Þótt opinberar skýrslur um söluna á Íslandsbanka séu haugfullar af vísbendingum um vanhæfni af margri sort, stórfellda hnökra og gróðabrall hafa alþingismenn, þvert á flokka, náð saman um að það alvarlegasta í málinu sé að þeir fái ekki að sjá starfslokasamning sem gerður var við Birnu bankastjóra fyrir mörgum árum.
Þeir hrópa og kalla í fjölmiðlum eftir samningnum. Formaður fjárlaganefndar mætir ábúðarfullur í fjölmiðla og segist hafa krafið bankann um samninginn fyrir hönd þingsins. Hvorki meira né minna. Þessi fyrirgangur þingmanna virðist haft þau áhrif á þorra almennings að hann heldur að starfslokasamningurinn sé mergurinn málsins og að ekki komi annað til greina en að birta hann. Og verkalýðsforingjar taka undir, annars bara…
Auðvitað verður samningurinn birtur, og hefði verið birtur þótt ekki hefði komið til upphrópana. Og hvað ætla þingmenn svo að gera við hann? Þeir eiga að vita að þingið hefur enga aðkomu að slíkum samningi og það getur engu um hann breytt. Þeir eiga líka að vita að upplýsingar um vanhæfnina, hnökrana og gróðabrallið við söluna er ekki að finna í starfslokasamningi bankastjóra. Þeir eiga að vita að þeir geta ekkert gert með samninginn annað en lesa hann. Jú, og hneykslast á honum.
Formaður fjárveitinganefndar hefur mætt í fjölmörg viðtöl vegna bankasölunnar en hefur varla verið spurður að því hvernig á því stóð að nefndin, undir hans forystu, lagði blessun sína yfir söluferlið. Gæti verið að formaðurinn sé með þennan hávaða út af starfslokasamningnum til þess að breiða yfir vangetu við að meta hvernig best væri að selja bankann?
Aðalatriði málsins, vanhæfnin og spillingin, rykfalla vegna þess að með aðstoð fjölmiðla er þingmönnum að takast að færa kastljósið af því sem öllu skiptir og yfir á aukaatriðin.
Önnur yfirbreiðsla var lögð á Íslandsbankamálið miðvikudaginn 5. júlí. Formaður þingliðs Sjálfstæðisflokksins fékk forsíðu Morgunblaðsins til þess að sýna bróderinguna á teppinu:
Vantraust innan ríkisstjórnar
Svandís matvælaráðherra sökuð um ögrun og atlögu að stjórnarsamstarfinu
Þingflokksformaður Sjálfstæðismanna segir vantraust grafa undan samstarfi
Þeim sem lesa grein formannsins með opnum huga ætti að vera ljóst að hún er ekki einvörðungu sett fram nú vegna langvarandi vináttu Flokksins og hvalveiðimannsins, heldur, og ekki síður til þess að taka kastljósið af Íslandsbankamálinu.
Af tilefninu skal rifjað upp að það er alþekkt alþjóðleg brella í málþófi að tala um annað en það sem er til umræðu. Við slíkan þæfing etja forvígismenn gjarnan minni spámönnum á foraðið. Og þar er hann staddur, þingflokksformaðurinn, í foraðinu miðju ásamt hópi þingmanna margra þingflokka.
Höfundur er rithöfundur
Athugasemdir