Konurnar af Laugalandi óska eftir fundi með forsætisráðherra
Í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla óska konur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Laugalandi eftir því að ríkisstjórnin framfylgi eigin samþykkt um að rannsakað verði af fullri alvöru hvort þær hafi orðið fyrir ofbeldi og illri meðferð þar.
Konur sem stigið hafa fram og lýst því að þær hafi verið beittar harðræði og ofbeldi þegar þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, á árunum 1997 til 2007 hafa óskað eftir fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Óskin um fund er lögð fram vegna vonbrigða kvennanna með framgang rannsóknar málsins og viðbragðaleysis Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra.
Stundin greindi frá því í gær að konurnar telji að verið sé að þagga mál þeirra niður. Þær upplifi að fátt eða ekkert hafi gerst í rannsókn þeirri sem ríkisstjórnin samþykkti , að tillögu Ásmundar Einars, á því hvort þær hefðu sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi, á meðan þær voru vistaðar á meðrferðarheimilinu. Ríkisstjórnin samþykkti að rannsóknin færi fram 19. febrúar síðastliðinn en síðan þá hafa konurnar ekkert heyrt frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, sem fer með rannsóknina. Þá hefur beiðni þeirra um fund með Ásmundi Einari ekki verið svarað, nú nítján dögum eftir að hún var send.
Konurnar hafa jafnframt sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Yfirlýsing frá konunum sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, á árunum 1997 til 2007
Þann 19. febrúar síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin tillögu Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um að rannsaka hvort við konurnar sem vistaðar vorum á Laugalandi, áður Varpholti, á árunum 1997-2007 hefðum sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi.
Við fögnuðum niðurstöðunni og við upplifðum að loksins var á okkur hlustað eftir áralanga þöggun, yfirhylmingu og aðgerðarleysi yfirvalda gagnvart okkur.
Ásmundur ákvað að fela Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) að rannsaka málið.
Fyrir samþykki tillögunnar höfðum við átt tvo fundi með Ásmundi og aðstoðarmanni hans, Sóleyju Ragnarsdóttur lögfræðingi, sem við vorum allar sáttar með. Við upplifðum að þeim væri umhugað um mál okkar og einlægur vilji væri til þess að rannsaka það af alvöru. Ásmundur tók það sérstaklega fram að við gætum haft samband við sig, eða Sóleyju, hvenær sem væri í þessu ferli og óskað eftir fundi eða upplýsingum.
Núna tæpum tveimur mánuðum síðar hefur engin okkar heyrt neitt frá GEF, að frátöldu svari við tölvupósti sem ein af okkur sendi.
Í svari stofnarinnar til blaðamanns Stundarinnar kom fram að vinna væri ekki hafin við að rannsaka mál okkar og að stofnunin myndi sinna rannsókninni samhliða öðrum verkefnum.
Það er reiðarslag fyrir okkur sem höfum staðið í þessari baráttu, séð okkur knúnar til þess að fara með mjög persónuleg mál fram fyrir alþjóð í þeirri von að á okkur verði hlustað, okkur trúað og að við fáum það ofbeldi sem við máttum sæta viðurkennt.
Það slær okkur að GEF eigi að sinna rannsókninni samhliða mörgum öðrum verkefnum. Ef miðað er við fyrri mál þar sem starfshættir svipaðra heimila voru rannsakaðir má ætla að rannsóknin verði umfangsmikil.
Það gefur okkur ekki miklar vonir að heyra að það hafi ekki verið sett á laggirnar sérstakt teymi innan stofnunarinnar eða fenginn aukinn mannskapur til að koma að rannsókninni.
Okkur líður eins og rannsókn málsins sé ekki gerð af neinni alvöru eða hafi forgang. Við konurnar sem vorum beittar ofbeldi á meðferðarheimilinu sjáum ekki betur en að meðferð málsins sé ekki í neinu samræmi við þau loforð sem okkur voru gefin.
Þann 25. mars síðastliðinn sendi Gígja Skúladóttir tölvupóst fyrir hönd hópsins til Ásmundar og Sóleyjar þar sem við óskuðum eftir fundi vegna þess að við höfum áhyggjur af framgang mála.
Einnig sendum við fyrirspurnir varðandi rannsóknina, til dæmis varðandi tímaramma, hverjir koma að henni, hvað verður gert við upplýsingarnar o.s.frv. Þeim tölvupósti hefur enn ekki verið svarað núna 19 dögum síðar.
Við óskum eftir að ríkisstjórnin framfylgi því sem hún samþykkti þann 19. febrúar og rannsaki mál okkar kvennanna af alvöru.
Við óskum eftir því að ríkisstjórnin sjái til þess að rannsóknin verði sett í forgang en mæti ekki afgangi.
Við óskum einnig eftir því að upplýsingum varðandi rannsóknina verði komið til skila til okkar enda er um að ræða viðkvæm og persónuleg mál sem varða okkur.
Almenningur hefur viðhaldið Stundinni og Kjarnanum með áskriftum og styrkjum síðan 2013. Með því að kaupa áskrift að Heimildinni styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku.
Athugasemdir