Ríkisstofnunin Bankasýsla ríkisins seldi þeim bönkum og verðbréfafyrirtækjum sem sáu um útboðið á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka sjálfdæmi um hvernig þessir aðilar ættu að standa að sölu þessarar ríkiseignar. Þá er átt við að þessir umsjónaðilar útboðsins gátu sjálfir stýrt því og valið hvaða fjárfestar það voru, innan ákveðinna marka, sem keyptu bréfin á afslætti af íslenska ríkinu. Helstu mörkin voru þau að fjárfestarnir sem fengu að kaupa bréfin urðu að vera svokallaðir fagfjárfestar en ekki almennir fjárfestar.
„Menn geta haft skoðanir á þeim sem koma upp á listanum en við verðum að treysta þessum fjármálafyrirtækjum“
Útboðið á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka hefur vakið hörð viðbrögð. Ekki síst vegna þess að svo virðist sem þátttakendur í því hafi nánast verið handvaldir og að alls ekki allir sem tóku þátt í útboðinu séu réttnefndir fagfjárfestar.
Á að treysta verðbréfafyrirtækjum fyrir ríkiseignum?
Í raun þá setti Bankasýsla ríkisins sölumeðferð þessara hlutabréfa í hendurnar á þessum fyrirtækjum án eftirlits. Um þetta segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, í viðtali við Stundina: „Menn geta haft skoðanir á þeim sem koma upp á listanum en við verðum að treysta þessum fjármálafyrirtækjum.“
Komið hefur fram í fjölmiðlum að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsakar nú útboðið á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Sérstaklega er þáttur sölu- og umsjónaraðila útboðsins til skoðunar. Það sem meðal annars er í skoðun er hvort skilgreiningum þessara fyrirtækja á fjárfestunum sem tóku þátt í útboðinu hafi verið breytt í aðdraganda þess. Þá eru einnig til skoðunar mögulegar innherjaupplýsingar sem gætu hafa legið fyrir og eins hvort það geti talist eðlilegt að umsjónar- og söluaðilar útboðsins hafi sjálfir keypt hlutabréf í því. Bankinn mun, og kann nú þegar að hafa, biðja skipuleggjendur útboðsins um að afhenda gögn sem tengjast því.
Eitt af því sem væntanlega mun koma í ljós í skoðun fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands er hvort það sé sannarlega þannig að ríkisstofnanir megi og eigi að treysta einkareknum bönkum og verðbréfafyrirtækjum, nánast án eftirlits, fyrir ríkiseignum.
Bankasýsla ríkisins hefur gefið það út að stofnunin fagni rannsókn Seðlabanka Íslands.
Gátu hyglað sínum eigin kúnnum fram yfir aðra
Allir þessir bankar og verðbréfafyrirtæki sem komu að útboðinu og sölu hlutabréfanna: Landsbankinn, Íslandsbanki, Fossar Markaðir, Íslensk verðbréf og verðbréfafyrirtækið Acro-verðbréf reka eignastýringardeildir sem meðal annars þjónusta efnaða aðila. Þjónusta þessara fyrirtækja byggir á því að búa til þóknanir fyrir sig með meðal annars milligöngu um sölu hluta- og verðbréfa. Komið hefur fram að þóknanir til þessara umsjónaraðila vegna útboðsins hafi numið 700 milljónum króna.
Með því að geta stýrt því hverjir fengu að kaupa þessi hlutabréf með afslætti af íslenska ríkinu gátu þessi fyrirtæki hyglað og strokið viðskiptavinum sínum sem meðal annars greiða fyrirtækjunum fyrir að vera í eignastýringu hjá þeim. Þegar horft er til þess á hvers eðli viðskiptasamband eignastýringardeilda og viðskiptavina þeirra þá er það ekki lítill plús fyrir efnafólk að geta fengið afslátt af hlutabréfum í eigu ríkisins í gegnum þjónustu þess banka eða verðbréfafyrirtækis sem einstaklingarnir skipta við.
Þegar við bætist að umrædd fyrirtæki gátu mögulega einnig veitt þessum einstaklingum sem keyptu bréfin lán til að kaupa þau, og fengið þar með einnig vexti og þóknanir fyrir lánveitingarnar, vegna kaupa á hlutabréfum af ríkinu með afslætti sést enn betur hversu fjárhagslega arðbært það hefur getað verið fyrir þessi fyrirtæki að fá að vinna að þessu útboði.
Þar að auki var enginn eftirlitsaðili sem hafði beint eftirlit með því hvernig og til hvers þessir bankar og verðbréfafyrirtæki seldu hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka.
„Engin veruleg hindrun var í vegi hæfra fjárfesta að óska þátttöku í útboðinu“
„Engin veruleg hindrun“ í vegi fyrir þátttöku
Í skrifum Bankasýslu ríkisins um útboðið hefur komið fram að útboðið hafi verið opið öllum fagfjárfestum. Stofnunin hefur orðað það sem svo að „engin veruleg hindrun“ hafi staðið í veginum fyrir því að „óska eftir þátttöku“ í útboðinu: „Sagt er að „sumir fengu að kaupa, en aðrir ekki“. Réttara er að segja að sumir hæfir fjárfestar hafi keypt en aðrir ekki. Útboðinu var beint að öllum hæfum fjárfestum. Til hæfra fjárfesta teljast viðurkenndir gagnaðilar, svo sem lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög, og aðrir fagfjárfestar, sem fjármálafyrirtæki hafa metið sem slíka, á grundvelli lagaskilyrða um eignastöðu, viðskiptaumsvif, og reynslu og þekkingu á fjármálamarkaði. Engin veruleg hindrun var í vegi hæfra fjárfesta að óska þátttöku í útboðinu. Bankasýsla ríkisins leggur ekki mat á hvort fjárfestar uppfylli skilyrði þess að teljast fagfjárfestar. Slíkt mat liggur lögum samkvæmt hjá fjármálafyrirtækjum.“
Munurinn á því að þurfa, sem fjárfestir, að „óska eftir þátttöku“ í útboði og að fá hringingu frá banka eða verðbréfafyrirtæki þar sem viðskiptavininum eru boðin bréf til kaups með afslætti er hins vegar talsverður. Komið hefur fram að söluaðilar hlutabréfanna í útboðinu hafi haft samband og boðið þeim hlutabréf til kaups.
Íslandsbanki staðfestir samskipti við Seðlabankann
Stundin hafði samband við alla þessa fimm sölu- og umsjónaraðila útboðsins á hlut ríkisins í Íslandsbanka og spurðist fyrir um rannsókn fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á málinu og hvort einhverju hafi verið ábótavant í söluferlinu á hlutabréfunum í Íslandsbanka hjá þeim.
Í svari frá Íslandsbanka segir um rannsóknina að bankinn hafi farið að settum reglum í einu og öllu: „Íslandsbanki staðfestir að borist hafi erindi frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands er tengist sölu á hlutum í Íslandsbanka hf. Unnið er að svari í tengslum við erindið. Telur bankann sig hafa farið í einu og öllu að lögum við framkvæmd útboðsins.“
Í svari frá Fossum mörkuðum segir forstjórinn, Haraldur Þórðarson, að rannsókn Seðlabanka Íslands sé jákvæð. Haraldur segir jafnframt að enginn starfsmaður Fossa hafi tekið keypt hlutabréf í Íslandsbanka í útboðinu. „Framkvæmd útboðsins hjá Fossum var í fullu samræmi við þær reglur sem félaginu ber að starfa eftir sem og uppleggi og kröfum Bankasýslu Ríkisins. Það er því jákvætt ef eftirlitsaðilar hafa frumkvæði að því að kanna málið því til staðfestingar. Fossar hafa alla tíð lagt mikið upp úr því að takamarka mögulega hagsmunaárekstra í starfsemi sinni og endurspegla innri reglur félagsins það. Enn fremur er mikilvægt er að traust ríki um söluferli fyrirtækja í eigu hins opinbera. Ég get staðfest að hvorki Fossar né starfsmenn félagsins keyptu í umræddu söluferli enda heimila okkar innri reglur það ekki,“ segir Haraldur.
Hannes Árdal, framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Acro sem var einn af þeim aðilum sem seldi hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka, segir aðspurður um hvort einhverju hafi verið ábotavant í sölumeðferð hlutabréfanna hjá hans fyrirtæki að hann geti ekki tjáð sig opinberlega um einstök viðskipti.
Í svari Landsbankans segir að bankinn hafi fylgt öllum reglum í útboðinu, meðal annars hvað varðar hæfi fjárfesta. „Landsbankinn starfaði sem söluráðgjafi við umrætt útboð. Líkt og í öðrum útboðum fylgdi bankinn öllum reglum sem um það giltu, þ.m.t. um mat á hæfi fjárfesta.“
Stundinni bárust ekki svör við spurningum blaðsins frá Íslenskum verðbréfum.
Væri ekki snjallt að vekja áhuga erlendra fjölmiðla á nýjasta íslenska bankaráninu ?
Þar gæfist Bjarna gott tækifæri til þess að útskýra málið !!