Ekki fást skýrar upplýsingar um framgang rannsóknar Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) á því hvort börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, hafi verið beitt ofbeldi eða sætt illri meðferð. Sömuleiðis neitar stofnunin að upplýsa um hvernig staðið er að rannsókninni, til að mynda við hverja hafi verið rætt til að afla vitnisburðar um starfsemi meðferðarheimilisins. Ein kvennanna sem vistuð var á meðferðarheimilinu gagnrýnir skort á svörum frá nefndinni og segir það ekki til þess fallið að skapa traust á rannsókninni.
„Mér finnst það mjög óheppilegt þar eð það væri eðlilegra að við fengjum reglulegar upplýsingar um framgang rannsóknarinnar, það myndi auka traust okkar á henni,“ segir Gígja Skúladóttir, ein kvennanna sem stigið hafa fram og lýst dvölinni í Varpholti og á Laugalandi.
Stundin hóf umfjöllun um málefni meðferðarheimilisins í lok janúar síðastliðins og birti þá viðtöl við sex konur sem höfðu verið vistaðar á heimilinu. Báru þær allar að þær hefðu sætt ofbeldi og harðræði af hálfu starfsfólks, einkum af hálfu forstöðumanns heimilisins, Ingjalds Arnþórssonar.
Ingjaldur rak meðferðarheimilið á árabilinu 1997 til 2007 og voru frásagnir kvennanna frá árabilinu 1998 til 2005. Sömuleiðis birti Stundin gögn sem sýndu að ábendingar um harðræði og ofbeldi á meðferðarheimilinu hefðu verið komnar fram þegar árið 2000. Stundin hefur haldið áfram umfjöllun sinni fram á þennan dag og hafa fimm konur til viðbótar stigið fram og lýst því hvernig þær voru beittar ofbeldi og harðræði í Varpholti og Laugalandi.
Spurningum látið ósvarað
Ríkisstjórn Íslands samþykkti 19. febrúar að láta rannsaka hvort börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu hefðu sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan að á dvöl þeirra stóð á fyrrnefndu árabili. Var GEF falið að sinna þeirri rannsókn með bréfi dags. 23. febrúar. Sú vinna var þó enn á undirbúningsstigi mánuði síðar, 25. mars. Í fyrirspurn sem Stundin sendi GEF 28. október síðastliðinn var spurt hvenær formleg rannsókn hafi hafist. Í svarbréfi GEF sem barst 29. október var látið hjá líða að svara þeirri spurningu en einungis vísað til þess að stofnuninni hefði verið falið verkefnið 23. febrúar. Stundin ítrekaði spurningu sína sama dag og svar GEF barst. Seinna svar GEF barst 11. nóvember og þar var spurningunni einnig látið ósvarað.
Stefnt á verklok í kringum áramót
Við ofangreindum spurningum hafa fátækleg svör fengist. Í svari GEF frá 29. október segir ekkert um hvernig rannsókninni hefur verið háttað, utan að tekin hafi verið viðtöl við ýmsa aðila og að fjórir sérfræðingar hafi verið ráðnir til að koma að vinnslu rannsóknarinnar með ýmsum hætti. „Sérfræðingarnir hafa nú þegar lokið fjölda viðtala við ýmsa aðila svo sem einstaklinga sem dvöldu a meðferðarheimilinu á umræddum árum, starfsmenn meðferðarheimilisins, starfsmenn Barnaverndarstofu og fulltrúa barnaverndarnefnda,“ segir í svari GEF.
Ósvarað er hversu mörg viðtölin eru, hversu mörgun hafi verið boðið til viðtals, hvort náðst hafi í öll þau sem vistuð voru á meðferðarheimilinu eða unnu þar og hvort einhverjir hafi neitað að ræða við rannsakendur.
„Mörgum okkar er farið að finnast það óþægilegt að við höfum engar fréttir fengið um stöðu mála“
Hvað varðar gögn sem rannsakandur hafi kallað eftir kemur ekkert fram um það í svari GEF hver þau eru. Fram kemur í svarinu að vinna við greiningu gagna sé hafin og stefnt sé að því að skila skýrslu til félagsmálaráðuneytisins í kringum áramót. Þá verða tíu mánuðir liðnir frá því að GEF var falið verkefnið. „Í niðurstöðum könnunarinnar verður lagt mat á það hvort og þá í hvaða mæli börn hafi sætt ofbeldi og/eða illri meðferð á Varpholti/Laugalandi, með hvaða hætti eftirlit fór fram og tillögur að úrbótum settar fram varðandi umgjörð og eftirlit með úrræðum fyrir börn sem eru vistuð á vegum barnaverndaryfirvalda,“ segir í svari stofnunarinnar.
Konurnar sjálfar fá engin svör
Gígja Skúladóttir, ein kvennanna sem fyrst stigu fram og lýstu upplifun sinni af ofbeldinu og harðræðinu sem þær sögðu að hefðu einkennt vistunartíma þeirra í Varpholti og á Laugalandi, segir að henni þyki óþægilegt að ekki fáist betri upplýsingar um framgang rannsóknarinnar. Það komi henni hins vegar ekki á óvart, almennt hafi konurnar sem um ræðir verið lítt eða ekki upplýstar um þau skref sem tekin hafi verið í málinu.
„Svörin koma mér ekki á óvart og eru í samræmi við þau svör sem við sjálfar fengum, við tölvupósti sem ég sendi til nefndarinnar með spurningum fyrir hönd okkar kvennanna. Mörgum okkar er farið að finnast það óþægilegt að við höfum engar fréttir fengið um stöðu mála. Við fengum svar við tölvupóstinum en ekki spurningunum sem settar voru fram í honum. Mér finnst það mjög óheppilegt þar eð það væri eðlilegra að við fengjum reglulegar upplýsingar um framgang rannsóknarinnar, það myndi auka traust okkar á henni. Þar er verið að fara í gegnum viðkvæm og persónuleg gögn sem snerta okkar einkamálefni og það er óþægilegt að okkar spurningum, og spurningum Stundarinnar sé ekki svarað.“
Þrátt fyrir að Gígja segi henni þyki óþægilegt að fá ekki nánari fréttir af framgangi rannsóknarinnar er hún þó bjartsýn á að niðurstöðuna. „Ég persónulega túlka þögnina ekki sem eitthvað neikvætt í garð okkar heldur ef til vill eitthvað sem er hægt að betrumbæta og læra af, til að gera betur næst með það í huga að láta þolendur upplifa öryggistilfinningu. Ég veit að það eru mjög flottir fagmenn sem koma að rannsókninni og við hefðum ekki getað verið heppnari með það.“
Athugasemdir