Ríkisstjórnin kynnt óvænt aðgerðir gegn verðbólgu í gær. Óvænt vegna þess að ekkert í fasi eða yfirlýsingum hennar síðustu vikur benti til þess að nokkurt slíkt væri á leiðinni. Fókusinn hefur mun frekar verið á því að halda fyrirferðamikinn fund fyrir alþjóðleg fyrirmenni og á að sannfæra láglaunafólk um að hlutfallsleg meðaltalshækkun ýmissa sérvalinna hagtalna sýni að lífskjarakrísa þess sé ekki jafn alvarleg og fólkið sjálft telur. Sé eiginlega skynvilla. Raunveruleikinn er hins vegar sá að fólk borðar hvorki meðaltöl né hlutfallstölur.
Einhverskonar vakning á aðstæðum virðist loks hafa skilað sér inn á ríkisstjórnarborðið, fjórum dögum fyrir áætlaða þingfrestun. Sennilega með hjálp síðustu Gallup könnunar um fylgi flokka sem sýndi að ríkisstjórnarflokkarnir hafa aldrei verið óvinsælli frá því að þeir tóku við völdum, að þeir myndu tapa 14 þingmönnum ef kosið væri í dag og að Vinstri græn, flokkurinn sem leiðir stjórnina, mælist nú í fyrsta sinn með minna en sex prósent fylgi. Það gerir flokk forsætisráðherrans að sjöunda stærsta flokki landsins, með innan við eitt prósent meira fylgi en þeir tveir sem mælast minni en hann.
Launahækkun dempuð
Það var hreinlega lygilegt að fylgjast með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í fréttum RÚV í síðustu viku reyna að rökstyðja allt að 6,3 prósent hækkun á launum æðstu embættismanna, á þessum tíma, með því að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefði stutt breytingar á fyrirkomulaginu sem notast er við til að taka ákvörðun um launin. Ekki stæði til að koma í veg fyrir að hækkunin yrði að veruleika.
Það var lygilegt vegna þess að Katrín hefur oftast nær verið ágætlega pólitískt læs. Nú virtist engin skilningur til staðar á því hvers konar skilaboð væri verið að senda til allra þeirra hópa sem berjast í bökkum, en eiga að axla ábyrgð á verðstöðugleikanum með því að sækja ekki nokkra þúsundkalla í launahækkanir.
Nákvæmlega viku síðar voru kynntar aðgerðir sem draga verulega úr hækkuninni. Hún var ekki alveg felld niður, en skorin niður um meira en helming, niður í 2,5 prósent, þannig að krónutöluhækkun þeirra rjúfi til að mynda ekki það 66 þúsund króna þak sem sett var á launahækkanir í skammtímakjarasamningum við almenna markaðinn fyrir áramót.
Laun forsætisráðherra munu nú hækka um tæplega 62 þúsund krónur á mánuði og verða 2.532 þúsund krónur. Fórn hennar fyrir aðeins betra pólitískt veður, að minnsta kosti út vikuna, er því 94 þúsund króna launahækkun á mánuði, eða 1.127 þúsund krónur á ári. Laun annarra ráðherra og þingmanna munu hækka um lægri krónutölu. Með þessu segir ríkisstjórnin að tryggt verði að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting, þrátt fyrir að krónutöluhækkunin sé í efri mörkum þeirra hækkana sem samið var um í kringum síðustu áramót og Seðlabankinn fullyrðir að hafi skapað aukinn verðbólguþrýsting.
Endurtekið efni í nýjum búningi
Sumt sem var kynnt í gær er gamalt vín á nýjum belgjum, til dæmis frestun á nýbyggingu stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöðvar viðbragðsaðila. Þetta eru líka aðgerðir sem vigta inn í næsta ár, og hafa engin bein áhrif í dag. Þá var 7,4 prósent hækkun á lífeyri almannatrygginga og frítekjumarki húsnæðisbóta leigjenda endurnýttur í fréttatilkynningu stjórnvalda, en þær aðgerðir tóku gildi í upphafi árs.
Engar nýjar tekjuöflunarleiðir eru kynntar til leiks. Sami mildi hvalrekaskatturinn, um að hækka tekjuskatt lögaðila tímabundið um eitt prósent árið 2025, er endurtekinn. Engin breyting er boðuð á bankaskatti þrátt fyrir að lækkun hans árið 2020 hafi ekki gert annað en að skila auknum vaxtamun hjá bönkum landsins, þvert á vilyrði um annað. Klifað er á áður boðuðum breytingum á gjaldtökukerfi af ökutækjum og aukinni gjaldtöku í ferðaþjónustu án þess að þær breytingar séu útfærðar. Þegar boðuð hækkun á gjaldi á fiskeldisfyrirtæki, sem leggst á árið 2025, er boðuð að nýju.
Enn bólar ekkert á marglofuðum breytingum á því fullkomlega galna fyrirkomulagi að tekjuháir einstaklingar geta talið fram launatekjur sem fjármagnstekjur í gegnum einkahlutafélög og þar með komið sér undan því að greiða sömu skatta og aðrir. Áætlað hefur verið að hið opinbera verði af allt að átta milljörðum króna á ári vegna þessarar skattaglufu.
13 milljarðar á fimm árum
Þegar fimm ára fjármálaáætlun var kynnt í lok mars var boðað að veiðigjaldið verði hækkað „á stærri samþættar útgerðir en á móti að hækka frítekjumark til hagsbóta fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Áætlað er að þessar breytingar skili auknum tekjum í ríkissjóð frá og með árinu 2025.“
Þetta verður gert á grundvelli verkefnisins „Auðlindin okkar“ sem er á forræði Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Tillögur vegna þeirrar vinnu eiga að liggja fyrir í ár. ASÍ birti greiningu fyrr á þessu ári þar sem sagði að auðlindarenta í sjávarútvegi hefði verið 56 milljarðar króna á árinu 2021. Með auðlindarentu er átt við þá arðsemi sem verður til vegna þess að stjórnvöld hafa takmarkað aðgengi að auðlindinni, með úthlutun aflaheimilda. Veiðigjald ársins 2021 var um átta milljarðar króna, eða um 14 prósent af auðlindarentunni.
Í pakkanum sem kynntur var í gær sagði að gert væri ráð fyrir að „endurskoðun veiðigjalds muni skila viðbótartekjum upp á samtals 13 milljarða á tímabili áætlunarinnar.“ Það er þá hækkun um 2,6 milljarða króna að meðaltali á hverju þeirra fimm ára sem fjármálaáætlunin nær til. Ríkisstjórnin virðist því ekki ætla að taka neina risasneið af hagnaðinum sem fellur til vegna fiskveiða af stórútgerðinni.
Annað í pakkanum er óútfært og loðið, til dæmis vilyrði um að vinna að „lagabreytingum sem munu bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði.“ Starfshópur á að skila tillögum um þessar breytingar fyrir næstu mánaðamót. Þá á að „kanna“ breytingar á lagaumhverfi heimagistingar, sem fer aðallega fram í gegnum Airbnb, til að jafna samkeppnisstöðu og draga úr þrýstingi á húsnæðismarkað.
Mikill afkomubati en samt halli í kortunum
Nokkrar aðgerðir eru þó raunverulegar. Lífeyrir almannatrygginga verður hækkaður um 2,5 prósent til viðbótar frá miðju ári og frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda hækkað um sömu prósentutölu afturvirkt frá áramótum. Þetta skilar peningum á rétta staði, til þeirra sem þurfa helst á þeim að halda. Hvort þessi hóflega hækkun á tekjum þeirra hópa sé nægjanleg til að skipta máli í samfélagi þar sem verðbólgan hefur verið nálægt tveggja stafa tölu í marga mánuði, þar sem nánast ómögulegt er fyrir lægri tekjuhópa að eignast húsnæði og þar sem leiguverð er að hækka hratt verður að koma í ljós.
Jákvæðu fréttirnar úr ríkisrekstrinum eru þær að tekjur ríkissjóðs í ár stefna í að verða miklu meiri en þær voru áætlaðar við fjárlagagerð. Afkoman er nú áætluð um 90 milljörðum krónum betri en áður einfaldlega vegna þess að hagkerfið er að taka miklu hraðar við sér en búist var við. Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi mældist enda sjö prósent. Það þýðir að frumjöfnuður, áður en ríkið tekur tillit til vaxtagreiðslna, stefnir nú í að vera jákvæður um 44 milljarða króna.
Vaxtagreiðslur ríkissjóðs hafa hins vegar hækkað gríðarlega, enda vaxtakostnaðurinn einn sá mesti í Evrópu. Í fjárlögum voru vaxtagjöldin áætluð um 95 milljarðar króna í ár en í ljósi þess að hlutur verðtryggðra lána ríkissjóðs er að jafnaði 20 til 30 prósent af lánasafni hans má ætla að hann verði enn meiri þegar uppi er staðið, þar sem há verðbólga hefur reynst mun þrálátari en reiknað var með. Ríkissjóður verður því nær örugglega rekinn með myndarlegum halla á árinu 2023.
Þá er mikið áhyggjuefni að hagvöxtur hérlendis er keyrður áfram af fólksfjölgun, aðallega vegna þess að það vantar fólk í vinnu í ferðaþjónustu og tengdum geirum. Þessir geirar, sem eru með litla framleiðni, eru mannaflsfrekir enda mælist atvinnuleysi nú einungis um 3,3 prósent. Tíu þúsund ný störf hafa orðið til síðastliðið ár. Framleiðni hvers íbúa er að dragast saman og á undanförnum árum hefur Ísland mælst með minnstan hagvöxt á mann af öllum ríkjum OECD.
Heimatilbúið húsnæðisvandamál
Eitt stærsta vandamálið sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir eru afleitar aðstæður á íbúðamarkaði fyrir tekjulága. Vandamálið er vel þekkt: eftirspurn eftir húsnæði er langt umfram framboð, gríðarleg aukning í komu ferðamanna gerir það að verkum að allt of stór hluti íbúða fer í að hýsa þá og hröð endurkoma ferðaþjónustu á grundvelli innspýtingar opinbers fjármagns hefur leitt af sér að íbúum landsins hefur verið að fjölga um eitt þúsund á mánuði frá byrjun síðasta árs. Allt þetta fólk þarf að búa einhvers staðar sem eykur enn eftirspurnina og þensluna.
Í ofanálag bætast afleiðingar af nokkrum hörmulegum ákvörðunum stjórnmálamanna. Fyrst var félagslega íbúðakerfið einkavætt fyrir um aldarfjórðungi þegar ríkisstjórn þess tíma, skipuð Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, ákvað að það færi betur á því að markaðurinn sæi bara um húsnæðismál þjóðarinnar. Það skilaði því að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli 1998 og 2017, á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um rúmlega fjórðung, eða tæplega 73 þúsund.
Næsta var ákveðið að leggja nánast niður vaxtabótakerfið, sem er ætlað að miðla fjármunum til lægri tekjuhópa og er með eigna- og tekjumörkum, og taka í staðinn upp húsnæðisstuðningskerfi sem gagnast aðallega efstu tekjuhópunum í gegnum skattfrjálsa nýtingu á séreignarsparnaði. Öllum ætti að vera ljóst að kerfi þar sem sá tæpi þriðjungur þjóðarinnar sem er með hæstu tekjurnar fær 77 prósent af þeim 50 milljörðum króna sem úthlutað hefur verið úr ríkissjóði frá 2014, en tekjulægri helmingur þjóðarinnar fær sjö prósent, er ekki að styðja við þá sem þurfa á því að halda. Mun frekar er um tilfærslu á skattfé inn í aukna neyslu að ræða. Sem er verðbólguhvetjandi.
Ríkisstjórnin virðist aðeins vera að vakna af þessum súrrealisma og þetta fyrirkomulag mun renna sitt skeið á næsta ári.
Óvíst hvort hægt verði að nýta ný framlög
Í pakkanum sem ríkisstjórnin kynnti í gær kemur fram að þau ætli að bæta aðeins í framlög inn í kerfin sem smíðuð hafa verið til að reyna að plástra svöðusárið sem ofangreindar fyrri pólitískar ákvarðanir bjuggu til.
Tvöfalda á stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins eiga þær að verða eitt þúsund á ári. Auk þess á að bæta við 250 nýjum íbúðum við fyrri áætlanir þessa árs og verða þær þá samtals tæplega 800. Óvíst er þó að þeir aðilar sem byggja þessar íbúðir geti nýtt sér þennan stuðning vegna þess að byggingakostnaður er að hækka svo mikið, meðal annars vegna þess að lóðir eru í höndum braskara sem vilja græða vel á neyðarástandi á markaðnum.
Hinn plásturinn eru svokölluð hlutdeilarlán. Þau komu fyrst til framkvæmda undir lok árs 2020 og byggja á löggjöf sem heimilar ríkissjóði að gefa út lán til tekjulágra einstaklinga sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð, eða höfðu ekki átt íbúð síðastliðin fimm ár.
Hugmyndin með lánunum er að ríkið gerist meðfjárfestir í fasteignakaupunum, en lánin eru vaxtalaus og getur numið allt að 30 prósentum af kaupverði.
Vandamálið við þessi lán er að hámarkslánsfjárhæðin er langt undir markaðsvirði íbúða, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Í svari sem innviðaráðherra gaf við fyrirspurn seint í apríl kom í ljós að einungis tuttugu slík lán höfðu verið veitt á árinu og þar af hafði eitt lán verið veitt á höfuðborgarsvæðinu, þar sem eftirspurnin er mest. Það gagnast sennilega illa að setja aukið fjármagn í úrræði sem fólk getur einfaldlega ekki nýtt.
Skref stigið til hálfs
Fjármálaráð gagnrýndi fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar nokkuð harkalega í álitsgerð sem það birti í apríl. Þar sagði að „þó bensíngjöfin sé ekki stigin í botn eins og áður hefur bensíngjöfinni þó ekki verið sleppt, enda þótt aðhald hafi aukist sé miðað við tímabil heimsfaraldursins.“ Ráðið sagði að opinber fjármál væru sjálfbær og að tölusett viðmið fjármálareglna getu því tekið gildi árið 2026 miðað við fyrirliggjandi áætlanir og forsendur. Áætlunin gerði þó ekki ráð fyrir því, heldur að þau taki gildi 2028.
Í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti í gær var farinn millivegur, og greint frá því að fjármálareglurnar muni taka gildi árið 2027, ári síðar en að fjármálaráð kallaði eftir.
Þá á að endurvekja gamla hugmynd ríkisstjórnarinnar um stofnun Þjóðarsjóðs. Samkvæmt upprunalegum áætlunum átti arður Landsvirkjunar, og mögulega annarra orkufyrirtækja, að renna í þann sjóð. Ýjað var að því að arður vegna nýtingu annarra auðlinda gæti ratað þangað líka með tíð og tíma og tekið fram að hann yrði ávaxtaður erlendis. Meginhlutverk sjóðsins átti að vera að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Til framtíðar átti svo að nota arðsemi þeirra fjárfestinga í ýmis konar samfélagslega mikilvæg verkefni. Vandamálið við þessa hugmynd er að það er þörf fyrir fjárfestingu í þeim samfélagslegu verkefnum núna, ekki eftir tíu eða tuttugu ár þegar sjóðurinn er búinn að ná einhverri ákveðinni stærð.
Skortur á virkri hlustun
Samandregið þá er pakkinn sem var kynntur í gær ekki mikill pakki. Hluti hans eru endurtekningar, hluti eru aðgerðir sem koma seinna og hluti er eitthvað sem er klætt í aðgerðarbúning en mun skila litlu eða engu. Á bakvið þetta virðist áfram liggja sú skoðun stjórnarinnar að almenningur í landinu sé bara að misskilja að hann sé í einhverjum vanda. Hann eigi að vera þakklátur fyrir sömu gjöfina, keypta fyrir almannafé, í nýjum gjafapappír.
Enn og aftur kristallast sú staða að stjórnmálamenn úr flokkum með gjörólíka stefnu og áherslur, sem eiga lítið annað sameiginlegt en að finnast gaman að vera ráðherrar, virðar illa geta mætt þeim kröfum sem almenningur gerir til þeirra þegar kreppir að.
Á tímum sem þessum þurfa stjórnmálamenn að búa yfir getu til að hlusta á fólkið sem það vinnur fyrir, ekki eyða tíma sínum í að reyna að finna framsetningu á hagtölum sem styður þá firringu þeirra að dýrtíð bíti ekki viðkvæma hópa með lítið á milli handanna og sé auk þess ekki farin að hafa veruleg áhrif á lífskjör margra millitekjuhópa.
Aðgerðirnar sem kynntar voru í gær benda ekki til þess að virk hlustun sé við lýði.
Athugasemdir (1)