Eignarhaldsfélag Þorsteins Más Baldvinssonar og fyrrverandi eiginkonu hans, Helgu S. Guðmundsdóttir, er í dag lítið annað en skel utan um 30 milljarða króna lán til félags barna þeirra. Fyrirtæki Þorsteins Más og Helgu, Eignarhaldsfélagið Steinn ehf., átti áður tæplega helmingshlut í Samherja, sem félagið seldi til barna þeirra með seljendaláni árið 2020. Félag barnanna, Baldvins og Kötlu, á í dag þennan eignarhlut í Samherja og skuldar Eignarhaldsfélaginu Steini ehf. 30 milljarða króna vegna kaupanna. Þetta kemur fram í ársreikningi Steins fyrir árið 2021.
Á því sama ári seldi eignarhaldsfélagið Steinn 43,5 prósenta hlut sinn í eignarhaldsfélaginu Samherja Holding, sem hélt utan um eignarhluti í erlendum útgerðum Samherja og ráðandi hlut í Eimskipum. Kaupandinn var annað félag Þorsteins og Helgu, 600 eignarhaldsfélag ehf.
Eftir þessi viðskipti gerðist það svo í lok síðasta árs að hollenskt félag í eigu Baldvins Þorsteinssonar, Alda Seafood Holding BV, eignaðist erlendan útgerðarrekstur Samherja sem verið hafði í eigu Samherja Holding.
Með þessum hætti hefur félag Þorsteins Más og Helgu unnið að því á síðustu árum að koma fyrirtækjaeignum sínum sem tengjast Samherja frá Eignarhaldsfélaginu Steini og yfir til barna sinn.
Félag Þorsteins og Helgu komið alveg út úr Samherja
Eftir þessa tvö viðskiptagerninga á Eignarhaldsfélagið Steinn ekki neinar fyrirtækjaeignir sem verið hafa hluti af Samherjasamstæðunni í gegnum árin.
Árið 2018 var Samherjasamstæðunni skipt upp í tvö félög, Samherja hf. og Samherja Holding. Fyrrnefnda félagið hélt utan um eignarhaldið á innlendri útgerð og rekstri Samherja, meðal annars kvótanum sem félagið hefur yfir að ráða, sem og reksturinn í Færeyjum á meðan Samherji Holding hélt utan um erlendra reksturinn og hlutabréf í Eimskipum.
Eftir að Namibíumálið kom upp 2019 ákváðu stærstu eigendur Samherja hins vegar að færa eignarhaldið á innlendri útgerð Samherja til barnanna sinna í viðskiptum sem vöktu mikla athygli. Þetta gerðist á fyrra hluta árs 2020. Með þeim viðskiptum eignuðust börn tveggja stofnenda Samherja, Þorsteins Más og Kristjáns Vilhelmssonar, óbeinan umráðarétt yfir kvóta og eignum sem talin voru um 92 milljarða króna virði á þeim tíma.
Eftir stóð hins vegar hluturinn í Samherja Holding sem Eignarhaldsfélagið Steinn átti. Þessi hlutur var svo færður inn í 600 eignarhaldsfélag ehf.
Í ársreikningi þessa félags fyrir 2021 kemur fram að það hafi hagnast um ríflega 1750 milljónir króna það ár. Í árslok 2021 var 43,5 prósenta eignarhlutur félagsins í Samherja Holding bókfærður á ríflega 27 milljarða króna. Hollenskt félag Baldvins Þorsteinssonar eignast svo erlendan útgerðarrekstur Samherja Holding í árslok í fyrra þannig að eignir félagsins eru ekki eins miklar nú. Eftir stendur hins vegar hlutur Samherja Holding í Eimskipafélagi Íslands sem 600 eignarhaldsfélag, Þorsteins og Helgu, á meðal annars.
Félag Þorsteins Más og Helgu á því hvorki lengur hluti í íslensku útgerðinni né í erlendu útgerðunum sem Samherji rekur. Þorsteinn Már er einungis óbeinn eigandi í útgerð Samherja á Íslandi, í gegnum 2% hlut í félagi barna sinna, Eignarhaldsfélaginu K&B ehf.
Eftir standa aðeins eignarhlutir í félögunum Traðarsteini ehf og Túnsteini ehf. Það fyrrnefnda fjárfesti meðal annars í kísilveri Thorsil á Reykjanesi sem og í virkjunarkosti á hálendinu. Síðarnefnda félagið á byggingarlóð á Seltjarnarnesi. Bæði eru með neikvætt eigið fé og hafa aldrei verið umsvifamikil.
Félag sem á og innheimtir lán
Eignarhaldsfélagið Steinn er þrátt fyrir í dag engu að síður félag sem á eignir upp á tæplega 233 milljónir evra, eða tæplega 34,3 milljarða króna. Af þessum eignum eru nærri 202 milljónir evra, tæplega 30 milljarðar króna, langtímakröfur á tengdan aðila. Þetta er lánið til félags Baldvins og Kötlu, K&B ehf, sem Eignarhaldsfélagið Steinn veitti við kaup hlutabréfanna í Samherja hf árið 2020.
Lánið lækkar nokkuð ár frá ári. Lækkunin á upphæð kröfunnar var meðal annars rúmlega 3 milljónir evra, um 450 milljónir króna, á milli áranna 2020 og 2020. Þá fór krafan úr rúmlega 205 milljónum evra og niður í tæplega 202 milljónir.
Eignarhaldsfélag Baldvins og Kötlu skuldar félagi foreldra sinna því alltaf minna og minna eftir því sem árin frá viðskiptunum líða. Skammtímahluti langtímakröfunnar á hendur K&B ehf. er svo færður til bókar sem eign hjá Eignarhaldsfélaginu Steini.
Athygli vekur að í ársreikningi K&B fyrir árið 2021 er útistandandi lán við tengdan aðila sagt hafa verið tæplega 202 milljónir evra í árslok 2021 en lánið stóð jafnframt í sömu upphæð í árslok 2020 samkvæmt þeim ársreikningi. Miðað við þetta lækkaði krafan ekki á milli ára. Samkvæmt ársreikningnum á félagið hins vegar að greiða rúmlega 8,4 milljónir evra af láninu á hverju ári og á krafan því að lækka um það sem þessu nemur.
Athugasemdir