Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni hófst í Landsrétti í morgun. Jón Baldvin er ákærður fyrir að hafa árið 2018 áreitt Carmen Jóhannsdóttur kynferðislega. Konur sem borið hafa að Jón Baldvin hafi áreitt þær mættu í dómsal til að sýna Carmen stuðning.
Jóni Baldvini er gefið að sök að hafa hinn 16. júní árið 2018 strokið rass Carmenar utan klæða þar sem hún var gestkomandi á heimili hans í Salobreña á Spáni ásamt móður sinni og fleira fólki. Stundin greindi frá því í byrjun árs 2019 frá framburði Carmenar auk fleiri kvenna sem báru að Jón Baldvin hefði áreitt sig kynferðislega.
Gefin var út ákæra í málinu í september 2020. Jón Baldvin var sýknaður í héraðsdómi í nóvember á síðasta ári og sagði í dómsorði að ósannað teldist að Jón Baldvin hefði áreitt Carmen.
Carmen var gestkomandi á heimili Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í júní 2018 ásamt móður sinni, Laufeyju Ósk Arnórsdóttur. Carmen lýsti því í viðtalinu í Stundinni að þegar hún hafi staðið upp við matarborð í húsinu og skenkt í glös á borðinu, „þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn. Og ekkert bara rétt aðeins, heldur upp og niður strjúka á mér rassinn.“
Boðuð frá Spáni með tíu daga fyrirvara
Jón Baldvin bar fyrstur vitni fyrir dómi í morgun en Carmen síðar. „Ég hélt mér bara við mína frásögn frá því í héraðsdómi,“ segir Carmen í samtali við Stundina.
„Ég tók það ekki fram í atvinnuumsókninni að ég stæði í dómsmáli gegn Jóni Baldvini“
Klára á aðalmeðferð málsins í dag og má því búast við að dómur verði kveðinn upp innan næstu fjögurra vikna. Carmen gagnrýnir hins vegar hvernig staðið var að boðun hennar fyrir dóminn. Ég fékk bara að vita það fyrir tíu dögum síðan að aðalmeðferð yrði í dag og ég yrði að mæta fyrir dóminn. Ég er búin að ýta á eftir því í þrjá mánuði að fá að upplýsingar um hvenær þetta yrði því ég bý auðvitað í öðru landi og lifi þar mínu lífi. Ég þurfti að útskýra þetta fyrir vinnuveitendum mínum, ég tók það ekki fram í atvinnuumsókninni að ég stæði í dómsmáli gegn Jóni Baldvini þegar ég sótti um vinnuna. Þau tóku því mjög vel, þau styðja mig heilshugar.“
„Þetta snýst ekki lengur bara um mig“
Spurð hvernig henni hafi liðið með að þurfa á ný að segja sögu sína fyrir dómstólum og sitja í dómsal með Jóni Baldvini segir Carmen: „Þetta er bara ömurlegt. En það sem heldur mér við efnið, heldur mér gangandi, er að þetta snýst ekki lengur bara um mig. Eftir allt sem hefur komið fram snýst þetta um réttlæti fyrir svo marga aðra. Ég viðurkenni að þetta er samt farið að taka á, þetta hefur tekið næstum því fimm ár af lífi mínu, hefur hangið yfir höfðinu á mér og ég óska engum þess.“
Konur sem hafa borið að Jón Baldvin hafi einnig áreitt þær voru mættar í dómsal í morgun til að sýna Carmen stuðning. Það voru þær Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins, Margrét Schram mágkona hans, Elíasbet Þorgeirsdóttir og Valgerður Þorsteinsdóttir. Þær þrjár fyrstnefndu hafa borið opinberlega að Jón Baldvin hafi brotið gegn þeim. Valgerður er dóttir Þóru Hreinsdóttur heitinnar en Stundin birti í október dagbækur Þóru þar sem hún lýsti kynferðislegum samskiptum við Jón Baldvin. Þóra var þá 15 ára nemandi Jóns Baldvins í Hagaskóla en hann 31 árs kennari hennar.
Carmen segir að það hafi verið mjög áhrifamikið að sjá konurnar sitja saman í dómssal í morgun. „Ég er þeim ótrúlega þakklát fyrir það. Það var líka magnað að hitta þessar konur í fyrsta skipti. Jón Baldvin hefur ásakað okkur um að blása til einhvers samsæris gegn sér en eins og ég segi, ég var að hitta þær núna í fyrsta skipti og við vorum að hlæja saman að þessum furðuásökunum.“
Athugasemdir (4)