Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

„Ég ber að sjálfsögðu formlega ábyrgð“

Starfs­loka­samn­ing­ur Birnu Ein­ars­dótt­ur við Ís­lands­banka gæti hljóð­að upp á 60 millj­óna króna greiðsl­ur ef mið­að er við laun henn­ar á síð­asta ári. Hlut­hafa­fund­ur í Ís­lands­banka verð­ur ekki hald­inn fyrr en eft­ir mán­uð. Finn­ur Árna­son, stjórn­ar­formað­ur bank­ans, hyggst gefa kost á sér áfram. Hann við­ur­kenn­ir að bank­inn hafi beitt blekk­ing­um en neit­ar því að Banka­sýsl­an hafi ver­ið blekkt.

„Ég ber að sjálfsögðu formlega ábyrgð“
Ekki viss um að Birna hefði þolað við mikið lengur Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, svarar því ekki til hvort hann hefði gert kröfu um að Birna Einarsdóttir léti af starfi sem bankastjóri, hefði hún ekki vikið sjálf. Sjálfur ætlar hann að gefa kost á sér til áframhaldandi starfa. Mynd: Heimildin / Davíð Þór

Starfslokasamningur Íslandsbanka við Birnu Einarsdóttur, sem lét af störfum sem bankastjóri í nótt, er til tólf mánaða. Verði greiðslur vegna starfslokasamningsins til Birnu í samræmi við launakjör hennar á síðasta ári munu þær hljóða upp á um 60 milljónir króna. Óvíst er þó hvort að sú tala sé nákvæm þar eð Heimildinni var hafnað um að fá starfslokasamninginn afhentan og ekki hafa fengist nákvæmari útlistanir á því hvað hann inniber.

„Hann er í samræmi við hennar ráðningarsamning,“ segir Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, í samtali við Heimildina, aðspurður um starfslokasamning Birnu. „Í lögum um fjármálafyrirtæki er hámarkið tólf mánuðir og hann er í samræmi við lög, auðvitað.“

Spurður hvaða upphæðir sé um að ræða í samningnum svaraði Finnur því að það myndi koma fram í ársuppgjöri bankans. Ársuppgjör verður væntanlega birt í byrjun febrúar á næsta ári. Þá sagði Finnur einnig að ekki yrði orðið við beiðni Heimildarinnar um að fá samninginn afhentan.

Var með fimm milljónir á mánuði

Birna var með 59,8 milljónir króna í heildarlaun á síðasta ári. Það var rúmum tveimur milljónum krónum meira en hún fékk í föst laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóði á árinu 2021. Þá voru heildarlaun hennar hins vegar 68,6 milljónir króna vegna þess að Birna fékk sérstaka 10,9 milljón króna greiðslu vegna yfirvinnu í tengslum við undirbúning hlutafjárútboðs og skráningar Íslandsbanka á markað sumarið 2021.

Birna fékk enga sérstaka yfirvinnugreiðslu vegna sölunnar á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka í mars á síðasta ári. Meðalmánaðarlaun Birnu lækkuðu því á síðasta ári, úr 5,7 milljónum króna árið 2021 í fimm milljónir króna á mánuði. Birna var sá bankastjóri í stórum banka á Íslandi sem lægst hafði launin.

Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri bankans þar til hann var gerður að bankastjóra við brotthvarf Birnu, hækkaði í launum á árinu 2022. Fóru laun hans úr 45,1 milljón króna í árslaun 2021 í 53,5 milljónir króna, eða rétt tæplega 4,5 milljónir króna á mánuði. Fastlega má gera ráð fyrir að laun Jóns Guðna hækki enn, nú þegar hann hefur sest í stól bankastjóra. Þá má líka gera ráð fyrir að uppsagnarákvæði hans verði með öðrum hætti en væri ef hann hefði eingöngu sinnt störfum sem staðgengill bankans fram að hluthafafundi, kjósi ný stjórn bankans að skipta um mann í brúnni.

Óljós svör um mannabreytingar innan bankans

Spurður hvort að aðrar breytingar hafi orðið á skipuriti bankans, hvort einhverjir stjórnendur hafi til að mynda hætt, verið sagt upp eða færðir til innan bankans, svarar Finnur því til að það sé ekki hans að svara til um það. „En það er alveg ljóst að í svona stóru fyrirtæki þá eru mannabreytingar.“

„En það er alveg ljóst að í svona stóru fyrirtæki þá eru mannabreytingar“
Finnur Árnason
spurður um hvort frekari breytingar hafi verið gerðar á skipuriti Íslandsbanka

Geturðu rakið það eitthvað frekar fyrir mig?

„Eins og ég segi, stjórn félagsins er ekki með instant bókhald um það en það hefur ekki orðið breyting á æðsta skipuriti.“

Eru slíkar breytingar í farvatninu?

„Stjórn bankans er með má segja tvo starfsmenn, sem eru innri endurskoðandi og bankastjóri. Önnur mannaforráð eru á hendi bankastjóra.“

Hluthafafundur ekki fyrr en eftir mánuð

Boðað hefur verið að hluthafafundur í Íslandsbanka verði haldinn á næstunni. Aðspurður um nánari tímasetningu svarar Finnur því til að hann verði haldinn eftir sléttan mánuð, 28. júlí næstkomandi.

Spurður hvort hann hafi sjálfur íhugað sína stöðu sem stjórnarformaður bankans, hvort hann muni sækjast eftir því á hluthafafundinum að gegna embættinu áfram eða hafi hugmyndir um að láta af embætti svarar Finnur:

„Sko, ég var kosinn í stjórn bankans þarna fjórum, fimm dögum fyrir þetta útboð og það hafði ekki farið fram stjórnarfundur þegar útboðið fór fram. Ég hef sagt það í öðrum miðlum að ég hyggst gefa kost á mér áfram.“

„Það var ekki það sem ég sagði.“
Finnur Árnason
um hvort hann beri ekki ábyrgð á söluferlinu.

Er það þá þitt mat að þú berir ekki ábyrgð á útboðinu og framkvæmd þess, því sem þar fór úrskeiðis, í því ljósi að þú varst nýkominn inn í stjórn og stjórnarfundur hafði ekki farið fram?

„Það var ekki það sem ég sagði.“

Nei, ég er að spyrja þig.

„Ég ber að sjálfsögðu formlega ábyrgð frá þeim tímapunkti að ég var kosinn.“

En hafðir ekki tök á að koma að útboðsferlinu?

„Í fyrsta lagi hafði ég ekki tök á því og í öðru lagi, stjórnin hafði enga aðkomu að þessu ferli.“

En hefði átt að hafa eftirlitshlutverk með því, trúi ég?

„Ja, ég held fyrst og fremst eftirlitshlutverk með þeim þáttum sem getið er um, samanber að símtalsupptökur væru réttar og innri ferla sem hefðu skilað því að gert hefði verið hagsmunaárekstramat, og þess háttar. En að einstökum verkefnum kemur stjórn ekki.“

Ráðning Jóns Guðna farsæl að mati Finns

Spurður hvort að hluthafar í bankanum geti haft eitthvað um það að segja hvernig mannahaldi sé háttað innan bankans, til að mynda varðandi stöðu bankastjóra, svarar Finnur því til að hluthafar kjósi stjórn sem síðan ráði bankastjóra. „Það er ekki á forræði hluthafa að gera starfssamninga. Hins vegar getur vel verið að hluthafi hafi einhverja skoðun á einstökum mannaráðningum og geti borið fram álytkun eða tillögu, beint ákveðnum skilaboðum til stjórnar. Það er hins vegar endanlega á forræði stjórnar að stýra bankanum og hafa með þessar tvær mannaráðningar að gera, en annað ekki.“

Spurður hvort hann búist þá við því að á hluthafafundi muni koma fram einhverjar leiðbeiningar til stjórnar varðandi í það minnsta umræddar tvær stöður svarar Finnur því til að innri endurskoðandi bankans hafi unnið sína vinnu vel og meðal annars unnið skýrslu fyrir bankann í apríl á síðasta ári sem skilað var 5. maí og var henni þegar skilað til fjármálaeftirlitsins. „Það hefur komið fram hjá okkur að í meginatriðum og að stórum hluta voru þeir annmarkar sem koma fram í skýrslu fjármálaeftirlitsins, þeir voru í skýrslu innri endurskoðanda. Varðandi hitt starfið sem þú nefnir sem að stjórnin er með þá er Jón Guðni búinn að starfa sem fjármálastjóri hér frá 2011. Hann er búinn að vera öðru hvoru megin við tíu ár þess til viðbótar hjá bankanum eða forverum hans, hann hefur verið staðgengill bankastjóra og hefur verið mjög farsæll í starfi. Það var ákvörðun stjórnar að hans ráðning væri farsæl og það er mín skoðun.“

Það hefur komið fram að Birna Einarsdóttir hafi sjálf tekið ákvörðun um að láta af störfum. Hefðir þú viljað sjá Birnu halda sínum störfum áfram?

„Birna hefur unnið frábært starf fyrir bankann og hann er vel rekinn. Það hefur aukist verðmæti fyrir hluthafa og hér er bara mjög öflugur banki með sterkri liðsheild sem hún hefur byggt upp. Hún er mikil forystukona. Ég held hins vegar að sú umræða sem hefur farið fram undanfarið, og sá mótbyr sem bankinn og ekki síst hennar persóna hefur fengið geri það að verkum að hún, með hagsmuni bankans að leiðarljósi, tekur þetta skref. Það er mín sýn á þetta.“

„Með þá umræðu sem er í gangi veit ég ekkert hvað hún hefði þolað það mikið lengur“
Finnur Árnason
um starfslok Birnu Einarsdóttur

Þannig að hefði Birna ekki ákveðið að láta af störfum, þá hefðir þú ekki gert kröfu um það sem stjórnarformaður bankans?

„Þetta er málið eins og það er, og með þá umræðu sem er í gangi veit ég ekkert hvað hún hefði þolað það mikið lengur. Umræðan má segja varð óvægnari og óvægnari eftir því sem tíminn leið.“

Segir umræðuna hafa verið óvægna en dæmin vantar

Svo þér hefur þótt umræðan óvægin, hvernig þá Finnur?

„Það er alveg ljóst, og kemur fram í sáttinni, að bankinn hefur viðurkennt að hafa brotið lög. Eins og ég sagði við þig áðan þá lá það fyrir í maí á síðasta ári að stjórnin var upplýst um það hvað hafði misfarist. Þá þegar var farið að vinna að úrbótaverkefnum. Við fengum síðan frummat frá fjármálaeftirlitinu í lok árs og 6. janúar erum við búin að taka ákvörðun um það að leita sátta í málinu. Það sáttaferli fer af stað og það má segja að þessi athugun fjármálaeftirlitsins sé ein af mjög mörgum sem að fer fram af hendi eftirlitsins á starfsemi bankans. Þar eru tekin út ýmis svið...“

Eins og fjármálaeftirlitinu er skylt að gera varðandi fjármálastofnanir.

„Akkúrat. Og heilt yfir er Íslandsbanki að fá góða niðurstöðu þar. Það má nefna að eiginfjárkrafa á íslenska banka er lægst hjá Íslandsbanka, meðal annars er það niðurstaða á úttektum eftirlitsins á starfseminni sem fer hér fram. Síðan má segja að sú skýrsla sem kemur út, og niðurstaðan, þó ég ég beri ekki í bætifláka fyrir þær misfellur sem þar eru...“

Lögbrot.

„Já, já, ég dreg ekkert af með það að þar eru hlutir sem eru ekki eins og þeir áttu að vera. Hins vegar er skýrslan sett fram með þeim hætti að þetta eigi við um allan bankann, og alla starfsemi bankans.“

En bíddu, er það? Finnst þér það sem sagt?

„Ég ætla að segja sem almennur lesandi að þá held ég að það sé þannig. Það kemur fram í skýrslunni að þetta eigi við um þetta afmarkaða verkefni en hvorki almennur lesandi né heldur sú umfjöllun sem hefur komið í kjölfar skýrslunnar gefa það til kynna að þetta sé þetta verkefni og að aðrir hlutir séu í lagi.“

En bíddu nú við. Þú segir það sjálfur, það er ljóst um hvað skýrslan fjallar. Hún fjallar um söluferlið, útboðið og það sem því tengist, á sölu hlutar ríkisins í bankanum. Hvernig er hægt að skilja hana einhvern veginn öðru vísi? Það eru tiltekin í henni dæmi um nákvæmlega þetta ferli þar sem hlutir misfórust, þar sem lög voru brotin, þar sem hlutir voru ekki eins og þeir áttu að vera. Hvernig er hægt að skilja það þannig að verið sé að gagnrýna bankann fyrir alla hans starfsemi í þessari umfjöllun?

„Við skulum aðeins byrja upp á nýtt. Þú talaðir um óvægna umfjöllun...“

Nei, ég spurði þig, þú talaðir um að þér hefði þótt hún það.

„Það er meðal annars vegna þess að umfjöllunin er ekki eins og það hafi bara verið þetta verkefni heldur eins og um bankann í heild.“

„Þér að segja þá er ég ekki með dæmi í höfðinu“
Finnur Árnason
spurður um dæmi um óvægna umfjöllun

Geturðu nefnt mér einhver dæmi um þá umfjöllun sem þér finnst hafa verið með þeim hætti?

„Þér að segja þá er ég ekki með dæmi í höfðinu en það eru ummæli mjög víða sem gera það, þannig að skilningur fólks sem eru að fjalla um þetta í fjölmiðlum, hann gefur það til kynna að hér sé allt í ólagi.“

Segir fjármálaeftirlitið draga of víðtækar ályktanir

Þér finnst sem sagt að þetta sé með þeim hætti. Þá ætla ég að spyrja þig aftur, af því þú talaðir sérstaklega um skýrsluna, skil ég það rétt að þér finnist líka að hlutirnir séu í henni settir þannig fram að það sé verið að segja að það sé allt í ólagi í bankanum, en ekki bara þetta tiltekna verkefni, eða ferli?

„Eigum við ekki að segja það að eins og ég les skýrsluna, og ég hef komið því á framfæri við fjármálaeftirlitið, að við lestur hennar, þau gefa allt of víðtækar ályktanir út frá tilefni.“

Geturðu nefnt mér konkret dæmi um slíkt?

„Ég bið þig bara um að lesa yfir skýrsluna.“

Ég hef gert það, bara svo það sé sagt.

„Það er talað um stjórnarhætti, það er talað um innra eftirlit, áhættumenningu, áhættustýringu, og svo framvegis. Stærsta áhættan í þessum banka er útlánaáhætta og hún er í mjög góðu lagi. Það eru birtir hér ársreikningar og árshlutareikningar þar sem kemur fram afskriftir og niðurfærslur lána. Það er langur vegur frá að hér sé áhættumenning eða áhættustýring í ólagi.“

En áhættumenning varðandi þennan þátt, þessa framkvæmd? Ertu ósammála þeirra niðurstöðu í mati fjármálaeftirlitsins að hann hafi verið óeðlilegur í kringum söluferlið?

„Mér finnst ekki skýrt afmarkað í þessari skýrslu, þegar verið er að segja frá þessum ályktunum sem eru dregnar mjög víða í skýrslunni, að það eigi við um þetta verkefni.“

Þér finnst það ekki, þó skýrslan hafi þessa forskrift, að hún sé um þetta verkenfni? Að það sé látið flæða yfir á fleiri svið í starfsemi bankans?

„Það er mitt mat já.“

Segir starfsfólk ekki eiga skilið þá gagnrýni sem beinist að bankanum

Ég sá haft eftir þér að það sé sárt fyrir starfsfólk bankans að upplifa hörð viðbrögð samfélagsins. Hefur þú fengið meldingar þess efnis að starfsfólki líði illa?

„Sko, það var hér starfsmannafundur í morgun þar sem Birna kvaddi og Jón Guðni mætti til leiks, og það er alveg ljóst, eins og ég segi, að þarna er verkefni sem ákveðinn hluti starfsfólks vinnur. Og þessar víðtæku ályktanir sem ég var að vitna til áðan, þær eru að smita á starfsemi og starfsfólk sem hefur ekkert með þetta verkefni að gera, og á ekki skilið þá umræðu sem fer fram í sambandi við bankann í heild.“

En er ekki fyrst og fremst verið að gagnrýna stjórnendur bankans en ekki almennt starfsfólk?

„Jú, ég hef nú verið óskýr ef ég hef talað með þeim hætti að það væri, en það sem ég á við er að þetta er að smitast á alla starfsmenn.“

Það er það sem að þú, og þið eruð að upplifa, að gagnrýni sem réttilega má beina að stjórnendum bankans, stjórn, bankastjóra og lykilstjórnendum, sé að smitast yfir á alla starfsmenn?

„Já.“

„Það var ekki tekið tillit til þeirra að neinu leyti“
Finnur Árnason
um mótrök Íslandsbanka hjá fjármálaeftirlitinu

Það er vitanlega ekki gaman að sitja undir því ef einhver sem ekki hefur gert annað en að sinna sínum störfum af heilindum fær á sig slíka gagnrýni en engu að síður þá brutu starfsmenn bankans, í einhverjum tilvikum, lög. Það segir þessi skýrsla okkur. Það er þá ekkert sérstaklega óeðlilegt að þið verðið fyrir harðri gagnrýni, eða hvað?

„Nei, nei, ég er ekki að víkjast undan henni. Ég veit ekki hvort ég er óskýr...“

Nei, Finnur, þú ert ekkert endilega óskýr en málið er viðamikið og mikilvægt og því kannski ekki óeðlilegt að ég spyrji aftur til að fá enn skýrari mynd á þín svör.

„Já, já. Mín svör eru þannig að það eru brot sem eru klár, við höfum gengist við, og við höfum skrifað undir sátt og það er enginn ágreiningur um þau brot. Við bara hörmum þau og það er unnið að aðgerðaáætlun til að laga það sem misfórst og til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Síðan eru þættir í þessari skýrslu sem við erum ekki sammála, okkar mótrök koma þarna fram. Það var ekki tekið tillit til þeirra að neinu leyti.“

Það er greint frá þeim þó, fjármálaeftirlitið fellst bara ekki á þau mótrök. Þið hafið þá ekki nein frekari tök á að verja hendur ykkar frekar en orðið er?

„Ekki í þessu máli, sáttin liggur fyrir og þar með er þessu máli lokið.“

Viðurkennir að bankinn hafi beitt blekkingum en ekki gagnvart Bankasýslunni

Það er tilgreint margt í skýrslunni sem ekki hefur verið í lagi og einn af alvarlegri þáttunum er að það er beinlínis sagt að Íslandsbanki hafi blekkt Bankasýsluna. Ég sé haft eftir þér annars staðar að þú fallist ekki á að svo hafi verið. Þú ert þá væntanlega að vísa til þess, auk annars, þegar þú segir að þér finnist ekki tekið tillit til ykkar mótraka?

„Já.“

Þannig að Íslandsbanki blekkti ekki Bankasýsluna við þetta söluferli?

„Okkar mat er að svo sé ekki, það er alveg rétt.“

„Jú, það kemur fram í skýrslunni að það voru gefnar rangar upplýsingar til viðskiptavina, um lágmarksupphæð“
Finnur Árnason
spurður um hvort Íslandsbanki hafi beitt blekkingum í söluferlinu

Blekkti Íslandsbanki engan í þessu ferli öllu saman?

„Jú, það kemur fram í skýrslunni að það voru gefnar rangar upplýsingar til viðskiptavina, um lágmarksupphæð.“

Og um tilfærslu almennra fjárfesta í hóg fagfjárfesta, eða hvað?

„Já, þar er ágreiningur reyndar. Það er skilgreint samkvæmt lögum hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að vera fagfjárfestir. Þar þarf að tikka í tvö box af þremur og þar eru níu aðilar, ef ég man rétt í skýrslunni, sem eru tilgreindir rangt flokkaðir, hafi ekki verið fagfjárfestar. Við teljum að það séu þrír sem séu rangt flokkaðir. Hins vegar séu matsatriði sem að snúi að því að það er ákveðið huglægt mat í þessu mati sem að gerir það að verkum að það séu sex af þessum níu sem við teljum að hafi verið flokkaðir í samræmi við lög.“

Lítur alls ekki léttvægt á málið

Einbeitum okkur þá að þeim þrem sem þið viðurkennið að hafi ekki verið rétt flokkaðir. Voru það mistök eða vísvitandi blekkingar, að ykkar mati?

„Ég ætla ekki að svara því hér, ég bara get það ekki.“

Af hverju getur þú það ekki?

„Ég ætla bara að játa það að ég man ekki einstök atriði í þessum þremur, hvernig þau voru, ég verð bara að játa það að þó ég hafi lesið þetta ítrekað þá kann ég ekki þessa skýrslu utanað ennþá.“

Þrátt fyrir það sem þú hefur sagt, að þér finnist dregnar víðtækar ályktanir í skýrslunni og svo framvegis, þá lítur þú ekki á málið eins og það sé léttvægt, eða hvað?

„Nei, langt því frá, langt því frá. Við bara tökum mjög alvarlega þessari niðurstöðu og ég held að það sýni hvernig stjórnin leit á þetta, að innan við viku eftir að frummatið kom erum við búin að óska eftir því að þetta mál fari í sáttaferli. Sem segir að við göngumst við þeim brotum sem að við vitum að voru framkvæmd.“

Þú hefur sagt að þið hafið farið í breytingar í innra eftirliti í starfsemi bankans, til að koma í veg fyrir að svona nokkuð geti átt sér stað að nýju.

„Sú vinna er enn í gangi, þér að segja.“

Hversu öruggur ertu þá um að svona nokkuð geti ekki komið fyrir aftur hjá bankanum?

„Ég myndi segja bara að við vinnum að því að gera það eins traust og hægt er.“

Og bankinn mun ekki koma að frekari sölu á hlutum í sjálfum sér?

„Já, það er rétt.“

Kjósa
27
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • ÞTÞ
    Þóroddur Tryggvi Þórhallsson skrifaði
    Að gera einhvern starfslokasamning við manneskju sem hefur framið ótal lögbrot í starfi er nátúrlega út í hött. Það á að henda henni út úr bankanum og hún ætti að fá nokura mánuða fangelsisdóm, ekki skilorð. En eins og venjulega þá snýr þetta lið bökum saman verst eins og það getur því hvenar kemur að næsta manni að það kemst upp um hann ?
    1
  • MGÁ
    Marteinn Gísli Árnason skrifaði
    Nei,nei og aftur nei.Öll stjornin a umsvifalaust að segja AF SER OG KUNNA AÐ SKAMMAST SIN.

    Birna a ekki að fa kronu buið er að upplysa að um lögbrot hafi verið framin.

    Lögreglurannsokn an tafar a þetta misindisfolk. EFTIR HVERJU ER VERIÐ AÐ BIÐA?
    2
  • Hlynur Jörundsson skrifaði
    Væntanlega horfa sibrotamenn i aðdáun a það að brotlegir ábyrgðaraðilar fá rausnarlegt gjafir eftir þeim er ekki lengur vært í starfi .
    4
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Það er ekkert lát á spillingar viðbjóðinum þegar kemur að sjálftökuni á almannaféi.
    2
  • PB
    Páll Bragason skrifaði
    Stórkostleg lesning þetta. Hvernig í ósköpunum dettur formanninum í hug að hann geti setið áfram eins og ekkert hafi í skorist? Hann virðist helst draga þá ályktun af stöðu mála, að helstu eigendur bankans hafi kallað eftir hluthafafundi til að hluthafar geti lýst yfir trausti á hann og stjórnina.
    8
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Salan á Íslandsbanka

Bjarni segir það Alþingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu
FréttirSalan á Íslandsbanka

Bjarni seg­ir það Al­þingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, seg­ir að hann hafi gert ráð fyr­ir bless­un þings­ins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagn­vart hverj­um og ein­um kaup­anda á Ís­lands­banka í mars 2022. Þing­inu hefði átt að vera aug­ljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfis­regl­um í sölu­með­ferð­inni sem val­in var. Bjarni sat fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár