Heimur á heljarþröm, offjölgun, hungur, hækkandi hiti, skelfileg mengun, vatnsleysi, rafmagnsleysi, húsnæðisleysi, skelfilegt misrétti, allt stefnir til andskotans árið 2022.
Eiginlega það eina sem vantar er plága.
Svona er komið fyrir Jörðinni árið 2022 í kvikmyndinni Soylent Green, sem leikstjórinn Robert Fleischer gerði í Hollywood árið 1973.
Myndin var hluti af svolítilli bylgju Hollywood-mynda sem gerðar voru um þær mundir og sýndu skelfileg áhrif umhverfisslysa og mengun og ógætilegrar meðferðar mannsins á náttúru og umhverfis.
Nefna má myndina Silent Running sem frumsýnd var ári á undan Soylent Green. Þar er allt plöntulíf á Jörðinni að dauða komin en geimför sveima um fjarlægar slóðir með stór gróðurhús þar sem má finna sýnishorn af hinu dauða plöntulífi Jarðar.
Í Soylent Green segir frá New York þar sem búa 40 milljónir manna og flestir við örbirgð og fátækt og vaxandi hungur og vatnsskort, en elíta borgarinnar nýtur lífsins og hefur nóg að bíta og brenna í krafti síns ofsaríkidæmis. Elíta býr í bílífi sínu í sérstökum íbúðum sem vopnaðir verðir gæta.
Íbúðunum fylgja öll þægandi, þar á meðal fagrar stúlkur sem kynlífsþrælar og ganga þær undir samheitinu „húsgögn“.
Oft kemur til óeirða og uppþota þegar hungraður lýðurinn heimtar mat en yfirvöldin hafa krók á móti bragði, sem eru stórir trukkar sem fara um og er mótmælendum beinlínis mokað upp í þá.
Charlton Heston leikur aðalhlutverkið í myndinni, lögreglumanninn Frank Thorn, sem fer að rannsaka dauða manns nokkurs sem var í stjórn fyrirtækisins Soylent Corporation. Það fyrirtæki framleiðir heldur ólystuga matvöru sem flestir aðrir en hinir ofsaríku verða að láta sér nægja árið 2022.
Það eru kássur búnar til úr ýmsu jurtaefni og nýkomin er á markað ný tegun sem kallast Soylent Green.
Thorn lögreglumaður nýtur aðstoðar gamals félaga, sem heitir Sol Roth (og leikinn var af Edward G. Robinson), og „húsgagn“ hins stjórnarmanns í Soylent Corporation gengur og til liðs við hann í öllum skilningi.
Að lokum komast Thorn og Roth að því að kássan Soylent Green er ekki úr þörungum, eins og látið hafði verið í veðri vaka, heldur úr mannakjöti. Þetta verður svo mikil áfall fyrir Roth að hann ákveður að svipta sig lífi og gerir það við hátíðlega athöfn hjá til þess gerðu fyrirtæki sem munu vera víða í New York 2022. Ekki þarf að orðlengja að lík þeirra sem þannig deyja eru seld Soylent Corporation og hökkuð í þá kássu sem alþýðan étur svo.
Thorn reynir að koma upp um fyrirtækið en myndinni lýkur án þess að ljóst sé hvort það takist. Niðurstaða áhorfenda er sú að heimurinn sé kominn of langt fram á heljarþrömina árið 2022 til að unnt sé að snúa við og alþýðan muni því halda áfram að éta sig sjálfa upp til agna meðan ríka fólkið býr við allsnægtir.
Athugasemdir