Siðanefnd Ríkisútvarpsins, sem var endurreist vegna kæru Samherja gegn ellefu starfsmönnum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að einn starfsmannanna, Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks, hafi brotið „alvarlega“ gegn siðareglum með því að gefa upp persónulega afstöðu sína í afmörkuðum álitamálum á samfélagsmiðlum, meðal annars með því að svara stjórnendum Samherja.
Ummæli tíu annarra starfsmanna RÚV eru ekki talin fela í sér brot eða málum þeirra vísa frá.
Ummæli Helga sem siðanefndin gerði athugasemdir við eru þessi:
„Vonandi er þessi árétting of einhliða fyrir hinn ballanseraða forstjóra Samherja.“
„Sæll Björgólfur Jóhannsson. Nú hef ég fylgst með þér fyrstu daga þína í starfi og vandræðum þínum við að höndla einfaldar staðreyndir um eignarhald fyrirtækisins sem þú stýrir; samanber þetta með Heinaste um daginn.“
„... En af því að ykkur virðist ekki auðlesið internetið er hér ein grein sem þú gætir byrjað á að lesa gæskur ... Þú þarft ekkert að biðja mig afsökunar samt.“
„Rosalega hlýtur þeim að líða vel með sig núna „andlitunum“ sem tóku þátt í að rétta við ímynd þessa kompanís eftir að upp um það komst.“
„Hér er hún þá líklegast komin, stærsta efnahagsaðgerð íslenskra stjórnvalda vegna Covid-19“ skrifaði Helgi um frétt af Kjarnanum með fyrirsögninni „Samherji fær að sleppa við yfirtökuskyldu á Eimskip“.
Loks skrifaði hann um yfirtökutilboð Samherja í Eimskip í október. „Húrra fyrir Seðlabankastjóranum sem lét spila með sig… what a joke“ og „Það að þeim hafi verið heimilað að sleppa undan yfirtökuskyldu í mars, vegna Covid, var galið. Og sýnir sig núna að hafa verið hreinn fyrirsláttur.“
Þetta kemur fram í niðurstöðu siðanefndar Ríkisútvarpsins sem skilað var í dag og Stundin hefur undir höndum. Í fjörutíu blaðsíðna úrskurði sem Gunnar Þór Pétursson, Páll Rafnar Þorsteinsson og Sigrún Stefánsdóttir skrifa undir er kæra Samherja vegna ummælanna reifuð og fjallað um meint brot ellefu starfsmanna RÚV vegna birtingar færslna þeirra á samfélagsmiðlum sem snúa að sjávarútvegsfyrirtækinu.
Í úrskurðarorðum kemst siðanefndin að þeirri niðurstöðu að tilgreind ummæli Helga Seljan feli í sér alvarlegt brot gegn siðareglum RÚV. Ákveðin ummæli og deilingar Freys Gígju Gunnarssonar, Aðalsteins Kjartanssonar, Sunnu Valgerðardóttur og Láru Ómarsdóttur eru ekki talin fela í sér brot á siðareglum. Málinu er vísað frá hvað varðar Snærós Sindradóttur og hvað varðar ummæli, og deilingar eftir atvikum Aðalsteins, Freys Gígju, Helga, Sunnu, Láru, Rakelar Þorbergsdóttur, Sigmars Guðmundssonar, Stígs Helgasonar, Tryggva Aðalbjörnssonar og Þóru Arnórsdóttur dagana 11. og 12. ágúst 2020 sem komu í kjölfar myndbands Samherja 11. ágúst.
Skýr og persónuleg afstaða falin í ummælunum
Í úrskurðinum eru tiltekin nokkur ummæli Helga sem beinast persónulega að fyrirsvarsmönnum Samherja.
„Telja verður að með þessum ummælum sínum, sérstaklega þegar þau eru saman tekin, en þó ekki aðeins, hafi Helgi Seljan gerst hlutdrægur og gengið lengra en það svigrúm sem hann hafi annars til þess að deila fréttum og fylgja þeim eftir með gagnrýnum spurningum eða ummælum, sambærilegum þeim sem hann myndi viðhafa sem fréttamaður, jafnvel þó slíkt væri gert í eigin nafni,“ segir í úrskurðinum. „Því er það mat siðanefndarinnar að í ofangreindum ummælum felist skýr og persónuleg afstaða í málefni kæranda, sem 4. mgr. 3. gr. siðareglnanna er ætlað að taka til, og því um að ræða brot á greininni.
Hvað varðar alvarleika brots Helga Seljan, verður að taka tillit til þess að ákvæðum siðareglnanna hefur ekki verið beitt fyrr, sem og að ekki liggja fyrir skýrar leiðbeiningar frá RÚV um hvernig fréttmenn eigi að haga tjáningu sinni á samfélagsmiðlum. Á móti kemur að hér er um að ræða ítrekuð tilvik yfir langan tíma. Í því ljósi telur siðanefndin að brot Helga sé alvarlegt, á mælikvarða 7. gr. starfsreglna siðanefndarinnar (ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt).“
Sögðu ranglega að Helgi hefði falsað skýrslu
Samherji hefur birt fjölda færsla á vefsíðu sinni um RÚV og starfsmenn þess síðan Kveikur, Stundin, Al Jazeera og Wikileaks fjölluðu í nóvember 2019 um mútugreiðslur fyrirtækisins til þess að komast yfir hestamakrílskvóta í Namibíu.
Meginhluti ummælanna voru viðbrögð starfsmanna RÚV við myndböndum Samherja, sem meðal annars fjölluðu um Helga. Í þætti Samherja, þar sem rætt var við starfsmenn og samstarfsaðila Samherja og birt leyniupptaka af samtali við Helga, var hann sakaður um að hafa falsað skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs í umfjöllun sinni í Kastljósi um rannsókn Seðlabankans á Samherja árið 2012.
Verðlagsstofa fann síðar þriggja blaðsíðna skjal sem unnið var af starfsmanni og reyndist vera það sem birt var í Kastljósþættinum.
Athugasemdir