Miklar breytingar hafa átt sér stað í stjórn Úrvinnslusjóðs eftir að Stundin hóf ítarlega umfjöllun um málefni sjóðsins. Magnús Jóhannesson, nýskipaður stjórnarformaður sjóðsins, staðfestir í samtali við Stundina að tveir stjórnarmenn sjóðsins hafi sagt af sér.
Nýlega fjallaði Stundin um allt að 1500 tonn af íslensku plasti sem fannst í vöruhúsi í litlum smábæ í Suður-Svíþjóð. Plastið hefur legið þar í um 5 ár og var aldrei sent í endurvinnslu, en íslensku endurvinnslufyrirtækin Terra og Íslenska gámafélagið fengu greiddar um 100 milljónir króna fyrir koma plastinu í endurvinnslu. Sænska endurvinnslufyrirtækið Swerec sagðist hafa endurunnið allt plastið og sendi staðfestingar þess efnis á Úrvinnslusjóð og voru þær tölur svo notaðar til að sýna fram á endurvinnsluhlutfall íslensk plasts.
Þrír búnir að segja úr stjórn á stuttum tíma
Þau sem sögðu af sér eru Bryndís Gunnlaugsdóttir, stjórnarmaður fyrir hönd Samband íslenskra sveitarfélaga, og Hlíðar Þór Hreinsson, stjórnarmaður fyrir hönd Félags atvinnurekanda og framkvæmdastjóri Heimilistækja. Í nóvember á síðasta ári, rétt fyrir fréttaumfjöllun Stundarinnar um íslenska plastið í Svíþjóð, sagði Laufey Helga Guðmundsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs, af sér. Laufey neitaði ítrekuðum viðtalsbeiðnum Stundarinnar rétt fyrir afsögn. Þá neitaði hún einnig viðtalsbeiðni Stundarinnar eftir að hún sagði af sér. Í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni sagði hún að hún hafi hætt störfum sem stjórnarformaður vegna anna, en hún starfar einnig sem lögmaður á lagaskrifstofu Alþingis. Skrifstofan sér meðal annars um að vera ráðgefandi við lagasetningu um stofnanir Alþingis, fyrir umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðanda, en sú stofnun er einmitt að rannsaka sjálfan sjóðinn.
Ekki enn búið að skipa í öll sætin
Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í Garðabæ, tekur við sæti Bryndísar, en ekki hefur verið ákveðið hver tekur við sæti Hlíðars í stjórn Úrvinnslusjóðs. Í samtali við Stundina segir Magnús Jóhannesson að tilkynnt verði á allra næstu dögum hver muni taka sæti Hlíðars Þórs í stjórn sjóðsins, en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, sér um að skipa stjórnarmeðlimi sjóðsins eftir tilnefningar þeirra félaga sem eiga fulltrúa í sjóðnum. Áslaug Hulda er fyrrverandi starfsmaður íslenska endurvinnslufyrirtækisins Pure North Recycling í Hveragerði, en fyrirtækið er það eina á Íslandi sem endurvinnur plast. Þá átti Áslaug hlut í félaginu en hún seldi hann í október á síðasta ári.
Íslensk sendinefnd mætt til Svíþjóðar
Í morgun mættu íslenskir fulltrúar í vöruhúsið fræga í Påryd. Einn fulltrúi frá Úrvinnslusjóði, einn fulltrúi frá Terra og sá síðasti frá Íslenska Gámafélaginu. Þá mættu einnig tveir fulltrúar frá sænska endurvinnslufyrirtækinu Swerec.
Stoppuðu stutt
Stoppuðu þeir í um hálftíma á svæðinu en skoðuðu ekki allt húsnæðið, heldur eingöngu þar sem hægt var að komast að plastinu. Hlutverk þeirra er að meta hversu mikið af plastinu er íslenskt og hvort það hafi verið á einhverjum tímapunkti verið sett í gegnum endurvinnsluvélar Swerec. Þá voru þeir einnig að skoða hvernig væri hægt að koma bara íslenska plastinu út úr vöruhúsinu og skilja allt hitt plastið eftir.
Ómögulegt að ná bara íslenska plastinu
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var sjálfstæður ráðgjafi sendur af Swerec í vöruhúsið fyrir um tveim vikum. Var það niðurstaða hans að það væri nánast ómögulegt að taka bara íslenska plastið þar sem mikið af því væri nú þegar búið að blandast saman. Þá var það hans mat að ekkert af því plasti sem fannst í húsinu hefði á nokkrum tímapunkti farið í gegnum endurvinnsluvélar Swerec, en fyrirtækið fékk greiddar tugi milljóna frá íslenskum endurvinnslufyrirtækjum fyrir að endurvinna plastið.
Alþingi óskaði eftir rannsókn á Úrvinnslusjóði
Þann 31. maí síðastliðinn samþykkti Alþingi Íslands að Ríkisendurskoðun skyldi gera rannsókn á starfsemi Úrvinnslusjóðs. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram beiðnina fyrir Alþingi og var hún samþykkt með 57 atkvæðum. Rannsóknarbeiðnin er ítarleg og er meðal annars krafist svara um hvers vegna ríkisstofnun, sem árlega veltir milljörðum króna, hafi ekki skilað ársskýrslum í yfir fimm ár.
Í skýrslubeiðninni kemur fram að meðal annars eigi að fjalla um eftirfarandi: „Ársskýrslur sjóðsins síðustu fimm ár, hvar megi nálgast þær og hvers vegna þær hafi ekki verið gerðar opinberar, hvaða reglur gildi um greiðslur úr sjóðnum og hvaða annað mat fari fram við ákvörðun um hvert greiða skuli úr sjóðnum?“
Forsvarsmenn Úrvinnslusjóðs mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þann 21. maí. Tíu dögum seinna var farið fram á beiðnina um rannsókn á sjóðnum.
Þá er einnig krafist svara um hvort Úrvinnslusjóður hafi í raun og veru athugað hvort úrgangur, sem sjóðurinn greiddi íslenskum endurvinnslufyrirtækjum fyrir að endurvinna, hafi í raun og veru verið endurunninn: „... Hvort Úrvinnslusjóður gangi úr skugga um það hjá viðtakendum greiðslna hvert efnin fari sem greiddur er kostnaður fyrir og hvort við taki vottuð endurvinnsluferli, raunveruleg endurvinnsla eða önnur viðurkennd ferli áður en greitt er úr sjóðnum. Hvort Úrvinnslusjóður fylgi því eftir með öðrum hætti að allar greiðslur úr sjóðnum hafi verið í samræmi við ráðstöfun og þau lögmætu markmið sem að er stefnt, með það að markmiði að koma í veg fyrir ofgreiðslur úr sjóðnum.“
Segjast fagna rannsókn Ríkisendurskoðunar
Á heimasíðu Úrvinnslusjóðs birtist frétt, 18. júní síðastliðinn, þess efnis að stjórn sjóðsins fagni rannsókn Ríkisendurskoðunar. Þá kemur þar einnig fram að rannsóknin sé kjörið tækifæri um hvort megi gera betur heldur en það kerfi sem sett upp hefur verið af sjóðnum.
„Að gefnu tilefni skal tekið fram að stjórn Úrvinnslusjóðs fagnar fyrirhugaðri úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi sjóðsins og lýsir sig reiðubúna að vinna með stofnuninni að verkefninu. Að mati stjórnarinnar gefst þar kjörið tækifæri til að koma sjónarmiðum um bætta úrvinnslu úrgangs á framfæri og fá úttekt óháðs aðila á því hvað megi gera betur til þess að bæta núgildandi kerfi. Komi fram athugasemdir af hálfu ríkisendurskoðenda mun sjóðurinn að sjálfsögðu leggja sig fram um að vinna að úrbótum,“ segir í frétt á heimasíðu Úrvinnslusjóðs.
Segja að brestir séu í starfsemi Úrvinnslusjóðs
Í lokin á skýrslubeiðninni taka flutningsmenn hennar fram að þeir voni að skýrsla ríkisendurskoðanda muni varpa ljósi á hvað það er sem valdi þeim brestum sem virðast vera á starfsemi Úrvinnslusjóðs. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er mikill titringur innan stjórnar sjóðsins vegna rannsóknar ríkisendurskoðanda á starfsemi sjóðsins.
„Flutningsmenn telja að nauðsynlegt sé að fela ríkisendurskoðanda, sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með og stuðla að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár, að taka saman skýrslu um málið með hliðsjón af 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Flutningsmenn binda vonir við að skýrsla ríkisendurskoðanda muni varpa ljósi á hvað veldur þeim brestum sem virðast vera á starfsemi Úrvinnslusjóðs og hvað megi gera til þess að bæta núgildandi kerfi svo opinberum fjármunum sjóðsins sé varið í þá umhverfisvænu ferla og endurvinnslu sem að er stefnt.“
Tölur sjóðsins ekki réttar
Stundin greindi frá því á síðasta ári að tölur sem Úrvinnslusjóður hafi skilað af sér ættu enga stoð í raunveruleikanum. Samkvæmt tölum sjóðsins var um 50% af öllu plasti sem safnað var á Íslandi endurunnið. Í raun var hlutfallið í kringum 19%, samkvæmt rannsókn norska skilakerfisins Gröne punkt. Upp komst að sænska plastendurvinnslufyrirtæki Swerec hefði til langs tíma logið til um endurvinnslutölur. Meðal fyrirtækja sem sendu plast til Swerec eru Sorpa, Terra og Íslenska gámafélagið. Þurfti fyrirtækið að greiða skaðabætur bæði í Noregi og Svíþjóð vegna svindlsins, en engar skaðabætur voru greiddar til Íslands þar sem Úrvinnslusjóður sóttist ekki eftir því, þrátt fyrir að hafa vitað af svindlinu.
Blaðamaður Stundarinnar spurði Ólaf Kjartansson, framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, hvort tölur hefðu verið lagaðar hjá Úrvinnslusjóði eftir að upp komst um svindlið hjá Swerec. „Swerec-svindlið þarna, ég veit ekki alveg nákvæmlega hvernig það var, þannig ég ætla svo sem ekki alveg að úttala mig um það,“ svaraði hann.
„Því vissi ég af, að þeir voru að fabúlera einhverjar tölur þarna.“
Aðspurður hvort Úrvinnslusjóður hefði vitað um svindlið játar Ólafur því. „Því vissi ég af, að þeir voru að fabúlera einhverjar tölur þarna.“ Hann segir að ekki hafi verið brugðist við og tölfræðin ekki leiðrétt. „Nei, það gerðum við ekki,“ segir Ólafur. „Á þessum tíma reikna ég með að við höfum verið að horfa á að um 50% hafi verið að fara í endurvinnslu.“ Eins og kom fram hér að ofan var sú tala mun lægri og samkvæmt rannsókn norska skilakerfisins kom í ljós að eingöngu um 19% af öllu plasti sem sent var til Swerec var í raun endurunnið, afgangurinn var brenndur eða sendur til annarra landa.
Endurvinnslutölurnar eru ekki raunverulegar
Öllum sorpfyrirtækjum á Íslandi, sem sjá um að þjónusta sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklinga, ber að skila tölum um úrgang til Úrvinnslusjóðs. Ekki er bara um tilkynningarskyldu að ræða, heldur skipta þessar tölur máli þegar kemur að því að fá greitt úr Úrvinnslusjóði. Samkvæmt verðskrá Úrvinnslusjóðs fær fyrirtæki, sem endurvinnur plast, 65 krónur á hvert kíló af plasti sem er endurunnið. Ákveði hins vegar fyrirtæki að senda plastið í brennslu, til orkuvinnslu, fær fyrirtækið 35 krónur. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar kemur fram að árið 2019 hafi 56% af öllu plasti sem var safnað verið sent til endurvinnslu.
En því miður er það ekki reyndin og árangurinn mun minni. Umhverfisstofnun byggir tölfræði sína á tölum frá fyrrnefndum Úrvinnslusjóði. Í samtali við Stundina segir Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, að hans eigin tölur stemmi ekki og einhver villa hljóti að vera þarna. Svo virðist vera að tölur allt til ársins 2011 séu að gefa ranga mynd af því hversu vel við Íslendingar erum að standa okkur í endurvinnslu á plasti.
„Þær eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum“
Í ljós hefur komið að villan var einföld. Samkvæmt skilgreiningu Úrvinnslusjóðs er búið að endurvinna plast um leið og það er sent úr landi til úrvinnsluaðila erlendis. Skiptir þar engu máli hversu mikið af plasti útlendi úrvinnsluaðilinn nær að endurvinna. Til dæmis ef íslenskt fyrirtæki sendir 100 tonn af plasti til erlends úrvinnsluaðila teljast öll 100 tonnin af plasti vera endurunnin, þrátt fyrir að öll 100 tonnin séu svo á endanum send í brennslu eða jafnvel til þriðja heims ríkja. Ólafur segir að Úrvinnslusjóður sé að vinna í því að laga þetta og krefja íslensk fyrirtæki, sem senda plast út úr landi, um að fá að vita nákvæmlega hversu mikið er endurunnið og hversu mikið sé brennt til orkuvinnslu.
Samkvæmt verðskrám Úrvinnslusjóðs fengu íslensk fyrirtæki 65 krónur á hvert kíló af plasti sem er endurunnið en eingöngu 35 krónur fyrir hvert kíló af plasti sem sent er í orkuvinnslu. Vegna þessa fá íslensk fyrirtæki, meðal annars Sorpa, Terra og Íslenska gámafélagið, alltaf greitt fyrir að senda plastið í endurvinnslu þrátt fyrir að langstærstur hluti plastsins rati aldrei í endurvinnslu.
Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að þessar endurvinnslutölur séu ekki raunverulegar. „Þær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Birgitta hreint út.
Í samtali við Stundina staðfestir Umhverfisstofnun að engin tilkynning hafi borist frá Úrvinnslusjóði vegna svindlsins, en þeir bera ábyrgð á að skila inn réttum tölum til Umhverfisstofnunar.
Kerfið hvetur til útflutnings á plasti
Í greinargerð sem fylgdi beiðninni kemur fram að kerfi, sem Úrvinnslusjóður hefur sett upp hvetji ekki til endurvinnslu á plasti hér á landi, heldur sé það sett upp til að hvetja til útflutnings á plasti. Um 99% af plasti, sem Íslendingar flokka samviskusamlega, er fluttur úr landi.
„Mikilvægi endurvinnslu er mikið rætt í nútímasamfélagi og umhverfismál verða sífellt fyrirferðarmeiri í umræðunni. Síðustu misseri hefur verið talsvert fjallað um endurvinnslu á íslensku sorpi, ekki síst plasti. Stór hluti þess plasts sem fellur til hér á landi er sendur úr landi til endurvinnslu, sem sætir furðu margra. Bent hefur verið á að núgildandi lagaumhverfi og kerfi sem þessum málum eru búin hér á landi hvetji ekki til endurvinnslu innan lands heldur til þess að plast sé flutt til útlanda með tilheyrandi kolefnisspori.“
Takk fyrir að vera varðhundur og fjalla um málið! Nauðsynlegt að axla ábyrgð og sinna vel þessu mikilvæga hlutverki að endurvinna efnivið