„Auknar líkur á eldgosi,“ segir í nýju hættumati Veðurstofu Íslands í kjölfar samráðsfundar með vísindamönnum í morgun. Þar sem fram kemur að landris sé nú orðið jafnmikið í Svartsengi eins og var þegar eldgosið hófst 18. desember síðastliðinn í Sundhnúksgígaröðinni. „Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara,“ segir þar.
Ekki eru þó sömu aðstæður og voru 18. desember. Í því tilfelli hafði hægt á landrisinu áður en kvika braust upp í gegnum jarðskorpuna. „Hraði landrissins síðan 18. desember hefur haldist nokkuð stöðugur sem er frábrugðið stöðunni fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt er þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss, en það hefur þó verið tilfellið í gosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár og var einnig notað til viðmiðunar í Kröflueldum. Óvissa er hins vegar um hversu mikill kvikuþrýstingur þarf að byggjast upp áður en kvika fer að leita upp á yfirborðið.“
Í nýju hættumatskorti Veðurstofunnar, sem var uppfært eftir „samtúlkun gagna á samráðsfundi vísindafólks“ í morgun, hefur það breyst að nú er gert ráð fyrir hugsanlegu hraunflæði og gasmengun í Grindavík. „Ástæða breytinganna eru auknar líkur á eldgosi norðan Grindavíkur.“
Veðurstofan varar við skömmum fyrirvara ef til goss kemur og er sólarhringsvöktun yfirstandandi. Íbúum í Grindavík er á sama tíma í sjálfsvald sett hvort þeir dvelji í bænum eða ekki.
„Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og að það leiði til eldgoss. Líkurnar aukast með hverjum deginum sem líður. Líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Mikilvægt er að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.“
Athugasemdir