honum að fara í þessa vinnu ef að tillagan nær fram að ganga.
„Nei, staðan er ekki ásættanleg og það er nú þess vegna sem ég legg fram þessa þingsályktunartillögu“
Fjölbreytilegar afleiðingar eru af því að hver sem er getur stofnað áfangaheimili og að ekkert eftirlit sé síðan með rekstrinum.
Við erum að sjá, eins og þú nefnir, það er afskaplega slæmur aðbúnaður, fólk upplifir jafnvel ekki öryggi og við höfum séð, og einmitt hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, áfangaheimili þar sem fólk er hreinlega að deyja, fleiri en einn og fleiri en tveir. Er þetta ásættanleg staða?
„Nei, staðan er ekki ásættanleg og það er nú þess vegna sem ég legg fram þessa þingsályktunartillögu. En ég vil nú halda því til haga að það er mjög misjafnlega haldið um hnútana og það eru tekin áfangaheimili þar sem er eftirlit og þar sem er staðið framúrskarandi vel að öllum málum. En það verður auðvitað að vera ljóst að allir spili eftir sömu reglu og það sé hvergi rekið nokkurt úrræði þar sem að lífi og heilsu fólks er ógnað af bara vanrækslu og eftirlitsleysi,“ segir Jódís.
Greinargerðinni með tillögunni lýkur á orðunum: „Þetta er réttaröryggismál fyrir einstaklinga sem nýta slík úrræði. Á meðan ekki er að finna í íslenskum lögum ákvæði sem varða með beinum hætti starfsemi, leyfisskyldu eða eftirlit með áfangaheimilum er unnt að reka ýmsa starfsemi undir heitinu án sérstaks eftirlits eða leyfis.“
Athugasemdir