Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Fjármálaráð gagnrýnir stjórnvöld fyrir að sleppa ekki bensíngjöfinni í ríkisútgjöldum

Rík­ið ætti að nota sterka stöðu til að minnka skuld­ir og kom­ast und­ir tölu­sett við­mið fjár­mála­reglna strax ár­ið 2026, að mati fjár­mála­ráðs. Fimm ára fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ger­ir ekki ráð fyr­ir því að þeim við­mið­um verði náð fyrr en 2028.

„Þó bensíngjöfin sé ekki stigin í botn eins og áður hefur bensíngjöfinni þó ekki verið sleppt, enda þótt aðhald hafi aukist sé miðað við tímabil heimsfaraldursins.“ Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum álitsgerðar fjármálaráðs um nýframlagða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024 til 2028, sem er dagsett í gær og Heimildin hefur undir höndum.

Ráðið telur að opinber fjármál séu sjálfbær og að tölusett viðmið fjármálareglna geti tekið gildi árið 2026 miðað við fyrirliggjandi áætlanir og forsendur. Áætlunin gerir þó ekki ráð fyrir því, heldur að þau taki gildi 2028. „Í ljósi efnahagsþróunarinnar og þá sérstaklega hvað varðar meiri tekjur ríkis og sveitarfélaga en gert var ráð fyrir í fyrri áætlunum, telur ráðið að stjórnvöld eigi að íhuga hvort skilyrði séu til að flýta gildistöku tölusettra fjármálareglna varðandi skuldir, skuldalækkun og heildarafkomu.“

Hraðari aðlögun að jafnvægi í opinberum fjármálum og lækkun skulda sé líkleg til að hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat og geti leitt til betri vaxtakjara. „Þá styður aðhald í opinberum fjármálum við aðhald peningastefnunnar og dregur úr þörf á að beita vöxtum í eins miklum mæli til að slá á innlenda eftirspurn.“

Fjár­­­mála­ráð er ráð óháðra sér­­fræð­inga skipað af Bjarna Benediktssyni, fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra. Í því sitja Gunnar Har­alds­­son for­­mað­­ur, Arna Olafsson og Þórunn Helgadóttir. 

Nýta eigi sterka stöðu til að minnka skuldir

Fimm ára fjármálaáætlunin var kynnt í lok síðasta mánaðar. Samkvæmt henni er búist við því að ríkissjóður verði rekinn í halla á hverju ári til ársins 2028. Alls er hallinn frá byrjun árs 2023 og út árið 2027 áætlaður 161,2 milljarður króna. Skuldir ríkissjóðs halda því áfram að aukast á þessu tímabili.

Samkvæmt skuldareglu mega heild­ar­skuldir rík­is­sjóðs, að frá­töldum líf­eyr­is­skuld­bind­ingum og við­skipta­skuldum og að frá­dregnum sjóðum og bankainn­stæð­um, ekki fara yfir 30 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var sú skuldaregla, sem sett er fram í lögum um opinber fjármál, tekin úr sambandi og skuldir ríkissjóðs hafa verið yfir því marki síðan 2019. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að skuldirnar nái því fyrst að verða 30 prósent af landsframleiðslu árið 2028, en þær eru áætlaðar 31 prósent í ár og næstu fjögur ár.

Vert er þó að taka fram að skuldir vegna ÍL-sjóðs, sem eru áætlaðar 200 milljarðar króna á núvirði og 450 milljarðar króna þegar reiknað er með verðlagsbreytingum næstu rúma tvo áratugina, eru ekki taldar með þegar skuldahlutfallið er reiknað út. Ef svo væri myndi það versna umtalsvert. 

Í niðurstöðum sínum segir fjármálaráð að staða opinberra fjármála sé sterk og skuldir hóflegar í alþjóðlegum samanburði. „Ráðið telur að nýta eigi styrka stöðu efnahagsmála til að minnka skuldir, en að óhætt sé að reka hið opinbera með halla þegar tekist er á við tímabundinn efnahagssamdrátt. Við ástand þenslu í efnahagsmálum er erfitt að rökstyðja að hið opinbera sé rekið með halla þar sem slíkt ýtir undir þenslu, hefur neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og dregur úr svigrúmi til að mæta áföllum í framtíðinni.“

Gagnrýna að tekjuauki sé ekki notaður til að bæta afkomu

Þegar fjárlög fyrir árið 2023 voru samþykkt í desember í fyrra var gert ráð fyrir að hallinn á ríkisrekstrinum í ár yrði 120 milljarðar króna. inni í þeirri tölu er sala á hlut í Íslandsbanka fyrir alls 76 milljarða króna, sem þarf að fjármagna með öðrum hætti ef hún gengur ekki eftir. 

Þegar fjármálaáætlunin var kynnt í lok mars lá fyrir að tekjur ríkissjóðs í ár hafi aukist umtalsvert frá því sem áður var áætlað. Nú er hallinn áætlaður 54,5 milljarðar króna, að því gefnu að það takist að selja Íslandsbanka. 

Fjármálaráð gagnrýnir að tekjuaukinn hafi ekki verið notaður til að bæta afkomu hins opinbera enn frekar á árinu 2023, í stað þess að ríkisstjórnin hafi sætt færis og ráðstafað honum í aukin útgjöld. „Með því móti hefði betur verið stutt við peningamálastjórnina og dregið úr vexti þjóðarútgjalda og viðskiptahalla. Þörfin á stuðningi við peningamálastjórnina er mikilvæg á meðan þjóðhagslegur kostnaður við að fresta og draga úr ýmsum ríkisútgjöldum er lítill í samanburði við þann kostnað sem hlýst af ónógum stuðningi. Hallinn á ríkissjóði samkvæmt fjárlögum 2023 jókst um 37 milljarða frá forsendum samþykktrar fjármálaáætlunar. Endurskoðun á þjóðhagsforsendum og spár um áframhaldandi neyslu valda því að tekjur verða nokkru hærri en áætlað er í gildandi fjárlögum. Að mati fjármálaráðs þarf að koma í veg fyrir að gjöld umfram þau sem leiða af breyttum verðlagsforsendum aukist við afgreiðslu fjáraukalaga. Um er að ræða sveiflukenndar tekjur og tekjur geta lækkað jafn hratt verði bakslag í hagvexti.“

Vilja skoða að setja útgjaldareglu

Fjármálaráð telur að skoða eigi gaumgæfilega kosti og galla þess að taka upp útgjaldareglu til að auka festu í opinberum fjármálum. Það telur auk þess að bæta mætti gagnsæi með upplýsingum um áhrif breytinga á fjárlagafrumvarpi og með fjáraukalögum á samþykkta fjármálaáætlun. „Við núverandi aðstæður er fjármálaáætlun aðeins uppfærð einu sinni á ári og þá einkum litið fram á við, en minna fjallað um hvaða frávik hafa orðið frá samþykktri áætlun og hvað skýrir þau. Það má því segja að núverandi fyrirkomulag geri rýni fjármálaráðs erfitt fyrir þar sem gagnsæi um samfellu milli áætlana er ábótavant.“

Ekki sé að sjá að til séu úrræði til að framfylgja fjármálastefnu og fjármálaáætlun gagnvart sveitarfélögum, eða að áætlunum sé fylgt eftir gagnvart þeim innan ársins. Sveitarfélögin njóti fjárhagslegs sjálfstæðis samkvæmt lögum um sveitarfélög og sveitarfélögin séu mörg og mjög mismunandi að stærð. 

Skoða mætti hvort raunhæft sé að sveitarfélögin beiti fjármálastjórn sinni til að styðja við efnahagsstjórn og vinna gegn hagsveiflum. „Til þess að svo verði þarf annað hvort að breyta lögum og styrkja framfylgd fjármálastefnu og áætlana gagnvart þeim eða gera breytingar á tilfærslum úr ríkissjóði til sveitarfélaga með það að markmiði að þær vinni gegn hagsveiflunni. Tekjur sveitarfélaga skulu alla jafna standa undir rekstri þeirra en er ekki ætlað sérstakt hlutverk í hagstjórn.“

Fjármálaráð telur að sjálfbærni opinberra fjármála til lengri tíma verði einungis tryggð með aukinni verðmætasköpun í hagkerfinu. Minni vöxtur framleiðni vinnuafls síðustu árin sé því áhyggjuefni og ráðið telur að stjórnvöld ættu að skoða orsakir þessarar þróunar og hvort og hvernig hægt er að bregðast við. 

Ráðið beinir því einnig til stjórnvalda að eftirlit með framkvæmd fjárlaga verði hert og leggur áherslu á að ígrunda þurfi vel samspil stjórnar opinberra fjármála og stjórn peningamála þannig að þau stuðli að jafnvægi í efnahagsmálum og þar af leiðandi að stöðugu verðlagi.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár