Bragi Guðbrandsson, þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu, lagðist hart gegn því að félagsmálaráðuneytið aflaði upplýsinga um málefni meðferðarheimilisins Laugalands þegar fram komu ábendingar um að forstöðumaður heimilisins, Ingjaldur Arnþórsson, beitti stúlkur sem þar voru vistaðar ofbeldi. Þá hvatti hann til þess að félagsmálráðherra ætti að gera sem minnst úr málinu.
Í ágústmánuði árið 2007, nánar tiltekið hinn 23., sendi Haukur Arnþórsson, bróðir Ingjalds, tölvupóst á Braga og á félagsmálaráðuneytið. Efni tölvupóstins voru áhyggjur Hauks af meðferð Ingjalds á skjólstæðingum sínum, en einnig framgöngu hans í garð fyrrverandi konu sinnar, Áslaugar Brynjarsdóttur, og barna þeirra.
Aðfaranótt 24. ágúst, klukkan 00:35, sendi Bragi tölvupóst á Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmann félagsmálaráðherra sem þá var Jóhanna Sigurðardóttir. Með tölvupóstinum fylgdi minnisblað Braga um tölvupóst Hauks varðandi Ingjald. „Eins og kemur fram í minnisblaðinu tel ég að ráðherra eigi að gera sem minnst úr málinu við fjölmiðla ef þess er nokkur kostur. Hér er um fjölskylduharmleik að ræða sem Haukur hefur enga heimild til að fjalla um opinberlega. Ég tel að ráðuneytið eigi alls ekki að afla frekari upplýsinga um málið enda ekkert sem rökstyður slíka ákvörðun. Slík ákvörðun myndi einfaldlega þykja fréttnæm og kalla á [svo] sem síðan væru fréttnæm og halda hringekjunni gangandi,“ skrifaði Bragi.
„Kaerar takkir! Tu hefur lokad tessu mali med style!“
Daginn eftir sendi Bragi annan tölvupóst á Hrannar en um morguninn hafði DV birt umfjöllun um málefni Laugalands og Ingjalds. Í þeim tölvupósti fullyrðir Bragi að hann hafi fengið það staðfest hjá Daníel Guðjónssyni, yfirlögregluþjóni á Akureyri, að Ingjaldur hafi aldrei verið kærður vegna líkamsárásar, líkt og sagði í DV. Með hvaða umboði Bragi sótti þær upplýsingar til lögreglunnar kemur ekki fram. Þá segir einnig að Bragi hafi rætt við Helgu Hannesdóttur geðlækni, sem kannaðist við að Haukur hefði hringt í hann og rætt málefni Ingjalds og Áslaugar. Það sem Haukur hafi hins vegar eftir henni í bréfi sínu kannist hún ekki við og segir það hans eigin hugarburð.
Þessu bréfi svarar Hrannar fimm mínútum síðar með skilaboðunum: „Kaerar takkir! Tu hefur lokad tessu mali med style!“
Í Stundinni í dag er ítarlega fjallað um málefni meðferðarheimilisins Laugalands, ásakanir á hendur Ingjaldi um ofbeldi og yfirgang, og hvernig Bragi beitti sér til varnar honum.
Athugasemdir