,,Þetta er tengdasonurinn. Honum hefur verið greitt, beint að utan,” sagði Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu og uppljóstrari í Samherjamálinu í Namibíu, í svari í tölvupósti við spurningu Aðalsteins Helgasonar, framkvæmdastjóra yfir Afríkustarfsemi Samherja í febrúar árið 2012.
Útgerðarfélagið Samherji var þá að hefja veiðar í Namibíu og hafði unnið að því að tryggja sér kvóta í landinu. Aðalsteinn hafði spurt Jóhannes út í tiltekna millifærslu af bankareikningi Samherja hjá norska bankanum DNB til namibísks félags í eigu tengdasonar sjávarútvegsráðherra Namibíu, og fékk þá þetta svar. Sjávarútvegsráðherrann hét Bernhard Esau og tengdasonurinn var Tamson Hatuikulipi.
Seinni umferð af yfirheyrslum
Þessir tölvupóstar eru hluti af þeim upplýsingum sem koma fram í gögnum sem ákæruvaldið í Namibíu hefur gert opinbert vegna rannsóknar þess á Samherjamálinu og mútugreiðslum félagsins til namibískra ráðamanna. Umræddir tölvupóstar voru ekki hluti af þeim gögnum um starfsemi Samherja í Namibíu sem gerð voru opinber í gegnum uppljóstrunarsíðuna Wikileaks í nóvember árið 2019.
,,Á einhverjum tímapunkti þá kann það að gera gæfumuninn að múta einum af leiðtogum þessara manna”
Líkt og Kjarninn greindi fyrst frá þá er um að ræða tölvupósta sem embætti héraðssaksóknara á Íslandi sótti hjá Samherja hér á landi. Rannsókn héraðssaksóknara hefur því leitt af sér að ný gögn með opinberandi upplýsingum um Samherjamálið í Namibíu hafa fundist.
Rannsókn Namibíumálsins er nú í fullum gangi á Íslandi og voru einhverjir af þeim aðilum sem eru með réttarstöðu sakborninga í því í skýrslutökum hjá embætti héraðssaksóknara fyrr í sumar. Þetta er önnur umferðin af skýrslutökum í málinu hér á landi en sú fyrri fór fram sumarið 2020.
Einn af þeim sakborningum í málinu sem boðaður var í skýrslutöku nú í sumar er uppljóstrarinn í málinu, Jóhannes Stefánsson. Hann segir að skýrslutakan yfir sér hafi gengið vel og að hann sé sáttur með framgang rannsóknarinnar hingað til.
Afhjúpandi notkun á orðinu ,,múta”
Þessir tölvupóstar eru afhjúpandi á þann hátt að þeir fela í sér nýjar upplýsingar þar sem æðsti ráðamaður Samherja í Afríku, áðurnefndur Aðalsteinn Helgason, segir berum orðum að til þess geti komið að múta þurfi einhverjum ráðamanni í Namibíu til að tryggja Samherja kvóta: ,,Á einhverjum tímapunkti þá kann það að gera gæfumuninn að múta einum af leiðtogum þessara manna,” sagði Aðalsteinn í tölvupósti til Jóhannesar í desember árið 2011.
Þessi tölvupóstur Aðalsteins er afhjúpandi þar sem beina orðalagið ,,mútur” og að ,,múta” er ekki að finna í mörgum tölvupóstum frá stjórnendum Samherja í Namibíumálinu.
Tölvupóstarnir eru einnig afhjúpandi sökum þess að Samherji reyndi lengi vel að skella allri ábyrgð á mútugreiðslunum á Jóhannes Stefánsson einan, jafnvel greiðslum sem áttu sér stað eftir að hann hætti hjá Samherja í Namibíu árið 2016. Þessir tölvupóstar sýna hins vegar að yfirboðari Jóhannesar í Afríku nefndi mútur við hann í tölvupósti sem hugmynd til að komast í kvóta í landinu.
Tölvupósturinn frá Aðalsteini til Jóhannesar styrkir mögulegt sannleiksgildi frásagnar Jóhannesar sjálfs af því hvernig Aðalsteinn á að hafa lagt honum línurnar um það af hverju mútur í kvótaviðskiptum í Namibíu gætu verið réttlætanlegar. ,,Þá sagði Aðalsteinn við mig að alltaf þegar gæfist tækifæri til að borga sjávarútvegsráðherra þá ætti ég að borga sjávarútvegsráðherra, hann orðaði þetta einhvern veginn svona.“. Jóhannes sagði enn frekar, í viðtali við Stundina: „Þetta situr í mér, af því ég man hvað Aðalsteinn var ákveðinn í þessu. Það var eins og hann væri ekki að gera þetta í fyrsta skiptið. Ég labba bara inn í hringiðu efnahagsbrota og spillingar. Ég fékk ordrur frá þeim og gerði bara mitt besta í því. Miðað við hvernig þeir greiddu mútur þá var eins og þeir væru ekki að gera þetta í fyrsta skipti.“
Aðalsteinn Helgason var um árabil einn nánasti samstarfsmaður Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, innan samstæðunnar. Hann var á þessum tíma yfirmaður Jóhannesar Stefánssonar þar sem hann var framkvæmdastjóri Afríkustarfsemi Samherja.
Aðalsteinn hefur sjálfur neitað því að frásögn Jóhannesar um fyrirskipanir hans að greiða mútur í Namibíu séu réttar: ,,Það eru lygar,” sagði hann við Stundina í nóvember 2019.
Aðalsteinn er einn af þeim núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum Samherja sem ákæruvaldið í Namibíu hefur reynt að fá framseldan til Namibíu.
Baldvin fékk áframsendan póst
Í svarpósti Jóhannesar til Aðalsteins við áðurnefndum pósti, sem og í öðrum póstum sem eru hluti af gögnum málsins, er rætt ítarlega um útfærslur á greiðslunum til namibísku áhrifamannanna þó að beina orðalagið ,,mútur” komi ekki fyrir aftur í þessum póstum. Í svarpóstinum til Aðalsteins segir Jóhannes að Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Bernhard Esau, muni fara með tilboðshugmyndir Samherja til ráðherrans: ,,Hugmyndin sem er undirliggjandi er að hann [sjávarútvegsráðherrann] sé fullvissaður um að hann muni fá eitthvað ef hann kemur með eitthvað til okkar.”
Í tölvupóstunum kemur einnig fram að Jóhannes áframsendi tölvupóst þar sem rætt var um þessi mál til Baldvins Þorsteinssonar, sonar Þorsteins Más Baldvinssonar, með orðinu: ,,FYI” eða ,,For your information”/,,Þér til upplýsingar”.
Rúmum mánuði eftir að Aðalsteinn nefndi mútur fyrst í þessum tilteknu tölvupóstsamskiptum sendi Jóhannes Stefánsson tölvupóst til Aðalsteins Helgasonar og Ingvars Júlíussonar, fjármálastjóra Samherja á Kýpur, þar sem hann sagði frá gangi viðræðna við Tamson Hatuikulipi um hversu mikið Samherji ætti að greiða þeim fyrir aðgang að kvóta í landinu. ,,Góðan daginn. Staðan varðandi tengdasoninn er að ýmsar tölur hafa verið nefndar og ræddar. James [Hatuikulipi] hefur einnig veitt aðstoð og reynt að koma hlutunum á réttan stað. Það er gagnkvæmur skilningur á milli beggja aðila um að þessi greiðsla er eingöngu til að halda áfram, til þess að hvetja hann, en að síðar muni hann fá greitt fyrir kvótann og það sem hann kemur með að borðinu. Tölur á bilinu 150.000 til 450.000 hafa verið nefndar og hann gæti sætt sig við 300.000 Namibíudollara. Hvað finnst þér.”
Fyrsta millifærslan til namibísks eignarhaldsfélags Tamson Hatuikulipi, Fitty Entertainment, hafði átt átti sér stað tæpum mánuði áður en þessi tölvupóstur var sendur, eða þann 26. janúar árið 2012. Næstu ár þar á eftir héldu greiðslurnar til namibísku ráðamannanna áfram og allt fram til ársins 2019 þegar fyrst var sagt frá málinu í fjölmiðlunum Kveik, Stundinni og Al Jazeera og Wikileaks birti gögn málsins.
Athugasemdir