Eitt af eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, það sem kennt er við Brennisteinsfjöll, hefur virkjast að mati eldfjallafræðinganna Þorvaldar Þórðarsonar og Ármanns Höskuldssonar. Ef rétt reynist er það fjórða kerfið á skaganum sem er vaknað en gosið hefur þegar í tveimur kerfum þeirra þriggja sem segja má að hafi rumskað síðustu misseri.
Eldfjallafræðingarnir tveir telja að jarðskjálftahrina í Bláfjöllum fyrir nokkrum dögum, þar sem stærsti skjálftinn mældist 3,1, sé til marks um að Brennisteinsfjallakerfið, sem liggur milli eldstöðvakerfa sem kennd eru við Hengilinn og Krýsuvík, hafi virkjast.
Skjálftahrinan í Bláfjöllum taldi um 20 skjálfta sem urðu á milli Húsfells og Bláfjalla. Enginn skjálfti hefur mælst frá því á mánudag, en mögulegt er þó að virknin taki sig upp á ný, líkt og segir í samantekt Veðurstofu Íslands, um hrinuna.
Skjálftarnir urðu í svokölluðum Húsfellsbruna, norðarlega á misgengi sem hefur verið kallað Hvalhnúksmisgengið. Misgengi þetta er um 17 kílómetra langt norður-suðlægt sniðgengi og nær frá Hlíðarvatni í suðri. Það er, að mati Veðurstofunnar, líklega ábyrgt fyrir stærstu skjálftum sem mælst hafa á Reykjanesskaganum, svokölluðum Brennisteinsfjallaskjálftum sem urðu árin 1968 og 1929 og voru um 6 að stærð.
Húsafellsbruni er það hraun sem næst rann Reykjavík á síðasta gosskeiði Reykjanesskagans.
Engar mælingar benda til kvikusöfnunar
„Það eru engar mælingar sem benda til þess að kvika sé að safnast saman undir Brennisteinsfjöllum“, segir Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands. „Skjálftavirknin sem mældist um helgina er ekki vegna kvikuhreyfinga eins sést hefur í tengslum við jarðhræringar við Fagradalsfjall og norðan Grindavíkur,“ er ennfremur haft eftir henni í samantekt stofnunarinnar.
„Ég held að þetta sé í raun að segja okkur að þessi kerfi eru komin í gang.“
Þar kemur fram að sniðgengisskjálftar verði vegna landreksspennu sem hleðst upp þegar Norður-Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn hreyfast framhjá hver öðrum. Þessi spenna losni reglulega í stærri skjálftum sem talið sé að ríði yfir skagann á um 50 ára fresti. „Má því segja að kominn sé tími á annan Brennisteinsfjallaskjálfta, óháð öðrum jarðhræringum,“ segir í samantektinni.
Ef kvika væri að safnast þarna saman ættu að sjást merki um landris í gögnum Veðurstofunnar líkt og sést hefur við Svartsengi og Fagradalsfjall. „Við sjáum engin merki um slíkt,“ segir Kristín. „Það er hins vegar mikilvægt að vera meðvituð um að skjálftar sem eiga upptök á Hvalhnúksmisgenginu eru stærstu skjálftar sem hafa riðið yfir Reykjanesskagann“.
Myndu finnast um allt land
„Það eru engar mælingar sem benda til þess að kvika sé að safnast saman undir Brennisteinsfjöllum“
Verði jarðskjálfti af stærðinni 6 á Hvalhnúksmisgenginu myndi hann finnast vel um mest allt landið og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Helsta hættan er tengd snörpum hreyfingum á innanstokksmunum og mestu hreyfingar geta fært húsgögn úr stað. „Þó er vert að geta þess að hreyfingar verða ekki þess eðlis að byggingar laskist verulega, enda gera byggingarstaðlar ráð fyrir slíkum hreyfingum,“ segir í samantekt Veðurstofunnar.
Fimm gos nú þegar
Eldvirknibeltið, sem nær frá vestasta odda Reykjaness og að Henglinum og telur sex eldstöðvakerfi, er að mati flestra vísindamanna komið í gang, með jarðskjálftum og fimm eldgosum síðustu þrjú árin.
Á þessu belti eru 6-7 staðir þar sem gæti gosið á að mati Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings. Í viðtali við mbl.is sagði hann að eldgosatímabil gæti staðið í 3-4 aldir og hver lota í 10-20 ár.
Hann sagði skjálftana í Bláfjöllum gefa til kynna kvikusöfnun á töluverðu dýpi. Hann sagðist þó efast um að einhver umbrot væru væntanleg á næstunni. „Ég held að þetta sé í raun að segja okkur að þessi kerfi eru komin í gang. Og þau eru farin að undirbúa sig.“
Kristín hjá Veðurstofunni tekur ekki svo djúp í árinni líkt og að framan er rakið. Það sem Þorvaldur og Ármann hafi hins vegar báðir bent á er að þvi fyrr sem undirbúningur forvarna hefst, þeim mun betra. Bæði Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun eru á svæðum sem jarðhræringar í Hengli og Brennisteinsfjöllum gætu haft áhrif á. Huga verði að því að verja slíka innviði, sem og vatnsbólin í Heiðmörk.
Athugasemdir