Reykjavíkurborg styrkti áfangaheimili Betra lífs í fyrsta sinn árið 2020 þegar það veitti 5,7 milljónum króna í reksturinn. Þá um sumarið hafði Arnar Gunnar Hjálmtýsson, sem rekur Betra líf, sagt í styrkumsókn til borgarinnar að markmiðið með með áfangaheimilinu fyrir skjólstæðingana væri að „þau öðlist andlegt jafnvægi, aukna sjálfsvirðingu og betri hæfileika til að takast á við lífið. Við reynum að hjálpa þeim að vinna að því að eignast Betra líf án vímuefna.“
Alls fékk Betra líf fjórum sinnum styrk frá Reykjavíkurborg, alls yfir 24 milljónir króna.
„Blóð í dýnum sem og þvag og úrgangur. Salernin eru mjög óþrifaleg, saur á veggjum og gólfum.“
Í ágústmánuði þetta sama ár, 2020, tveimur mánuðum eftir að Arnar sendi fyrstu styrkumsóknina til borgarinnar, leitaði íbúi á áfangaheimilinu Betra lífi í Fannborg til sameiginlegs heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness varðandi ástandið á áfangaheimilinu. Á þessum tímapunkti hafði áfangaheimilið ekki fagnað eins árs afmæli. Á fundi með fulltrúa eftirlitsins lýsti íbúinn ástandinu þannig að mikið væri um að íbúar væru að neyta áfengis og vímuefna um æð. „Slagsmál voru tíð og þar mæta handrukkarar,“ eins og segir í málaskrá eftirlitsins, sem Heimildin hefur undir höndum.
Hann lýsti einnig miklum óþrifnaði eins og: „Blóð í dýnum sem og þvag og úrgangur. Salernin eru mjög óþrifaleg, saur á veggjum og gólfum.“ Íbúinn kom á fundinn með krukku þar sem hann hafði safnað óhreinindum af gólfinu og límbandssýni af óhreinum rúmfötum. Hann hafði miklar áhyggjur af því hversu „óheilsusamlegt“ það væri að búa í Fannborg og minntist svo á að þegar hefði einn íbúi dáið á herbergi sínu.
Í styrkumsókninni fyrir árið 2020 skrifar Arnar ennfremur: „Við eigum í góðu samstarfi við Bergið headspace og Pieta-samtökin.“ Auk þess séu skjólstæðingar hans keyrðir til læknis og í viðtöl hjá félagsþjónustunni. Þetta kom fram þar sem umsækjandi átti að tilgreina hvernig innra starfi áfangaheimilisins væri háttað og hverjir væru helstu samstarfsaðilar. Í styrkumsókn fyrir árið 2021, undir sama lið, telur hann einnig upp Bergið headspace, Píeta-samtökin, og bætir við Barka sem eru pólsk samtök sem aðstoða utangarðsmenn af erlendum uppruna og segist vera „í góðum samskiptum“ við þessi samtök.
Þegar Heimildin hafði samband við Bergið headspace sagði Sigurþóra Bergsdóttir framkvæmdastjóri: „Við höfum aldrei átt neitt samstarf við Betra líf“ og bætir við: „Ef þau setja það inn í styrkumsókn þá er það ekki rétt.“ Þá tekur hún fram að Bergið hafi ekki sent neinn til Betra lífs og ekkert samstarf sé í gangi, hvorki formlegt né óformlegt.
Hjá Píeta-samtökunum fengust þau svör að „Píeta-samtökin kannast ekki við að hafa átt eða að eiga í samstarfi við áfangaheimili Betra lífs“. Gunnhildur Ólafsdóttir, sálfræðingur og fagstjóri hjá samtökunum, tekur fram að öllum sé velkomið að vísa skjólstæðingum til þeirra. „En ekki er um neitt formlegt samstarf að ræða. Við höfum að auki ekki verið í neinum beinum samskiptum við aðila á vegum Betra lífs.“
Þær upplýsingar fengust hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar að Betra líf hafi skilað inn styrkumsókn á umsóknareyðublöðum, ásamt listum yfir kennitölur fólks sem hafi búið hjá þeim ásamt nýtingarhlutfalli, fyrir árin 2020 og 2021. Fyrir seinni árin tvö sem Betra líf fékk styrki, 2022 og 2023, var hins vegar ekkert umsóknareyðublað fyllt út heldur sendi félagið aðeins kennitölulista með nýtingarhlutfalli í tölvupósti.
Heimildin óskaði eftir rökstuðningi með samþykkt frá borginni vegna styrkja til Betra lífs þar sem fram kæmi á hvaða forsendum styrkirnir væru veittir. Í svari frá velferðarsviði vegna þessa segir: „Samþykki á styrkveitingu fólst í greiðslu styrkjanna.“ Ekkert virðist hafa verið gert til að sannreyna það sem fram kom í umsóknunum þar sem styrkirnir voru greiddir þrátt fyrir rangfærslur um samstarfsaðila.
Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Heimildarinnar um áfangaheimili Betra lífs sem Arnar hefur rekið á nokkrum stöðum síðan 2019.
Hér má lesa umfjöllunina í heild sinni:
Nafn áfangaheimilia Betra lífs er fengið að láni úr lagi Páls Óskars Hjálmtýssonar, en hann er bróðir Arnars. „Fann á ný, betra líf, af því ég fór loks að trúa því, að það væri eitthvað annað, eitthvað meir og miklu stærra,“ segir í textanum. Bræðurnir ræddu alkóhólisma og áfangaheimili Arnars í þættinum Hvunndagshetjur á RÚV í febrúar 2022.
Arnar sagði þar að hann hefði fengið hugmyndina að því að stofna áfangaheimili þegar hann leitaði að plássi handa syni sínum á áfangaheimilum borgarinnar en hvergi var pláss. „Ég vissi af þessu húsi hérna í Kópavogi og hafði samband við eigandann. Hann var tilbúinn að leigja mér þetta hús og ég opnaði bara áfangaheimili,“ sagði Arnar og átti þá við Fannborg 4 sem hann opnaði í lok árs 2019. „Við reynum alltaf að kveikja vonina hjá fólki um að það sé betra líf í vændum,“ sagði hann svo í lok viðtalsins um skjólstæðinga sína.
Athugasemdir (2)