Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Íslandsbanki „þáði“ boð um hæstu sekt Íslandssögunnar en atburðarásin enn hulin

Ís­lands­banki hef­ur geng­ist við því að hafa fram­ið al­var­leg brot á lög­um og sam­þykkt að borga næst­um 1,2 millj­arða króna í sekt. Ekki hef­ur ver­ið upp­lýst um ná­kvæm­lega hvaða ákvæði laga bank­inn braut, hvernig starfs­menn hans brutu um­rædd lög né hvaða ein­stak­ling­ar beri ábyrgð á þeim lög­brot­um. Stjórn­ar­formað­ur Ís­lands­banka kall­aði mál­ið „verk­efni“ í til­kynn­ingu og að bank­inn myndi draga lær­dóm af því.

Nákvæmlega 15 mánuðum eftir að íslenska ríkið seldi 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði til valins hóps 207 fjárfesta fyrir 52,6 milljarða króna á gengi sem var undir markaðsgengi liggur fyrir staðfesting á því að bankinn braut lög með sölu á hlutum í sjálfum sér. Niðurstaða Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands er sú að brot Íslandsbanka „hafi verið alvarleg“. 

Samkomulag hefur náðst milli þess og bankans um að hann greiði 1.160 milljónir króna í sekt í ríkissjóð vegna brotanna. Það er lang hæsta sekt sem fjármálafyrirtæki hefur nokkru sinni greitt vegna lögbrota sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið til rannsóknar. Fyrra metið átti Arion banki, sem var gert að greiða 88 milljónir króna árið 2020 eftir að upplýsingar um yfirvofandi uppsagnir bankans láku í fjölmiðla og birtust þar áður en markaðnum var greint frá þeim. Sekt Íslandsbanka er rúmlega þrettán sinnum sú upphæð.

Íslandsbanki sendi tilkynningu til Kauphallar Íslands í gærkvöldi þar sem hann segist hafa þegið boð Fjármálaeftirlitsins „um að ljúka máli með samkomulagi um sátt“. Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, sagði í tilkynningunni að ljóst sé að „bankinn dregur mikinn lærdóm af þessu verkefni.“

Í tilkynningunni segir að bankinn gangist við því að hafa brotið gegn „tilteknum ákvæðum“ laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki. Íslandsbanki viðurkennir að hafa ekki fylgt lögum og eigin innri reglum við flokkun fjárfesta og að hafa ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra við söluna, meðal annars vegna viðskipta starfsmanna. Auk þess hafi hljóðritun símtala ekki verið í samræmi við lagakröfur og innri reglur né upplýsingagjöf til viðskiptavina. 

Fleira fór úrskeiðis. Innleiðing stjórnarhátta og innra eftirlits hjá Íslandsbanka var ekki fullnægjandi og skort hafi áhættumiðað eftirlit með hljóðritunum. Jafnframt telur Fjármálaeftirlitið að bankinn hefði átt að gera sérstakt áhættumat í tengslum við útboðið. Loks hafi bankinn, við framkvæmd útboðsins í fyrra, ekki starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum.

Mörgum spurningum ósvarað

Þótt tilkynning Íslandsbanka til Kauphallar Íslands í gærkvöldi staðfesti endanlega umfangsmikil og alvarleg lögbrot bankans, sem leiddi af sér hæstu sekt Íslandssögunnar vegna lögbrota fjármálafyrirtækis, þá er enn mörgum spurningum ósvarað. Hvorki Fjármálaeftirlitið né Íslandsbanki hefur til að mynda upplýst nákvæmlega hvaða ákvæði laga voru brotin og atvikalýsing um hvernig brotin voru framin, hverjir frömdu þau og hvaða stjórnendur bera ábyrgð er enn ekki fram komin. 

Um hálft ár er síðan að niðurstaða frummats Fjármálaeftirlitsins á lögbrotum Íslandsbanka lá fyrir. Rannsókn eftirlitsins hverfðist fyrst og fremst um þátttöku starfsmanna bankans og aðila þeim tengdum í útboðinu, sem var lokað og einungis ætlað fyrir fagfjárfesta. Komið hefur fram að einstaka starfsmenn bankans hafi keypt hlutabréf í útboðinu fyrir tiltölulega lágar upphæðir, nokkrar milljónir króna, og að Íslandsbanki hafi samþykkt að skilgreina þá sem fagfjárfesta. Miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem birtar voru í tilkynningu Íslandsbanka í gærkvöldi þá virðist ljóst að það hafi verið rangt mat hjá Íslandsbanka að skilgreina ætti alla þessa starfsmenn þannig. 

165 dagar

Íslandsbanki sendi frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands þann 9. janúar síðastliðinn þar sem fram kom að bankinn hefði óskað eftir einhliða viðræðum við Fjármálaeftirlitið um að ljúka málinu með sátt. Síðan eru liðnir 165 dagar. Íslandsbanki sagði þá enn fremur að hann ætlaði sér að ljúka við að setja fram sín sjónarmið í málinu fyrir miðjan febrúar. Síðan eru liðnir 118 dagar. 

Eftirlitið sjálft hefur ítrekað neitað að veita upplýsingar um málið þegar Heimildin hefur spurst fyrir um stöðu þess og innihald, síðast með svari sem barst mánudaginn 19. júní. Þar sagði einfaldlega: „„Með vísan til þagnarskylduákvæðis 41. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands getur Seðlabankinn ekki veitt frekari upplýsingar að sinni.“

Sáttaviðræðurnar fóru fram á grundvelli reglna frá árinu 2019 um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að ljúka málum með slíkum hætti. Í sátt felst að málsaðili, í þessu tilfelli Íslandsbanki, gengst við að hafa brotið gegn ákvæðum laga eða ákvörðunum Fjármála­eftirlitsins, upplýsi að fullu um brotið og geri samkomulag við stofnunina um tiltekna sektar­greiðslu. Auk þess þarf að liggja fyrir að bankinn hafi þá þegar látið af þeirri háttsemi sem braut gegn lögum og að hann hafi gert viðeigandi úrbætur.

Heimildin til sáttar nær ekki til þess sem kallast meiri háttar brot, en það eru brot sem refsiviðurlög, fangelsisvist, liggja við. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.

Sektir sem Fjármálaeftirlitið getur lagt á geta numið frá 100 þúsund krónum og upp í 800 milljónir króna. Sektir sem lagðar eru á lögaðila, eins og Íslandsbanka, geta þó verið mun hærri, eða allt að tíu prósent af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi. Rekstrartekjur Íslandsbanka árið 2022 voru 57,2 milljarðar króna, auk þess sem virðisbreyting fjáreigna var um 1,6 milljarðar króna. Hámarkssekt sem hægt var að leggja á bankann var því nálægt sex milljörðum króna.

Vildu ekki að atburðarásin verði gerð opinber

Ákvörðun um sektina, og eins hvernig greint verður frá rannsókninni opinberlega, er á hendi fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar var það ekki möguleg fjársekt, eða upphæð hennar, sem Íslandsbanki hræddist mest í málinu heldur að Fjármálaeftirlitið muni birta ítarlega skýrslu eða greinargerð með rannsóknarniðurstöðum sínum. 

Í slíkri skýrslu yrði atburðarásin í málinu teiknuð upp frá A til Ö og sýnt fram á með hvaða hætti Íslandsbanki er talinn hafa brotið lög og reglur. Birting slíkra upplýsinga gæti haft í för með sér orðsporsáhættu fyrir bankann og ýtt undir enn gagnrýnni umræðu um ábyrgð hans og einstakra stjórnenda. Enn sem komið er hefur eftirlitið ekkert greint frá niðurstöðu sinni. Það ætti að skýrast í dag hvort það hyggist birta slíka skýrslu eða greinargerð. 

Ýmislegt er þó þegar vitað um þau mál tengd Íslandsbanka sem rötuðu inn á borð eftirlitsins. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið, sem birt var í fyrrahaust, var meðal annars greint frá því að fjárfestar sem voru ekki í viðskiptum við Íslandsbanka fram að söludeginum hafi haft möguleika á að sækja um og eftir atvikum fá flokkun hjá honum sem hæfir fjár­festar meðan á söl­unni stóð. Í skýrslunni segir: „Að auki var horft til full­yrð­inga frá fjár­fest­unum sjálfum um að þeir teld­ust hæfir fjár­festar en bank­inn þurfti að meta upp­lýs­ingar þess efnis sjálf­stætt. Rík­is­end­ur­skoðun kann­aði ekki hvernig þessu var háttað hjá öðrum umsjón­ar­að­il­um, sölu­ráð­gjöfum eða sölu­að­ilum við mat þeirra á hæfum fjár­fest­um. Þessi hluti sölu­ferl­is­ins sætir eft­ir­liti Fjár­mála­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að Bankasýslan hafi metið það svo að reglu­verk fjár­mála­mark­að­ar­ins væri með þeim hætti að slíkar innri reglur umsjón­ar­að­ila, sölu­ráð­gjafa og sölu­að­ila kæmu í veg fyrir hags­muna­á­rekstra í söl­unni. „Ljóst er að innri reglur Íslands­banka komu ekki í veg fyrir slíkt.“

Íslandsbanki hefur ekki viljað svara fyrirspurnum fjölmiðla um hversu margir fjárfestar fengu flokkun sem „hæfir fjárfestar“ hjá bankanum á þeim klukkutímum sem söluferlið stóð yfir né viljað upplýsa um fyrir hversu háa fjárhæð þeir sem fengu flokkun á meðan að tekið var við til­boðum í hlut rík­is­ins í bank­anum keyptu. 

Upphæðin fjórfaldaðist

Þegar Íslandsbanki birti ársreikning sinn þann 9. febrúar kom fram að bankinn gerði ráð fyrir því að greiða stjórnvaldssekt vegna brota á lögum og reglum í tengslum við söluferlið. Bankinn færði sérstaka skuldbindingu vegna þessa í ársreikninginn. Forsvarsmenn Íslandsbanka vildu á þeim tíma ekki upplýsa um hversu há sú upphæð sem bankinn reiknaði með að greiða í sekt sé.

Í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallar, sem birt var í gærkvöldi, kom fram að hin sérstaka skuldbinding sem færð var í ársreikninginn hafi verið allt of lág, eða 300 milljónir króna. Vegna þessa þarf Íslandsbanki, sem er enn í 42,5 prósent eigu íslenska ríkisins, að gjaldfæra 860 milljónir króna til viðbótar í uppgjöri sínu fyrir annan ársfjórðung yfirstandandi árs. Því er endanleg sekt næstum fjórum sinnum sú upphæð sem Íslandsbanki reiknaði með að þurfa að greiða þegar bankinn birti ársreikning sinn í febrúar. 

Kjósa
23
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Salan á Íslandsbanka

Bjarni segir það Alþingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu
FréttirSalan á Íslandsbanka

Bjarni seg­ir það Al­þingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, seg­ir að hann hafi gert ráð fyr­ir bless­un þings­ins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagn­vart hverj­um og ein­um kaup­anda á Ís­lands­banka í mars 2022. Þing­inu hefði átt að vera aug­ljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfis­regl­um í sölu­með­ferð­inni sem val­in var. Bjarni sat fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár