Harkalega var tekist um á umdeilda landfyllingu sem til stendur að gera við strandlengjuna í Þorlákshöfn á fundi bæjarstjórnar sveitarfélagsins á fimmtudaginn í síðustu viku. Meirihluti bæjarstjórnarinnar greiddi þá atkvæði með því að gera landfyllinguna á meðan minnihlutinn greiddi atkvæði á móti. Meðlimir úr Brimbrettafélagi Íslands voru á fundinum til að mótmæla landfyllingunni og voru með frammíköll og flautur á lofti. Brimbrettafélagið hefur haldið úti hörðum mótmælum gegn landfyllingunni þar sem félagið heldur því fram að landfyllingin muni eyðileggja ölduna - sörfið - fyrir þeim.
„Með þessari aðgerð er verið að skemma eða jafnvel eyðileggja einstaka náttúruperlu“
Hrópaði „bullshit“
Svo mjög létu brimbrettamennirnir í sér heyra að forseti bæjarstjórnar, Gestur Þór Kristjánsson, skammaði þá ítrekað. Að lokum, eftir að bæjarstjórn hafði kosið landfyllinguna í gegn, óskaði hann eftir því að gera hlé á fundinum þegar brimbrettafólkið hafði verið hávært: „Við munum kæra þetta“ og „Bullshit“ heyrðist kallað. „Ég ætla að óska eftir fundarhléi,“ sagði forsetinn.
Í kjölfarið gaf Gestur Þór brimbrettafólkinu einn lokaséns til að hætta að trufla fundinn en þá fór brimbrettafólkið út að eigin frumkvæði.
Orðaskiptin á fundinum sýna þann mikla hita og tilfinningar sem eru í málinu í Ölfusi. Ekki bara á milli meiri- og minnihlutans heldur einnig hjá Brimbrettafélaginu og meðlimum þess. Fyrir síðustu helgi ásakaði formaður Brimbrettafélagsins, Steinarr Lár, bæjarstjórann í Ölfusi, Elliða Vignisson, um spillingu í málinu þar sem hann býr í húsi í eigu fjárfestanna sem hann telur að muni fá að nota landfyllinguna.
Minnihlutin telur landfyllinguna valda skemmdum
Í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss er fjallað ítarlega um efnisatriðin í umræðunum um landfyllinguna.
Þar kemur fram það mat meirihlutans, sem aftur byggir á mati hafnarverkfræðings, að bygging landfyllingarinnar muni ekki skemma ölduna fyrir brimbrettafólki. „Eitt af því sem komið hefur fram í umfjöllun um málið er það álit hafnarverkfræðings sem hefur unnið að og stýrt endurbótum á höfninni að fyllingin muni ekki hafa nein áhrif á öldufar sunnan við útsýnispall. Endurkast sé óverulegt vegna grjótgarðs og muni endurkastast í átt að suðurvarargarði en ekki til baka.“
Brimbrettafélag Íslands og minnihlutinn í Ölfusi eru hins vegar ekki sammála þessu mati og telja að landfyllingin muni víst skemma ölduna. Minnihlutinn lagði því fram eftirfarandi bókun um skemmdir á öldunni vegna framkvæmdarinnar. „Með þessari aðgerð er verið að skemma eða jafnvel eyðileggja einstaka náttúruperlu og verðmætt svæði sem gæti orðið gríðarlega verðmætt til framtíðar. Það eru fáir staðir í sveitarfélaginu og á landinu öllu sem eru jafn einstakir af náttúrunnar hendi eins og sá sem hér um ræðir. Hér er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og rökin fyrir þessari framkvæmd eru ekki nógu sterk.“
Hvað sem líður þessum mótmælum þá kaus meirihlutinn í Ölfusi framkvæmdina í gegn og verður landfyllingin gerð. Formaður Brimbrettafélags Íslands hefur hins vegar boðað að félagið sé hvergi nærri hætt að berjast gegn henni.
Athugasemdir (3)