Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Jón Guðni Ómarsson: Starfslok stjórnenda Íslandsbanka ekki að þeirra frumkvæði

Nýr banka­stjóri Ís­lands­banka tók ákvörð­un um að tveir stjórn­end­ur inn­an bank­ans yrðu að víkja vegna ábyrgð­ar þeirra á út­boði á hlut rík­is­ins í bank­an­um. Jón Guðni Óm­ars­son seg­ir að með því og öðr­um að­gerð­um haldi hann að tak­ast megi að vinna aft­ur traust í garð bank­ans en það muni taka tíma „og mikla vinnu“.

<span>Jón Guðni Ómarsson:</span> Starfslok stjórnenda Íslandsbanka ekki að þeirra frumkvæði
Sagir bankann hafa axlað ábyrgð Með ákvörðun sinni um að stjórnendur innan Íslandsbanka yrðu að víkja úr störfum telur nýr bankastjóri, Jón Guðni Ómarsson, að búið sé að axla ábyrgð á lögbrotum við útboð á hlut ríkisins á bankanum á síðasta ári. Engir sem hafi borið höfuðábyrgð á því ferli séu nú starfandi innan bankans. Mynd: Heimildin / Davíð Þór

Starfslok tveggja stjórnenda hjá Íslandsbanka, þeirra Atla Rafns Björnssonar og Ásmundar Tryggvasonar, voru ekki að þeirra frumkvæði heldur samkvæmt kröfu nýs bankastjóra bankans, Jóns Guðna Ómarssonar. Gert var samkomulag um starfslok þeirra beggja og með því eru, að sögn Jóns Guðna, allir þeir sem ábyrgð báru á misgjörðum og lagabrotum bankans við útboð á hlut ríkisins í bankanum í mars 2022 hættir störfum innan bankans.  

„Þetta eru fyrstu verkin sem ég fór að skoða, eftir að ég tók við, hvaða breytingar ætti að gera, og þetta er eftir samtal okkar á milli og samkomulag um starfslok,“ segir Jón Guðni í samtali við Heimildina, spurður um hvort að þeim Atla Rafni og Ásmundi hafi verið sagt upp störfum. Spurður enn frekar hvort hann hafi talið nauðsynlegt að þeir vikju, með heildarhagsmuni bankans í huga, játar hann því.

„Með þessum aðgerðum þá er enginn af þeim stjórnendum sem komu að verkinu lengur í þeim störfum, og við erum búin að axla ábyrgð.“
Jón Guðni Ómarsson

 „Já, það má segja það. Þegar ég skoðaði þetta heilt yfir og hvað væri rétt að gera þá horfði ég til þess að þarna voru klárlega mistök gerð í heildarferlinu. Ef einn starfsmaður gerir mistök þá eru mistökin svolítið hans en ef hópur starfsmanna gerir mistök þá eru það stjórnendur sem bera ábyrgðina. Með þessum aðgerðum þá er enginn af þeim stjórnendum sem komu að verkinu lengur í þeim störfum, og við erum búin að axla ábyrgð.“

Þannig að eftir að Birna hætti störfum, og núna Atli Rafn og Ásmundur, þá eru engir starfandi hjá bankanum sem báru meginábyrgðina á söluferlinu á sínum tíma?

„Nákvæmlega.“

Vill ekki tjá sig um yfirmann lögfræðisviðs

Jón Guðni tók við stöðu bankastjóra Íslandsbanka aðfaranótt 28. júní síðastliðins, þegar Birna Einarsdóttir lét af störfum á stjórnarfundi bankans sem hófst síðdegis 27. júní og stóð fram á nótt. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar hafði Birna ekki hug á að láta af starfi sem bankastjóri þegar stjórnarfundurinn hófst og gerði hvað hún gat til að halda í stöðu sína en án árangurs. Brotthvarf Birnu, auk þeirra Ásmundar og Atla Rafns, er það sem Jón Guðni vísar til þegar hann segir að enginn stjórnandi sem bar ábyrgð á útboðinnu og því sem þar fór úrskeiðis sé nú starfandi í bankanum.

Tómas Sigurðsson er yfirmaður lögfræðisviðs Íslandsbanka og var það einnig þegar útboðið fór fram og í aðdraganda þess. Spurður út í stöðu hans, í ljósi þess að segja má að það hljóti að hafa átt að vera á sviði lögfræðideildar bankans að hafa yfirsýn yfir ýmsa þætti þess verklags sem misfórst við útboðið, svo sem að stefna um hagsmunaárekstra innan bankans hafi ekki tekið mið af nýjum og strengri lögum, svarar Jón Guðni: „Einmitt. Ég ætla svo sem ekki að tjá mig um einstaka starfsmenn umfram það sem kom í fréttum um helgina. Það hefur verið mikil umræða um ýmsa þætti verksins en það er mitt mat að þeir stjórnendur sem báru ábyrgð á verkefninu hafi þegar stigið til hliðar.“ Spurður hvort frekari skipulagsbreytingar standi fyrir dyrum neitar Jón Guðni því.

Var á svæðinu þegar kallið kom

Ráðning Jóns Guðna átti sér stuttan aðdraganda enda hafði Birna lýst því yfir að hún hefði traust stjórnar og hyggðist ekki víkja sem bankastjóri. Annað kom hins vegar á daginn seint aðfararnótt síðastliðins miðvikudags. Jón sat sjálfur ekki fundinn en segir aðspurður að það hafi verið falast eftir kröftum hans að kvöldi þriðjudagsins.

Og hvernig gerist það, tók Finnur Árnason [stjórnarformaður Íslandsbanka] bara upp símann, hringdi í þig og spurði: Viltu verða bankastjóri?

„Nei nei, ég var á svæðinu þó ég væri ekki á fundinum sjálfum svo hann þurfti ekki langt að sækja.“

Hvernig varð þér við þegar hann nálgaðist þig með þetta?

„Mér brá í fyrstu, þó að einhverju leyti hafi ég verið viðbúinn því að ýmislegt gæti gerst þá vissi maður ekki hvernig þetta myndi enda.“

„Það var einhver umhugsun en ég ákvað svo að það væri rétt að henda mér í þetta“
Jón Guðni Ómarsson
um ákvörðun sína um að taka að sér bankastjórastarfið

En þú hefur augljóslega ekki hikað lengi við. Sagðir þú bara fljótt og fallega já?

„Það er nú kannski ekki alveg svo einfalt. Ég var beðinn um að taka þetta að mér og sem staðgengill var það kannski eðlilegast. Það var einhver umhugsun en ég ákvað svo að það væri rétt að henda mér í þetta.“

Það gerir gott betur en að gusta um bankann þessa dagana, það er töluvert verkefni sem þú tekur í fangið, hvarflaði aldrei að þér að þú værir betur kominn með að þurfa ekki að taka við símtölum eins og þessu?

„Jú, þú getur rétt ímyndað þér.“

En þú telur að þú sért vel í stakk búinn til að takast á við verkefnið, og leiða til að mynda þessa endurskoðun til lykta á farsælan hátt?

„Já, ég tel það. En það er svo annarra að meta það.“

Þú ert ráðinn í þessa stöðu en það er boðað til hluthafafundar í bankanum 28. þessa mánaðar. Telurðu að þú þurfir að hafa einhverjar áhyggjur af starfi þínu á þeim fundi?

„Ja, þegar stórt er spurt. Það er kannski ekki mitt að meta. Ég er bara að hugsa um hvern dag í einu núna, að gera mitt allra besta til að róa hlutina og tryggja að bankinn sé í góðri starfsemi og sinni okkar viðskiptavinum. Hitt er svo bara eitthvað sem kemur í ljós.“

En þú ert áfram um það, og fús til, að gegna starfinu áfram?

„Já, það er rétt.“

Vonast til að sjálfsskoðun gagnist bankanum

Eins og Jón Guðni nefndi segir hann að með skipulagsbreytingum innan bankans sé búið að axla ábyrgð á því sem misfórst í útboðinu. Spurður hvort hann fari í það verk að velta við frekari steinum í rekstri bankans, svarar hann:

„Ég fer auðvitað í það að stýra bankanum heilt yfir en úrbótakröfurnar sem settar voru fram í sáttinni við Seðlabankann snúa mest að þeim einingum sem komu að verkinu. Á sama tíma förum við í sjálfsskoðun varðandi áhættumenninguna heilt yfir, hvort við getum bætt hana, en á flestum sviðum bankans er sterk menning, við þurfum bara að styrkja hana heilt yfir.“

Segir áhættumenningu hafa verið ábótavant

Í viðtali Heimildarinnar við Finn Árnason, stjórnarformann bankans, í síðustu viku vildi Finnur ekki kannast við að það væri eitthvað brogað við áhættumenninguna innan bankans.

Í umræddu viðtali sagði Finnur að fjármálaeftirlitið drægi of víðtækar ályktanir í sáttinni, ekki síst varðandi áhættumenningu innan bankans. „Það er langur vegur frá að hér sé áhættumenning eða áhættustýring í ólagi,“ sagði Finnur. Spurður enn frekar hvort hann væri þá ósammála þeirri niðurstöðu í mati fjármálaeftirlitsins að áhættumening innan bankans hafi verið óeðlileg þegar kom að útboðinu og söluferlinu á hlutum í bankanum svaraði Finnur: „Mér finnst ekki skýrt afmarkað í þessari skýrslu, þegar verið er að segja frá þessum ályktunum sem eru dregnar mjög víða í skýrslunni, að það eigi við um þetta verkefni.“

„Þessi skýrsla segir hins vegar að áhættumenningu var ábótavant, klárlega, varðandi ýmsa þætti“
Jón Guðni Ómarsson
um áhættumenningu innan Íslandsbanka

Því er ekki hægt að segja að Finnur hafi svarað því mjög skýrt hvaða afstöðu hann taki til þess hvort áhættumenningu hafi verið áfátt í tengslum við útboðið. Spurður hvort hann telji að svo hafi verið svarar Jón Guðni: „Þannig að ég tali algjörlega skýrt: Áhættumenning bankans er mjög sterk á mörgum sviðum, til að mynda í útlánum. Þessi skýrsla segir hins vegar að áhættumenningu var ábótavant, klárlega, varðandi ýmsa þætti. Við munum nýta þá vinnu sem framundan er í hvort við getum styrkt hana annars staðar líka.“

Þannig að ergo, henni var ábótavant í bankanum?

„Nei, ég var ekki að segja það. Bankinn náttúrulega er í mjög fjölþættri starfsemi og megnið af daglegri starfsemi er í föstum skorðum til langs tíma, og áhættumenning mjög, mjög sterk. Þegar við förum hins vegar að skoða heilt yfir með ráðgjöfum hvernig áhættumenning getur verið enn betri getur alveg verið að það nýtist þvert yfir bankann allan, en ekki bara á þessum sviðum sem um ræðir. Svo það sé alveg skýrt.“

Verið að kanna hvort um einangrað tilvik hafi verið að ræða

Varðandi sáttina við fjármálaeftirlitið, ert þú sammála atvikalýsingunni í henni í meginatriðum?

„Við getum sagt að við auðvitað skrifum undir sáttina og erum sammála því að þarna hafi ýmislegt misfarist. Svo munum við fara ítarlega yfir þetta á hluthafafundi og reyna að greina grunnorsökina, hvers vegna þessi mistök urðu. Við munum síðan einblína á úrbætur og tryggja að slíkt gerist ekki aftur.“

Lítur þú á þau mistök og brot sem urðu í söluferlinu sem einangrað tilvik, sem ekki sé hægt að draga víðtækar ályktanir af um starfsemi bankans?

„Það er einmitt það sem við erum að skoða núna, við erum að fá ráðgjafa til að skoða með okkur hvernig ýmis konar skipulagi er best háttað erlendis. Út úr þeirra vinnu sjáum við kannski hvernig það liggur allt saman.“ Umræddir ráðgjafar eru frá fyrirtækinu Oliver Wyman, sem er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki með höfuðstöðvar í New York.

Segir starfsmenn finna fyrir mikill samkennd

Spurður hvort Íslandsbanki hafi misst frá sér viðskiptavini undanfarna daga vegna málsins segir Jón Guðni að bankinn hafi ekki fundið fyrir því. „Við höfum einmitt fundið mjög mikla samkennd hjá okkar viðskiptavinum og fengið mjög mikið af símtölum þar sem haft er samband við framlínustarfsfólk hjá okkur.“

Erum við að tala um að fólk sem vinnur í þjónustuveri eða gjaldkera, sem er að fá klapp á bakið?

„Ég myndi nú ekki segja það. Vissulega verðum við vör við einhver dæmi um ósátta viðskiptavini en við finnum líka fyrir mikilli samkennd, þetta eru erfiðir tímar. Fólk er búið að vera í viðskiptasamböndum lengi og þekkist vel þannig að það er bara samkennd sem við finnum í allri framlínu bankans.“

Hyggst reyna að vinna traust VR

Stjórn VR fordæmdi í liðinni viku viðbrögð Íslandsbanka varðandi brot starfsmanna bankans í útboðinu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lýsti því að með samþykkt stjórnarinnar fælist hótun um að félagið myndi hætta viðskiptum sínum við bankann, en þau er verulega mikil. Spurður hvernig yfirlýsingar sem þessar slægu hann svarar Jón Guðni: „Það slær mig náttúrulega ekki vel. Ég ætla að hitta þau, og við munum gera okkar allra besta gagnvart þeim eins og öðrum við að endurvinna traustið.“

Meðal annars eins og þú sagðir í upphafi samtalsins með þessum skipulagsbreytingum sem þið hafið þegar gert varðandi Atla Rafn og Ásmund?

„Já, nákvæmlega.“

„Því má segja að útboðið var ekki vel heppnað að því leyti til“
Jón Guðni Ómarsson
spurður um álit hans á orðum forstjóra Bankasýslunnar um að útboðið hafi verið það best heppnaða í Íslandssögunni

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, er ennþá á því að þetta hafi verið besta útboð Íslandssögunnar og kannski best heppnaða útboð í Evrópu fyrr og síðar. Getur þú deilt þeirri skoðun með Jóni Gunnar?

„Ég held að ég sé kannski ekkert að tjá mig um það, eða setja einhver sérstök lýsingarorð á það. Ég held að útkoman fjárhagslega, borið saman við önnur viðskipti erlendis, þá kom seljandinn ágætlega út. Hins vegar voru mistök í framkvæmdinni og þær hafa haft afleiðingar. Því má segja að útboðið var ekki vel heppnað að því leyti til.“

Er sektin sem lögð er á bankann mikið högg fyrir rekstur hans, í stóra samhenginu?

„Þetta er vitanlega högg en þrátt fyrir það högg er undirliggjandi afkoma bankans sterk og gert ráð fyrir að afkoman verði yfir arðsemismarkmiðum á árinu.“

Ef þú horfir á þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til, mannabreytingum og endurskoðun á starfsemi bankans, áttu þá von á að ykkur takist að endurvinna tiltrú almennings, stjórnmálamanna og ykkar viðskiptavina fljótt og vel?

„Ég held að okkur muni takast það en það mun klárlega taka tíma og mikla vinnu.“

Kjósa
15
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kristín Þorsteinsdóttir skrifaði
    Vantar alveg að spyrja um hvers vegna lögbrjótarnir eru verðlaunaðir með milljóna starfslokagreiðslum.
    0
  • Hlynur Jörundsson skrifaði
    3 feitar meyjafornir sem fá feita skilapakka og málið er dautt. Kostnaði velt a almenning. Oh hvar er rannsóknin Heimild ? Greining og collateral beneficiaries?

    Deja Vu.
    0
  • HK
    Helga Kristjánsdóttir skrifaði
    Það slær mig hvað nýráðinn bankastjóri, Jón Guðni talar ýtrekað um að mistök hafi verið gerð í söluferlinu. Þannig eru lögbrotin sem framin voru í raun gengisfelld því mistök fela í sér að eitthvað hafi verið gert óvart og án ásetnings. Um það er ekki að ræða í þessu máli.
    1
  • PB
    Páll Bragason skrifaði
    Gott viðtal við Jón Guðna. ,,Fleiri stjórnendum verður ekki sagt upp," en hvað með aðra, sem útveguðu sér eða nákomnum aðgang að kaupum á hlutabréfum fram hjá réttum leikreglum í skjóli slælegrar stjórnunar? Er hræddur um, að flórmokstrinum sé ekki lokið, ef endurvinna á traust markaðarins. Ætla má, að núverandi stjórn Íslandsbanka liggi banaleguna. Hvað gerir ný stjórn?
    0
  • Viðar Eggertsson skrifaði
    Takk Heimildin. Nú þyrfti að upplýsa hvað hver þessara starfsmanna fær í laun í starfslokasamningum sínum.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Salan á Íslandsbanka

Bjarni segir það Alþingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu
FréttirSalan á Íslandsbanka

Bjarni seg­ir það Al­þingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, seg­ir að hann hafi gert ráð fyr­ir bless­un þings­ins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagn­vart hverj­um og ein­um kaup­anda á Ís­lands­banka í mars 2022. Þing­inu hefði átt að vera aug­ljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfis­regl­um í sölu­með­ferð­inni sem val­in var. Bjarni sat fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár