Suður-Afríkumenn syrgja nú andlegan leiðtoga sinn, erkibiskupinn Desmond Tutu, sem lést á dögunum, níræður að aldri. Hann var, ásamt Nelson Mandela, holdgervingur þeirrar nýju Suður-Afríku sem reis úr öskustó sögunnar eftir að kynþáttaaðskilnaður og rasismi höfðu kúgunarríki hvítra manna þar í þrot.
Margir Suður-Afríkumenn óttast að dauði Tutus verði til þess að auka viðsjár í landinu og er þó vart á vandræði landsins bætandi um þessar mundir. En hver er saga þessa ríkis?
Menn hafa lengi búið á því svæði þar sem ríkið Suður-Afríka er nú, og raunar er talið líklegt að þar hafi verið eitt mikilvægasta bólsvæði mannsins á þróunarbraut hans.
Og þar bjó til dæmis lengi önnur manntegund við hlið homo sapiens en sú hefur verið kölluð homo naledi. Hún dó þó út og það var sapiens sem gat af sér afkomendur.
Klikkhljóð frumbyggjanna
Þar kom svo sögu rétt fyrir Krists burð að í þessum syðsta hluta Afríku bjó tvenns konar fólk, sem rekja samkvæmt DNA-rannsóknum ættir sínar að töluverðu leyti aftur til hinna fyrstu sapiens sem þarna bjuggu í árdaga.
Þetta var annars vegar Khoekhoe-fólkið sem lifði ekki síst á að sinna um nautgripi og svo San-fólkið, sem voru veiðimenn og safnarar.
Þessar þjóðir voru skyldar og oft er talað um þær í sömu andránni sem Khoisan. Meðan Evrópumenn fóru með nýlenduvöld á svæðinu seinna meir Khoekhoe-menn kallaðir Hottentottar og San-fólkið Búskmenn, en þau heiti hafa nú verið lögð af enda talin niðrandi, þótt þau hafi ekki endilega verið það í byrjun.
Khoisan-fólkið er frægt fyrir „klikkmál“ sitt þar sem klikkhljóð gegna mikilvægu hlutverki, eins og sjá má og heyra á þessum hlekk hér.
Þjóðflutningar Bantú-manna
Á fyrstu öldum eftir Krist fór nýtt fólk að skjóta upp kollinum í syðsta hluta Afríku. Þar var um að ræða ættbálka af þjóð Bantú-manna en þeir voru upprunnir í frumskógum og hæðardrögum þar sem nú eru Kamerún og Mið-Afríkulýðveldið.
Útþensla þeirra bæði til Vestur-Afríku, Austur-Afríku og suður á bóginn stóð öldum saman og þegar yfir lauk höfðu þeir rutt Khoekhoe- og San-fólkinu út á jaðra þess landsvæðis sem við köllum nú syðsta hluta Afríku en sátu sjálfir á blómlegustu svæðunum.
Bantú-menn skiptust í nokkra meginhópa — Nguni-fólkið (en til þess telst Zulu-, Xhosi-, Swazi- og Ndebele-fólk) bjó aðallega austan til við en Sotho-Tswana-þjóðir bjuggu uppi á hásléttunni og fólk af kyni Tsonga, Venda og Lemba í norðausturhluta svæðisins. Þess má geta að móðir Desmonds Tutu var af Tswana-þjóðinni en faðir hans Xhosa. Nelson Mandela var aftur á móti Xhosa í báðar ættir.
Konungsríki rísa og hníga
Bantú-ættbálkarnir eða þjóðirnar mynduðu lengi vel ekki heildstæð ríki, ekki frekar en Khoisan-fólkið áður. Um það leyti sem þjóðveldið stóð á Íslandi fór þó að bera á því. Norðarlega í hinu núverandi ríki var til dæmis um þær mundir konungsríkið Mapungubwe og spottakorni norðar var borgin Simbabve, höfuðborg í samnefndu konungsríki.
Bæði þessi ríki gufuðu þó upp — Simbabve á 15. öld — og er flest á huldu um orsakir þess.
Laust fyrir árið 1500 lentu Portúgalir á Góðrarvonarhöfða, sem þeir nefndu svo, og notuðu svæðið þar umhverfis síðan sem áfangastað á siglingum sínum til kryddeyjanna í Suðaustur-Asíu. Umsvif Portúgala voru þó aldrei mikil og þeir tróðu heimamönnum lítt eða ekki. um tær, enda var byggð lítil þar um slóðir og á mestöllu vestanverðu svæðinu. Bantú-menn höfðu lítt eða ekki sest þar að svo það réðu Khoisan-þjóðirnar enn ríkjum.
Hollendingar stofna Höfðaborg
Árið 1652 varð breyting á þegar hollenska Austurindíafélagið (VOC) ákvað að koma sér upp varanlegri nýlendu á svæðinu við Góðrarvonarhöfða. Í hinni ensku Wikipedíu segir svo um framgang félagsins á svæðinu:
„VOC nam land við Höfðann til þess að sjá verslunarskipum sínum fyrir vistum. [Khoekhoe]-fólkið hætti að versla við Hollendinga og Höfðanýlendan og VOC urðu að flytja þangað hollenska bændur og koma upp býlum til að rækta nóg fyrir skip sem áttu leið hjá og fyrir hina vaxandi nýlendu.
Hinn litli hópur fríborgara, eins og þessir bændur voru upphaflega kallaðir, stækkaði stöðugt og fór að teygja sig inn í norður og austur inn á lendur [Khoekhoe]-fólksins. Þessir fríborgarar voru flestir fyrrverandi málaliðar á snærum VOC eða jarðyrkjumenn sem gátu eða vildu ekki snúa aftur til Hollands þegar samningar þeirra við VOC runnu út. VOC flutti líka inn um það bil 71.000 þræla frá Indlandi, Indónesíu, Austur-Afríku, Máritíus og Madagaskar."
Tregur til að hneppa frumbyggja í þrældóm
Flestir borgaranna voru Hollendingar og tilheyrðu mótmælendakirkjunni heima í Hollandi en hún þótti nokkuð ströng. Einnig var nokkuð um Þjóðverja, sem oft voru Lúterstrúarmenn og heldur frjálslyndari í trúmálum.
Árið 1688 bættust við franskir húgenottar, kalvínistar sem voru á flótta undan ofsóknum hins kaþólska Loðvís 14.
Jan van Riebeeckm sem stofnaði nýlendu Hollendinga við Höfðann, leit svo á að ekki væri sæmandi að hneppa Khoi- og San-frumbyggjana í þrældóm og þess vegna voru þrælar fluttir inn annars staðar frá, og voru í fyrstu flestir frá indónesísku eyjunum, sem svo heita nú. En þar kom þó að Hollendingar fóru að hagnýta sér vinnuafl frumbyggjanna. Sumir voru beinlínis hnepptir í þrældóm en aðrir gerðir að svokölluðum ánauðugum þjónum. Í raun var lítill munur á þessu tvennu.
„Litaðir“ tæp tíu prósent landsmanna
Heilmikil blöndun var milli kynþátta fyrstu áratugina og aldirnar. Sú blöndun var vissulega oftast á forsendum hinna hollensku húsbænda og fól áreiðanlega oft í sér það sem nú yrði kallað kynferðisofbeldi eða réttar og sléttar nauðganir en þó ekki alltaf. Að sumu leyti var rasismi ekki eins stækur í Suður-Afríku þá og síðar, þótt einkennilega kunni að hljóma um svæði þar sem þrælahald var alsiða.
Altént urðu fljótlega til stórir hópar sem röktu ættir sínar til fólks af ýmsum uppruna og þjóðerni og það mun nær ógerningur að finna nokkurn „hvítan“ Suður-Afríkumann nútildags sem ekki hefur svo og svo mikið „litað“ blóð í æðum — afrískt eða asískt. Og nú eru „litaðir“ („coloureds“ á ensku eða „Kleurlinge“ á afrikans) sérstakur þjóðernishópur („ethnic group“) í Suður-Afríku. Þau „lituðu“ eru 8,8 prósent landsmanna en „hvítir“ eru 7,9 prósent.
Þess má geta að Simon van der Stel sem varð fyrsti formlegi landstjóri VOC í hinni nýju Höfðaborgarnýlendu var sonur konu sem aftur var dóttir indverskrar þrælastúlku, sem öðlast hafði frelsi. Þetta ætterni hindraði á engan hátt frama Van der Stels innan VOC.
Bretar mæta á staðinn, en Zulu-menn vígvæðast!
Nú leið og beið. Alla 18. öldina ræktuðu hollenskir bændur garðana sem plöntuðu — og fóru að teygja sig lengra inn í land. Þar urðu fyrir þeim Bantú-þjóðirnar.
En á sama tíma voru Bretar komnir með flestöll völd á hafinu og höfðu áhyggjur af því að Hollendingar réðu Höfðaborg á hinni mikilvægu siglingaleið milli Evrópu og Asíu.
En þó tók steininn úr þegar Frakkar virtust vísir til að leggja sig undir Höfðaborg.
Það gátu Bretar ekki þolað og þeir hirtu nýlenduna af Hollendingum.
En þá fengu þeir tvo hópa upp á móti sér.
Hollenskættuðu bændurna sem nú var farið að kalla Búa.
Og stríðsmenn Zulu-manna undir forystu hins máttuga Shaka konungs!
Frá því greinir í 2. grein um sögu Suður-Afríku.
Athugasemdir (1)