„Við erum bara að hlusta, í sannleika sagt er þetta hálf óraunverulegt fyrir okkur,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
„Vinur okkar, Gunnar Helgason, er einn af þeim sem hefur leitað til okkar og hvatt okkur til að fara í framboð. Við höfum verið feimnir gagnvart þessu og hann vildi bara hvetja okkur áfram.“ Stuðningssíðan Baldur og Felix – alla leið, var stofnuð á Facebook af Gunnari rétt fyrir miðnætti á mánudag. Þegar Baldur og eiginmaður hans, Felix Bergsson, vöknuðu á þriðjudagsmorgninum vissu þeir ekki hvaðan á þá stóð veðrið. „Þetta kemur okkur skemmtilega á óvart. Maður þakkar fyrir allan þennan hlýhug,“ segir Baldur.
Samkvæmt könnun sem Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri TBWA/Norway, betur þekktur sem Valli sport, lét framkvæma eru Íslendingar jákvæðari gagvart því að Baldur verði næsti forseti en bæði Halla Tómasdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, og Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Baldur er orðaður við Bessastaði, það sama var upp á teningnum árið 2016 þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn í fyrsta sinn. „Þá vísuðum við þessu algjörlega frá okkur, við vorum bara á öðrum stað í lífinu,“ segir Baldur.
Sami hópur hefur komið að máli við Baldur upp á síðkastið og nú vill hann hlusta. „Felix spurði mig: „Af hverju viltu hlusta núna? Þú vildir ekkert hlusta fyrir átta árum.“ Þá fór ég að hugsa með sjálfum mér af hverju mér fyndist mikilvægt að hlusta og þá rann upp fyrir mér að eftir febrúar 2016 hefur svo gríðarlega margt gerst og breyst í heiminum,“ segir Baldur og nefnir að eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 2016 varð ákveðið bakslag í lýðræði, mannréttindamálum, réttindum kvenna og hinsegin fólks. „Svo er það öll hatursorðræðan, upplýsingaóreiðan. Þetta hefur allt dunið yfir okkur á síðustu átta árum.“ Allt þetta kallar á Baldur og þeir Felix eru tilbúnir að leggja við hlustir. „Þegar fólk er að biðja okkur að fara fram út af mannréttindamálum, alþjóðamálum og svo framvegis. Þá getur maður ekki annað en hlustað.“
„Ef við förum í þetta, þá hendum við okkur í það þúsund prósent.“
Áskorunin beinist einmitt að þeim hjónum, ekki bara Baldri, þó nafn hans verði á kjörseðlinum, ef ákvörðun um framboð verður tekin. „Ef við látum slag standa þá er þetta sameiginlegt verkefni. Við höfum gengið í gegnum lífið saman og tekið þátt eins og við getum í störfum hvor annars,“ segir Baldur, sem hefur til að mynda fylgt Felix í Eurovision síðastliðin ár. „Við höfum unnið saman í mannréttindabaráttu og ég fer með Felix að túra út á land þegar hann er að túra með Gunna og Felix,“ segir Baldur og hlær. „Mér sýnist það á áskoruninni, það er verið að skora á okkur saman.“
Baldur segir tilhugsunina um framboð óraunverulega sem stendur en hann finnur fyrir pressunni. „Við þurfum að fara að taka af skarið, ég geri mér fyllilega grein fyrir því. En þetta er stór ákvörðun. Ég er að reyna að yfirstíga feimnina gagnvart þessu. Ég er náttúrlega bara sveitastrákur, ég er alinn upp í Rangárvallasýslu, maður sá það ekki fyrir sér að vera orðaður við þetta embætti. Þegar við Felix byrjuðum saman gátum við ekki einu sinni skráð okkur í sambúð, við máttum það ekki. Það eru ekki nema 14 ár síðan við máttum gifta okkur, það eru ekki nema örfá misseri síðan einhver gat séð fyrir sér, og jafnvel maður sjálfur, að það væri raunhæft að samkynhneigt par færi á Bessastaði.“ Baldur segir dásamlegt að finna fyrir þessum mikla stuðningi. „Ef við förum í þetta, þá hendum við okkur í það þúsund prósent.“
Athugasemdir