Nú þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur tekið sér tvo mánuði í að finna flöt á framlengingu ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, er áhugavert að upprunarekja flokkinn hennar. VG er bæði þungamiðjan sem íslensk stjórnmál snúast núna um og svo er saga VG ósköp mannleg örlagasaga sem varðar okkur öll.
„Við erum róttæk, vinstri- og umhverfissinnuð hreyfing og þá liggur auðvitað á borðinu með hverjum hún er líkleg til þess að starfa, og jafnframt með hverjum hún er ólíkleg til þess að starfa,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fyrsti formaður, daginn eftir stofnfundinn haustið 1998.
Á þessum tveimur áratugum sem liðnir eru frá róttæklingaskeiði VG hefur gerst það sem hendir alla, að VG þroskaðist og varð miðaldra.
Sigurvegari sögunnar
Stefnuyfirlýsingin við stofnun Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs ávarpaði sérstaklega að félagshyggjuflokkar væru að gera of miklar málamiðlanir við hægri flokka og líktust þeim um of:
„Langvarandi undanhald gagnvart fjármagnsöflum hefur leitt til stóraukins misréttis í þjóðfélaginu og virðingarleysis fyrir náttúru landsins. Hentistefna og málamiðlanir margra flokka, sem kenna sig við jafnaðarstefnu eða félagshyggju, hafa víða um lönd greitt götu hægrisjónarmiða. Er svo komið sums staðar að vart er greinanlegur munur á stefnu flokka þó að þeir kenni sig ýmist við frjálshyggju eða félagshyggju.“
Ögmundur Jónasson, einn burðarstólpinn í VG, kvartaði undan því að krataflokkar eins og Samfylkingin, eða Alþýðuflokkurinn, beygðu til hægri. „Það er því iðulega illgreinanlegur munur á flokkunum sem kenna sig við félagshyggju og hinum sem kenna sig við frjálshyggju.“
Sjö árum eftir að stofnendur Vinstri grænna höfnuðu því að ganga til liðs við Samfylkingu annarra vinstriflokka, sem var síðar mynduð úr Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu, Þjóðavaka og Kvennalistanum, fór Samfylkingin í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum og myndaði ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem síðar varð þekkt undir heitinu Hrunstjórnin.
Vinstri græn urðu þannig sannspá um hætturnar af því að frjálshyggja gengi of langt og „fjármagnsöfl“ gengju á lagið.
Samfélagið þegar VG var í ríkisstjórn
Við stofnun VG var ein fyrsta krafan að gera ætti „sértækan gróða upptækan“, eins og hagnað af nýtingu sameiginlegra auðlinda.
Í dag hefur verið vinstri grænn forsætisráðherra í Stjórnarráðinu í fjögur ár.
Bankarnir eru að græða 60 milljarða króna fyrstu níu mánuði ársins, útgerðarfélög tvöfalda arðinn milli ára og ein manneskja fær 888 milljónir króna persónulega á einu ári, meðan önnur fær 715 milljónir króna á einu ári og hefur síðustu ár fjármagnað milljarða króna taprekstur stærstu ritstjórnar landsins, undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Þrjár blokkir eiga nú 60% kvótans. Eigendur útgerðanna fengu sum sé 21,5 milljarða króna í arð, fyrir utan launagreiðslur, á meðan útgerðirnar greiddu einn fjórða þess í veiðigjöld.
Ríkisstjórn undir forsæti VG er byrjuð að selja banka í eigu ríkisins og verið er að selja netinnviðina til evrópsks fjárfestingasjóðs. Steingrímur J. Sigfússon taldi áhyggjuefni að einkavæða innviðafyrirtæki, þegar VG var stofnað.
„Hvað önnur fyrirtæki varðar, eins og til dæmis Landssímann, þá er ég alltént þeirrar skoðunar, að slík fyrirtæki eigi ekki að einkavæða ef þau búa við fákeppnis- eða einokunaraðstæður á markaði,“ sagði Steingrímur og benti á einkavæðingu Margaretar Thatcher á vatns- og orkuveitum máli sínu til stuðnings.
Arion banki er farinn að tala um að Ísland sé í „einstakri stöðu til að verða fjármálamiðstöð norðurslóða“.
Félag bifreiðaeigenda kvartar undan því að tryggingafélög séu að skila ofurhagnaði. Sjóvá eitt og sér greiddi rúma fimm milljarða króna til eigendanna fyrr í mánuðinum. Fyrstu sex mánuði ársins græddu tryggingafélögin 12 milljarða króna.
Auðvitað hagnast tryggingarfélög á hækkun markaða í covid-kreppunni, sem minnir óþægilega á bólumyndun.
„Látum vera“-efnahagsstefna
Ekkert af þessu varðar Vinstri græn, því þau hafa bakkað frá aðhaldshlutverki í efnahagsmálum út frá réttlætissjónarmiðum. VG minnir núna mest á Samfylkinguna 2005 til 2008 í efnahagsstefnu sinni, þvert gegn upphaflegu markmiði.
Katrín Jakobsdóttir og forysta Vinstri grænna náði þó í gegn hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 20% í 22% í stjórnarmyndun 2017. Tekjuskattur var lækkaður á lægstar tekjur, en dregið úr persónuafslætti á móti.
Enginn hátekjuskattur var lagður á, þótt formaðurinn hafi boðað það fyrir kosningarnar 2017. Skattur af hæstu tekjum var 46,25% 2016 og er 46,25% árið 2021. Enginn auðlegðarskattur hefur verið lagður á þá ríkustu.
Ein af stofnendum VG, Drífa Snædal, er núna forseti Alþýðusambands Íslands. Hún yfirgaf VG árið 2017 við upphaf stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Hún hefur sagt að búið sé að „neutralísera“ VG í ríkisstjórnarsamstarfi. „Þar er verið að gera ýmsar málamiðlanir sem maður sér ekki á yfirborðinu,“ sagði hún í viðtali í fyrra.
Fram undan er þjóðfélagsumræða sem mun snúast um hvort hækka eigi laun vegna hagvaxtar og verðbólgu, eða hvort ekki eigi að hækka laun vegna verðbólgu. Þótt seðlabankastjóri og fleiri hafi áhyggjur af því að laun hækki umfram hagvöxt, eru minni áhyggjur af því að hlutabréfamarkaðurinn hækki langt umfram hagvöxtinn. En ólíkt því sem áður var eru Vinstri græn í raun ekki hluti af þjóðfélagsumræðunni um meint eða metið efnahagslegt réttlæti.
Nei, það þarf enga nýja stjórnarskrá
Eins og margoft áður hefur stjórnmálafólkinu ekki tekist að ná samstöðu um að breyta stjórnarskránni, enda misjafnar áherslur og hagsmunir eftir flokkum. Til þess að fylgja stefnu um samstarfsstjórnmál gerðu Vinstri græn enga kröfu um samþykkt nýrrar stjórnarskrár í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum, þrátt fyrir að grunnur hennar hefði verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Katrín Jakobsdóttir fékk engan annan flokksformann með sér í flokkspólitísku samstöðuna og lagði ein fram frumvarp um afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni, sem dagaði uppi í nefnd.
Við upphaf þingsetningar í vikunni gagnrýndi Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þingmenn fyrir að láta „örlög stjórnarskrárfrumvarps [ráðast] í einhverju nefndarherbergi hér handan Austurvallar“.
Eftir alþingiskosningar komu síðan upp aðstæður sem munu kosta mikla orku og leiða til missis á trausti. Í núgildandi stjórnarskrá eru þingmenn sjálfir látnir úrskurða um hvort þeir hafi verið löglega kjörnir, nokkuð sem þeir eru bersýnilega vanhæfir til að gera: „Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir.“
Þessi umboðsvandi og hagsmunaárekstur hefði ekki verið sama vandamál ef Alþingi hefði verið búið að samþykkja frumvarp stjórnlagaráðs, eins og almenningur hafði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að yrði grunnur nýrrar stjórnarskrár fyrir níu árum. Í nýju stjórnarskránni er nefnilega kveðið á um að landskjörstjórn úrskurði um lögmæti kosninga, sem megi síðan skjóta til dómstóla. Þannig er ekki ómöguleikinn fyrir hendi að þingmenn, sem voru kannski ólöglega kjörnir, taki sem slíkir afstöðu til lögmætisins.
Það glitti í neistann af upprunalegum eldmóði VG þegar Svandís Svavarsdóttir kaus með uppkosningu í Norðvesturkjördæmi, en formaðurinn kaus með því að samþykkja niðurstöður kosninganna þrátt fyrir brot á kosningalögum og að fordæmi væru fyrir ógildingu kosninga.
Þrátt fyrir almennu regluna um að kosið skyldi að vor- eða sumarlagi, ákvað ríkisstjórnin undir forsæti Vinstri grænna að hámarka setu sína með því að kjósa að hausti, með tilheyrandi truflun fyrir fjárlagagerð næsta árs, augljóslega með eiginhagsmuni en ekki heildarhagsmuni að leiðarljósi.
Umhverfisverndarflokkur við völd
Það hefur enginn skortur verið á vandræðum í umhverfismálum, þótt umhverfisverndarflokkur sé við völd og varaformaður hans sé umhverfisráðherra. Almenn sátt hefur náðst um að fylgja umhverfisstefnu, en það er á jaðrinum sem sést hvort raunverulega sé verið að ryðja brautina eða ekki.
Eins og sýnt hefur verið fram á í umfjöllunum í Stundinni hefur lítið verið að marka opinbera tölfræði Íslendinga um endurvinnslu. Nýlega sagði stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs af sér vegna efasemda um að úrgangur sem Íslendingar skila frá sér fari raunverulega í endurvinnslu. Alþingi hefur farið fram á rannsókn á starfsemi sjóðsins, sem er að meirihluta undir stjórn atvinnulífsins. Ekki eftir athugasemdir Vinstri grænna, heldur eftir að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók málið upp.
Endurvinnsla okkar á gleri hefur verið 0%. Skilagjald á dósum og flöskum hefur ekki haldið í við verðlagsþróun. Plast, sem er endurunnið, er ekki með rekjanlegan feril. Við vitum ekki hvað verður um úrganginn sem við flytjum úr landi.
Engin bylting hefur orðið í aðkomu ríkisins að almenningssamgöngum og við náum ekki að verða leiðandi í rafbílavæðingu.
Á þessu ári hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra þó lagt fram frumvarp á Alþingi sem liðkar fyrir endurvinnslu glers. Guðmundur Ingi hefur líka stundað friðlýsingar á svæðum víða um Ísland. Því má segja að þessi fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar sé leiðandi innan VG í því að framfylgja kjarnastefnu flokksins, þótt það gangi hægt og sums staðar illa.
Ísland í Nató, herinn hér
Eins og gengur og gerist hefur formaður Vinstri grænna mætt á leiðtogafundi Nató sem fulltrúi Íslands. Áður hafði VG það sem lykilstefnumál að gera Ísland formlega hlutlaust og yfirgefa varnar- eða hernaðarbandalagið.
Í tíð VG í Stjórnarráðinu hafa Íslendingar ekki tekið sérstaka forystu í friðarmálum.
Þegar á það reyndi hjá Sameinuðu þjóðunum studdi Ísland ekki bann við kjarnorkuvopnum fyrr á árinu.
Og herinn, hann er hér. Eins og sérfræðingur í öryggismálum Íslands orðaði það um daginn, boðar koma B-2 sprengjuflugvéla Bandaríkjahers „nýtt og aukið hlutverk Íslands í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO“.
Flokkur verður miðaldra
Rétt eins og ungir róttæklingar verða miðaldra kerfisfólk, hefur VG endað á því að vera ein útgáfa af því sem VG var stofnað til höfuðs. Hvorki þarf að vera ósammála eða sammála stefnumálunum til að sjá að VG hefur breyst. Það er fallegt að þroskast og eldast. Gott að finna sátt.
VG er að minnsta kosti ekki freki kallinn. Ekki nema maður spyrji jeppamenn á hálendinu sem vilja stoppa Miðhálendisþjóðgarðinn. Eða þá sem kalla skatta ofbeldi og vilja lækka þá alla.
Ef VG væri manneskja væri hún kannski stjórnandi í opinberri stofnun sem býr í einbýlishúsi í Grafarvoginum, fer reglulega í helgarferðir til Evrópu, en keyrir um á hybrid-bíl til stuðnings umhverfinu. Hún lætur Kolvið kolefnisjafna utanlandsferðina. Átta tré fyrir hverja Tene-ferð.
Fjórði hver kjósandi fór
Eftir stendur að fylgi VG fór úr 16,9% niður í 12,6% milli kosninga 2017 og 2021, sem þýðir að af hverjum fjórum sem kusu VG 2017 kaus einn eitthvað annað. Það er reyndar svipað og Samfylkingin. Af hverjum fimm kjósendum hennar valdi einn að kjósa eitthvað annað, í einfölduðu máli. VG var með meira fylgi í kosningunum árið 2007, þegar Steingrímur J. Sigfússon var formaður, og fékk 14,4% atkvæða, á þeim tíma sem umhverfismálin voru loksins að ná í gegn með Draumalandi Andra Snæs Magnasonar og fleiri og fleiri skynjuðu óheilbrigði í efnahagsástandinu.
VG er vara á markaði stjórnmálanna, en kannski nákvæmlega það sem við þurfum til að halda áfram eins og við erum. Ekki brakandi ferskt salat, með stökku káli, léttfeitum mozzarella og springandi smátómötum, ekki snarkandi steik eða logandi grill, heldur pottréttur. Hægmallandi, mjúkur undir tönn, auðmeltur. Og það er vitað að daginn eftir verður endurhitað.
---
Uppfært: Ný ríkisstjórn hefur nú verið kynnt. Vinstri græn yfirgefa þar tvö ráðuneyti sem stýra kjarnamálum þeirra, umhverfisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, en fá móti matvælaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
Það er ekkert eftir eins og Jói Ragg skrifar !
Það er mjög einkennilegt, svo ekki sé meira sagt, hvernig í ósköpunum fólkið sem gerði VG að óhrjálegum umskiptingi, þorir yfirleitt að horfa framan í kjósendur sína, eftir það sem undan er gengið, hvað þá stofnfélagana, sem komu þessum flokki vonbrigðanna á koppinn með óeigingjarnri sjálfboðaliðavinnu.
Reyndar hófst úrkynjun Vinstri grænna mjög snemma, því ýmsir töldu sig sjá hvert stefndi tveimur til þremur árum eftir stofnun flokksins. Því miður voru varnaðarorð og ábendingar þeirra sem höfðu áhyggjur af þróun mála litin hornauga af ,,þeim sem vonuðu það besta" og hræddust Steingrím og gamla flokkseigendafélagið úr Alþýðubandalaginu sem hreiðað hafði um sig í VG. En eitt er víst: Sjórnmálaflokkurinn Vinstrihreyfingin grænt framboð í dag er allt annars eðlis en sú Vinstrihreyfing grænt framboð sem ég tók þátt í að stofna fyrir rúmum tuttugu árum síðan.