Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Áframhaldandi halli, mildur hvalrekaskattur, bankasala og lítið aðhald

Fimm ára fjár­mála­áætl­un er ætl­að að hjálpa til við að berja nið­ur verð­bólgu og slá á þenslu. Þar eru boð­að­ar skatta­hækk­an­ir, sem sum­ar eru út­færð­ar og aðr­ar alls ekki, að­halds­að­gerð­ir og eigna­sala. Heim­ild­in greindi það helsta sem er að finna í áætl­un­inni.

Fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var kynnt eftir lokun markaða í gær. Upphaflega átti að kynna hana á mánudag, en það frestaðist um tvo daga. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar gekk ýmislegt á milli stjórnarflokkanna á lokametrum áætlunargerðarinnar þegar þeir þurftu að ná saman um málamiðlanir um fjárútlát til málaflokka, aðhaldskröfu og aukna tekjusókn. 

Niðurstaðan ber þess merki að þrír flokkar: Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, með ólíka hugmyndafræði og áherslur hafi náð henni í sameiningu. Enginn þeirra er fyllilega sáttur við niðurstöðuna og sennilega mun hún, í þetta skiptið, reynast Sjálfstæðisflokknum erfiðust í ljósi þess að umtalsverðar skattahækkanir eru boðaðar ásamt því sem dregið verður úr skattaívilnunum sem hafa verið vinsælar hjá baklandi hans. 

Megintilgangur áætlunarinnar átti þó að vera sá að takast á við verðbólguna. Hvort innihald hennar dugi til þess verður að koma í ljós. Viðbrögð hagsmunagæslusamtaka atvinnulífsins hafa flest verið á þann veg að áætlunin valdi vonbrigðum. Félag atvinnurekenda gagnrýndi skattahækkanir á fyrirtækin til að fjármagna það sem félagið kallar ósjálfbæran ríkisrekstur. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, lét svo hafa eftir sér á mbl.is í gær að of lítið væri gert til að takast á við þann vanda sem væri mest aðkallandi, þróun verðbólgu og þenslu hagkerfisins. „Þrátt fyr­ir fög­ur fyr­ir­heit um aðhalds­sama fjár­mála­áætl­un þar sem stig­in verða stór skref í að koma bönd­um á óhóf­leg­an vöxt rík­is­út­gjalda eru efnd­irn­ar því miður litl­ar. Þær aðhaldsaðgerðir sem eru tí­undaðar hrökkva að okk­ar mati skammt sem viðbragð við þeirri áskor­un sem ís­lenskt efna­hags­líf stend­ur frammi fyr­ir,“ sagði Halldór.

Hér að neðan er það helsta sem áætlunin felur í sér.

Halli út árið 2027

Samkvæmt skuldareglu mega heild­ar­skuldir rík­is­sjóðs, að frá­töldum líf­eyr­is­skuld­bind­ingum og við­skipta­skuldum og að frá­dregnum sjóðum og bankainn­stæð­um, ekki fara yfir 30 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var sú skuldaregla, sem sett er fram í lögum um opinber fjármál, tekin úr sambandi og skuldir ríkissjóðs hafa verið yfir því marki síðan 2019. 

Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að skuldirnar nái því fyrst að verða 30 prósent af landsframleiðslu árið 2028, en þær eru áætlaðar 31 prósent í ár og næstu fjögur ár.

Íslenska ríkið hefur verið rekið í miklum halla á undanförnum árum. Alls var afkoma ríkissjóðs neikvæð um 274 milljarða króna á árunum 2020 og 2021, þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði með tilheyrandi áhrifum á efnahagskerfi landsins. Þegar frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram í nóvember í fyrra kom fram að það stefndi í að hallinn vegna ársins 2022 yrði 126 milljarðar króna. Í afgreiddu fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs kom fram að hann væri áætlaður 120 milljarðar króna á árinu 2023. 

Þessi staða hefur batnað. Nú er hallinn áætlaður 54,5 milljarðar króna í ár. Það er hins vegar búist við því að áframhaldandi halli verði á ríkissjóði á hverju ári til ársins 2028, þegar afkoman er áætluð jákvæð um 4,8 milljarða króna. Alls er hallinn frá byrjun árs 2023 og út árið 2027 áætlaður 161,2 milljarður króna.

Mildur hvalrekaskattur

Síðastliðið rúmt ár hefur mikið farið fyrir því í opinberri umræðu að kallað hafi verið eftir aukinni tekjuöflun ríkissjóðs. Forsvarsmenn bæði Vinstri grænna og Framsóknarflokksins hafa til að mynda lýst yfir vilja til þess að þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur verði innleiddur á Íslandi. Ekkert er um það í fjármálaáætluninni. 

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, vakti athygli í febrúar á síðasta ári þegar hún kallaði eftir því að lagður yrði á svokallaður hvalrekaskattur. Í útvarpsviðtali sagði hún: „Ef það er ofsa­gróði eða ofur­hagn­aður hjá ein­hverjum aðil­um, þá eigum við að gera það. Ég er líka á þeirri skoðun að þetta ætti að eiga sér stað varð­andi sjáv­ar­út­veg­inn. Þar sem við sáum ofur­hagnað í ein­hverjum greinum þá á að skatt­leggja það.“ Áður hafði Lilja kallað eftir því að bankaskattur yrði hækkaður að nýju, en sitjandi ríkisstjórn lækkaði hann í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn skall á. 

HvalrekaskatturLilja Alfreðsdóttir kallaði eftir því að ríkið myndi leggja aukna skatta á ofurhagnað.

Ekkert er um hækkun bankaskatts í fjármálaáætluninni en þar er að finna áform um að hækka tekjuskatt lögaðila tímabundið til eins árs úr 20 í 21 prósent vegna rekstrarhagnaðar ársins 2024. 

Samkvæmt nýlegri samantekt BHM jókst samanlagður rekstrarhagnaður fyrirtækja á Íslandi um 60 prósent á árunum 2018 til 2022 á sama tíma og verðlag hækkaði um 20 prósent. Þar kom einnig fram að rekstrarhagnaður íslenskra fyrirtækja hafi verið sá mesti á öldinni á árunum 2021, þegar hann var 839 milljarðar króna, og 2022, þegar hann er áætlaður að hafa verið 885 milljarðar króna samkvæmt miðspá BHM.

Samhliða þessari aukningu í hagnaði fyrirtækja, sem meðal annars má rekja til ívilnandi aðgerða stjórnvalda og Seðlabanka Íslands í kjölfar kórónuveirufaraldursins, hafa fjármagnstekjur eigenda fyrirtækja hækkað gríðarlega. Árið 2021 nam hagnaður þeirra 0,5 prósenta landsmanna, alls 244 fjölskyldna, sem þénuðu mest í fjármagnstekjur 36 milljörðum króna. Hóp­ur­inn þén­aði 4,2 pró­sent af öllum tekjum sem urðu til í land­inu, en það hlut­fall hafði ekki verið hærra síðan 2007. 

Sá hvalrekaskattur sem er boðaður mun ekki ná yfir þann ofurhagnað sem myndaðist í hluta íslenskra fyrirtækja á síðustu árum, heldur leggjast á hagnað á næsta ári, þegar aðstæður eru allt aðrar og meira krefjandi. Miðað við rekstrarhagnað fyrirtækja á síðustu árum má ætla að þessi tímabundna skattahækkun um eitt prósentustig skili vel undir tíu milljörðum króna í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð það ár sem hún verður í gildi. Þennan tímabundna eins árs skatt má því kalla mildan hvalrekaskatt, sem lagður er á eftir að helsta góðæristímabilið er um garð gengið.

Fleiri borga fyrir að keyra

Til stendur að ráðast í heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Fyrsti áfangi hennar á að skila ríkissjóði 7,5 milljörðum króna í nýjar tekjur á næsta ári. Það sem þarna er undir er meðal annars gjaldtaka eftir notkun ökutækja samkvæmt aflestri á kílómetrastöðu sem er ætlað að leysa að hluta til af hólmi núverandi fyrirkomulag á gjaldtöku, sem byggir á rukkun eldsneytisskatta. Með fjölgun bíla sem knúnir eru áfram af rafmagni þá hefur þeim sem greiða fyrir vegakerfið fækkað. Samhliða stendur til að afnema skattaívilnanir sem hafa verið við lýði til að ýta fólki í að kaupa rafmagnsbíla. 

Samhliða þessum breytingum ætlar ríkisstjórnin að fjármagna framkvæmdir við uppbyggingu arðbærra samgönguinnviða á komandi árum að hluta eða öllu leyti með umferðar- eða veggjöldum. Um er að ræða annars vegar mannvirki og almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við svonefndan samgöngusáttmála og hins vegar þjóðhagslega mikilvæg innviðaverkefni á landsbyggðinni, svo sem jarðgangagerð. 

Líkt og með mörg önnur tekjuöflunarverkefni sitjandi ríkisstjórnar þá liggur endanleg útfærsla þó ekki fyrir. Í áætluninni segir að til að „tryggja skýra heildarsýn hafa fjármála- og efnahagsráðuneytið og innviðaráðuneytið sett á fót sameiginlega verkefnastofu um samgöngugjöld til þess að móta tillögur að nýju tekjuöflunarkerfi í samgöngum með hliðsjón af framkvæmdaáformum í samstarfi við ráðuneytin. Innleiðing á nýjum samgöngugjöldum, mögulega með tilkomu notkunarskatts.“

Sjókvíaeldið látið borga meira

Í fjár­­laga­frum­varpi árs­ins 2023, sem lagt var fram í sept­em­ber í fyrra, voru til­­­teknar tvær megin breyt­ingar á verð­­mæta­gjaldi vegna sjó­kví­a­eld­­is. Ann­­ars vegar átti að hækka gjald­hlut­­fallið úr 3,5 í fimm pró­­sent og hins vegar átti að færa við­mið­un­­ar­­tíma­bil gjalds­ins nær í tíma. Nánar til­­­tekið var því breytt þannig að nú er miðað við alm­an­aks­árið, en ekki ágúst, sept­­em­ber og októ­ber. Báðar breyt­ing­­arnar áttu að gera það að verkum að inn­­heimt gjald myndi hækk­a og þegar þær væru að fullu inn­leiddar árið 2026 myndu tekjur rík­is­sjóðs aukast um 800 millj­ónir króna á ári.  

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar ákvað hins vegar að salta hækkun gjaldhlutfallsins, með þeim rökum að skýrsla Boston Consulting Group um fram­tíð­ar­mögu­leika í lagar­eldi og skýrsla Rík­is­end­ur­skoð­unar um fram­kvæmd laga­setn­ingar og fram­kvæmd laga um fisk­eldi ættu liggja fyrir áður en frum­varpið yrði afgreitt. Báðar skýrslurnar liggja nú fyrir.

Í fjármálaáætluninni er hækkunin sett aftur á dagskrá óbreytt fyrir næsta ár og þá áætlað að hún skili 700 milljónum króna í viðbótartekjur í ríkissjóð. Frestunin sparaði þeim eldisfyrirtækjum sem stunda sjóeldi við Íslandsstrendur 450 milljónir króna.

Dregið skarpt úr stuðningi við byggingageirann

Þá stendur til, strax í ár, að draga úr skattaívilnun sem endar að mestu í vasa byggingageirans. Um er að ræða endurgreiðslur vegna átaksins „Allir vinna“. Það felur í sér að virðisaukaskattur af ýmis konar iðn­­að­­ar­vinnu, aðal­lega vegna nýbygg­ingar og við­hald hús­næðis, er endurgreiddur. Hlutfallið var 60 prósent um tíma en var hækkað í 100 prósent í kóronuveirufaraldrinum. Það leiddi til þess að íslenska ríkið greiddi alls 15 milljarða króna í endurgreiðslur vegna þess á árunum 2020 og 2021. Rúmlega þriðjungur þeirrar upphæðar fór beint til byggingafyrirtækja.

Til stóð að lækka þessar end­ur­greiðslur úr 100 í 60 pró­sent sam­kvæmt fjár­laga­frum­varpi árs­ins 2022. Sam­tök iðn­að­ar­ins, sem gæta meðal ann­ars hags­muna bygg­inga­fyr­ir­tækja, lögð­ust gegn þeirri lækkun og fóru fram á að átakið yrði fram­lengt í eitt ár til að takast á við það sem þau köll­uðu slaka í bygg­ing­ar­iðn­aði, þrátt fyrir að störfum í geiranum hafði þá fjölgað um tæp­lega þús­und frá því fyrir kór­ónu­veiru­far­ald­ur. 

Þessi hagsmunagæsla skilaði árangri og hlutfallið var ekki lækkað í 60 prósent fyrr en í fyrrahaust. Nú stendur til að lækka það enn frekar, í 35 prósent, frá miðju yfirstandandi ári. Þessi aðgerð á að skila alls 2,7 nýjum milljörðum króna í ríkiskassann í ár og sex milljörðum króna á næsta ári. 

BHM hefur áætlað að álagning á byggingakostnað hafi vaxið úr 50 í 100 prósent frá árinu 2018. Það þýði að byggingaverktakar hafi tvöfaldað hverja krónu miðað við söluverð íbúða í lok árs 2022.

Gjald á skemmtiferðaskip

Margar þeirra tekjuráðstafana sem boðaðar eru í fjármálaáætlun eru óútfærðar og tekjuauki fyrir ríkissjóð vegna þeirra enn sem komið er í heild nokkuð óljós. Í henni segir þó að tekjusóknin eigi samanlagt að hækka tekjur ríkissjóðs um 18 til 53 milljarða króna árlega yfir áætlunartímabilið.

Þær tekjusóknarbreytingar sem eru óútfærðar eru meðal annars „þróun fyrirkomulags um aukna gjaldtöku í ferðaþjónustu með það að leiðarljósi að breikka skattstofna og tryggja jafnræði aðila á markaði ásamt því að skoða leiðir til að sveitarfélög hafi auknar tekjur af ferðamönnum“. Í áætluninni segir að ýmsar leiðir séu til skoðunar í þessum efnum, meðal annars gjald á farþega skemmtiferðaskipa. 

Hærri veiðigjöld…2025

Eitt helsta deiluefni síðustu áratuga á Íslandi hefur verið hlutdeild hins opinbera í þeim hagnaði sem myndast vegna veiða á fiski í íslenskri lögsögu. Heimildin hefur greint frá því að hagnaður sjávarútvegs, samkvæmt gagnagrunni sem Deloitte tekur saman fyrir geirann, var sam­tals 752,3 millj­arðar króna frá 2009 og út árið 2021. Af þessum hagn­aði sat tæp­lega 71 pró­sent eftir hjá útgerðum lands­ins en rétt um 29 pró­sent fór í opin­ber gjöld. Þar undir eru veiðigjöld, tekjuskattur og tryggingargjald. 

MatvælaráðherraSvandís Svavarsdóttir stýrir því ráðuneyti sem mótar nú breytingar á veiðigjaldi.

Mestar deilur eru um veiðigjöldin. ASÍ birti nýverið greiningu sem sagði að auðlindarenta í sjávarútvegi hefði verið 56 milljarðar króna á árinu 2021. Með auðlindarentu er átt við þá arðsemi sem verður til vegna þess að stjórnvöld hafa takmarkað aðgengi að auðlindinni, með úthlutun  aflaheimilda. Veiðigjald ársins 2021 var um átta milljarðar króna, eða um 14 prósent af auðlindarentunni. 

Í fjármálaáætluninni er boðað að veiðigjaldið verði hækkað „á stærri samþættar útgerðir en á móti að hækka frítekjumark til hagsbóta fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Áætlað er að þessar breytingar skili auknum tekjum í ríkissjóð frá og með árinu 2025.“

Þetta verður gert á grundvelli verkefnisins „Auðlindin okkar“ sem er á forræði Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Tillögur vegna þeirrar vinnu eiga að liggja fyrir í ár. 

Reiknað með að selja Íslandsbanka fyrir lok næsta árs

Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að ríkið selji eftirstandandi eignarhlut sinn í Íslandsbanka á árunum 2023 og 2024. Þar kemur fram að áætlað söluandvirði hlutarins, sem er 42,5 prósent, geti skilað um 100 milljörðum króna í ríkissjóð. Það er nákvæmlega markaðsvirði hlutarins í dag og því er ekki reiknað með afslætti á virði hans frá gildandi gengi. Í fjárlögum þessa árs var reiknað með að salan gæti skilað 76 milljörðum króna og því hefur ríkið uppfært mögulegt söluandvirði um 25 milljarða króna.

Hætt var við frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka að sinni í fyrra eftir að síðasta söluferli, þar sem 22,5 prósent hlutur var seldur í lokuðu útboði til 207 fjárfesta, á meðan að Rík­­is­end­­ur­­skoðun og fjár­­­mála­eft­ir­lit Seðla­­banka Íslands rann­­sök­uðu hluta síð­­asta skrefs sem stigið var í sölu­­ferl­inu. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu sinni í nóvember og komst að þeirri niðurstöðu að fjölþættir annmarkar hefðu verið á söluferlinu. Fjármálaeftirlitið hefur enn ekki skilað sinni niðurstöðu en greint var frá snemma í janúar að Íslandsbanki hafi óskað eftir einhliða viðræðum við eftirlitið um að ljúka málinu með sátt. Bankinn gjaldfærði ákveðna upphæð vegna yfirvofandi stjórnvaldssektar í ársuppgjöri sínu vegna 2022 en hefur ekki viljað segja hversu há sú upphæð er. 

Þá segir í áætluninni að frekari sala eigna „gæti verið vænlegur kostur á síðari hluta fjármálaáætlunar og þar með yrði hægt að draga úr skuldaaukningu og fjármagnskostnaði fyrr en ella.“ Ekki er tilgreint hvað komi til greina að selja umfram hlutinn í Íslandsbanka.

Spara tíu milljarða með aðhaldi

Ríkisstjórnin boðar einnig aukið aðhald. Það velst meðal annars í svokölluðu veltutengdu aðhaldi og viðbótaraðhaldi á aðalskrifstofu stjórnarráðsins, sem á að skila útgjaldalækkun upp á 2,5 milljarða króna á ári. 

Aðallega felur þetta í sér að almennt aðhaldsviðmið verður hækkað úr einu í tvö prósent, með tilteknum undantekningum. Þannig verður aðhaldskrafa á skóla til að mynda lægri, eða 0,5 prósent. Lögregla er svo undanskilin aðhaldskröfu út árið 2025 og fangelsi landsins, sem þegar eru yfirfull og að glíma við langa afplánunarlista, eru undanskilin út árið 2028. Þessu til viðbótar bætist viðbótar eins prósentustigs aðhaldskrafa á aðalskrifstofur ráðuneyta, en kostnaður vegna ráðuneyta hefur vaxið gríðarlega í tíð sitjandi ríkisstjórnar, aðallega vegna þess að þeim var fjölgað í tólf. Í janúar í fyrra var áætlað að kostnaður við það myndi nema um 1,8 milljarði króna á yfirstandandi kjörtímabili. Inni í þeirri tölu er kostnaður vegna fjölgunar aðstoðarmanna, en ráðherrar og ríkisstjórn mega nú hafa allt að 27 aðstoðarmenn.

Þá á að fresta byggingu Samhæfingarmiðstöðvar viðbragðsaðila og nýrrar viðbyggingar Stjórnarráðshússins sem á að skila um 2,9 milljörðum króna í afkomubata. Til viðbótar er liður sem kallast „óútfærðar ráðstafanir“ sem á að skila 4,5 milljarða króna aðhaldi. 

FrestunViðbyggingunni sem á að rísa við stjórnarráðið hefur verið frestað.

Samtals eiga þessar aðgerðir því að lækka gjöld ríkissjóðs um næstum tíu milljarða króna. Þegar þau eru lögð saman við þau viðbótargjöld sem ríkissjóður reiknar með að innheimta á næsta ári, sem fela ekki í sér aukna skattlagningu á fyrirtæki né hærri veiðigjöld, þá eru áætluð áhrif aukinnar skattheimtu og niðurskurðar á frumjöfnuð um 33 milljarðar króna. 

Hægja á styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja

Einn þeirra útgjaldaliða ríkissjóðs sem hefur vaxið hvað hraðast á undanförnum árum eru endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar. Kostnaður vegna þessara styrkja hefur farið úr 1,3 milljarði króna í 13,8 milljarða króna á átta árum. Áætlað er að styrkirnir hækki um 1,9 milljarða króna árið 2024.

Skatt­ur­inn hefur, í umsögnum til Alþingis, lýst yfir áhyggjum af því að fyr­ir­tæki séu að svindla á styrkja­kerf­inu til að fá hærri styrki, en ekk­ert hefur verið gert til að mæta þeim áhyggjum hans. Í fjármálaáætluninni segir þó að nú standi til að hægja „á útgjaldavexti styrkja til nýsköpunarfyrirtækja frá og með árinu 2025.“

Einungis 6-7 prósent af þeim stuðningi sem hefur verið veittur hefur gengið upp í tekjuskatt og því er mikill meirihluti hans í formi beins stuðnings úr ríkissjóði. OECD var fengið til að meta áhrif hinna stórauknu stuðningsaðgerða á undanförnum árum og hvort hann hafi skilað þeim markmiðum sem lagt var upp með. „Niðurstöðurnar benda til þess að stuðningurinn hafi verulega eflt nýsköpunarstarfsemi, sér í lagi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en minna er hægt að fullyrða á þessu stigi um áhrif hans á framleiðni og framleiðslugetu. Kallar það á frekari gagnasöfnun og rannsóknir yfir lengra tímabil og verður þar m.a. lögð áhersla á að afla gagna sem dregið geta fram áhrif stuðningsins á jafnrétti kynjanna. Lokaniðurstöður úttektar OECD munu liggja fyrir síðar á yfirstandandi ári.“

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Hlynur Jörundsson skrifaði
    Frekar einfalt.. binda ákveðna upphæð fyrir rekstur stjórnarráða og slíkra stofnana og skera niður þar til frambúðar... því þar er versti yfirbyggingarkostnaðurinn og reglufíknagerðin sem hefur svo sannarlega ekki bætt þjóðarhag né þjónustu. Og taka heimildir ráðuneytanna til bruðlsins úr höndum ráðherra og toppa og setja það allt í hendur Alþingis. Ísland er hrikalega illa rekið.

    Hagsmunapotið, vinarvæðingin og fúskið er með ólíkindum. Framkvæmdarvaldið er þjóðinni dýrust og sést best á því að spilling, skattsvik og hagsmunagæsla hefur stóraukist frá því fyrir hrunið.. og var þó nóg fyrir. Meðan öngvar eru afleiðingar af lögbrotum og mikilmennskubrjálæði stjórnandi aðila verður engin breyting... og gildir einu hvort vinstri eða hægri sitja í stjórn... eða hafa menn gleymt skjaldborginni um kröfuhafa og auðmenn og auðfyrirtæki.. sem var framkvæmd þó svo menn vissu alveg hvernig landið lá. Já bankarnir voru sekir um græðgi og fyrirhyggjuleysi.. en það var ekki ástæðan fyrir að allt klabbið hrundi... ekki heldur Lemans eða erlendir bankar... það var hentug eftiráskýring. Enda voru rannsóknir og greiningar vegna þeirra mála í höndum fræðilegra sjálfskipaðra snillinga... ekki fagmanna... og Eva Jouly var mistök... léleg og hentistefnulegur pólitíkus sem hafði slakan feril sem rannsóknardómari. En spilltir ráðamenn og besservisserar höfðu jú meiri áhuga á ímyndinni en afköstunum. Þið gátuð ekki einu sinni fundið eigendur Dekhill... sem lá þó á glámbekk ... hvað þá rakið peningarþvættið og undirskotin !

    Samherji mun labba burt líkt og forverar hans... með þjóðareigur og hagnaðinni... enn eina ferðina refsilaust þó svo allt liggi ljóst fyrir. Löggan og heilsugæslan verður látin skera niður nema í gæluverkefnum eins og eftirlitslausum persónunjósnum og vopnavæðingu á meðan rétt tengdir vopnasalar selja breytt skotvopn afleiðingalaust.

    Húsnæði mun hækka og afborganir munu hækka af völdum kúluspámanna hagfræðinga og annarra pótintáta sem neita að sannreyna fræðin sín... enda hætt við að þeir yrðu tjargaðir og fiðraðir ef slíkt kæmi í ljós.
    0
  • Sigurður Grétarsson skrifaði
    Það er rangt að sú 60% endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á verkstað í byggingaframkvæmdum hafi eitthvað með átakið "allir vinna" að gera. Þessi 60% endurgreiðsla hefur verið til staðar í áratugi en var tímabundið hækkuð upp í 100% í átakinu "allir vinna" en því lauk síðasta haust. Hér er því um að ræða lækkun á endurgreiðslu sem hefur verið við lýði áratugum saman og hefur ekkert með átakið allir vinna að gera.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár