Tíu af tuttugu stærstu útgerðarfélögum landsins fjárfesta nú, beint eða óbeint í sjóakvíaeldi á eldislaxi. Fimm af útgerðunum fjárfesta beint í sjóakvíaeldinu á meðan aðrar fimm eru óbeinir fjárfestar í gegnum önnur útgerðarfélög sem þær eiga hluti í eða sem eiga þær. Þannig hafa tíu af tuttugu stærstu útgerðarfélögum landsins beina eða óbeina hagsmuni af sjóakvíaeldi á Íslandi.
Þetta er gerbreytt staða frá því fyrir fimm árum síðan þegar engin stór útgerðarfélög höfðu fjárfest í sjóakvíaeldi á eldislaxi. Eina útgerðin sem þá stundaði laxeldi var Samherji en það var og er landeldi en ekki eldi í sjókvíum.
„Það eru auðvitað skiptar skoðanir um það, bara eins og á öllu í lífinu.“
Þetta kemur fram í úttekt Heimildarinnar á fjárfestingum stórra útgerðarfélaga í sjóakvíaeldi á Íslandi og þeirri togstreitu sem hefur skapast á milli þeirra útgerða sem eru fylgjandi eldinu og annarra sem telja að best væri að sjókvíaeldisfyrirtækin tilheyri ekki Samtökum fyrirtækja í sjávarúvegi (SFS).
Þessar mismunandi skoðanir útgerðarmanna á sjókvíaeldinu koma ágætlega fram í máli Friðriks Þórs Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, sem segir við Heimildina að skoðanirnar á veru sjókvíaeldisfyrirtækjanna séu skiptar en að fyrirtækin hafi verið samþykkt inn í SFS árið 2019. „Menn samþykktu þetta á sínum tíma og það er bara þannig. Það eru auðvitað skiptar skoðanir um það, bara eins og á öllu í lífinu. Það er mótlæti í þessu.“
Fimm fjárfesta beint
Síðasta beina fjárfesting íslenskrar stórútgerðar í sjókvíaeldisfyrirtæki átti sér stað í byrjun október þegar Eskja á Eskifirði ákvað að fara inn í hluthafahópinn hjá Fiskeldi Austfjarða og keypti 1,40 prósenta hlut í félaginu af stofnanda þess, Guðmundi Gíslasyni.
Áður hafði félagið Hólmi ehf., eignarhaldsfélag stærstu hluthafa Eskju þeirra Þorsteins Kristjánssonar og Bjarkar Aðalsteinsdóttur, fjárfest í Fiskeldi Austfjarða.
Fyrir voru útgerðarfélögin Skinney-Þinganes og Ísfélag Vestmannaeyja fjárfestar í Fiskeldi Austfjarða. Þannig eru þrjú stór útgerðarfélög hluthafar í Fiskeldi Austfjarða.
Síldarvinnslan er svo annar stærsti hluthafi Arctic Fish á Ísafirði eftir að hafa keypt hlutabréf í því af pólskum fjárfesti.
Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal er eigandi laxeldisfyrirtækisins Háafells, sem hefur hafið sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi, meðal annars við Vigur.
Raunar er það bara stærsta laxeldisfyrirtækið, Arnarlax, sem er ekki með neina stórútgerð í hluthafahópnum.
Fimm fjárfesta óbeint
Þar að auki eru önnur fimm útgerðarfélög óbeinir hluthafar í laxeldisfyrirtækjum vegna þess að þau eiga eða eru í eigu útgerða sem eiga í slíkum fyrirtækjum.
Dæmi um þetta eru Jakob Valgeir í Bolungarvík, sem er hluthafi í fiskeldisfyrirtækinu Háafelli, sem er í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar.
Þá er Samherji hluthafi í Síldarvinnslunni, sem fjárfestir í Arctic Fish, sem og Gjögur og Vísir í Grindavík. Loks er Bergur-Huginn í Eyjum í eigu Síldarvinnslunnar. Þannig tengjast fjögur stór útgerðarfélög sjóakvíaeldinu óbeint í gegnum Síldarvinnsluna.
Heilt yfir eru því tíu af tuttugu stærstu útgerðum Íslands sem fjárfesta beint eða óbeint í sjókvíaeldi og þá einungis tíu sem gera það ekki með beinum eða óbeinum hætti.
Athugasemdir