„Moshensky er mjög náinn stuðnings- og bandamaður Lukashenko, að halda öðru fram er blátt áfram hlægilegt,“ segir Andrei Sannikov, spurður um þau orð íslenska utanríkisráðherrans, að það sé orðum aukið að segja íslenska kjörræðismanninn Aleksander Moshensky náinn bandamann Aleksander Lukeshenko, einræðisherra Hvíta-Rússlands.
Andrei Sannikov var aðstoðarutanríkisráðherra í ríkisstjórn Aleksander Lukashenko um tveggja ára skeið á tíunda áratugnum, en sagði af sér í mótmælaskyni árið 1996 og hefur síðan verið virkur í andstöðu við Lukashenko. Hann bauð sig fram til forseta árið 2010 og fékk næstflest atkvæði, samkvæmt opinberum tölum. Að kvöldi kjördags var Andrei laminn og handtekinn ásamt konu sinni. Hann var fluttur í alræmt fangelsi öryggislögreglunnar KGB og haldið þar með leynd í 16 mánuði.
Athugasemdir (1)