Útgerðarfélagið Samherji fjármagnaði kaup á kvóta og fiskvinnslu útgerðarfélagsins Brims á Akureyri meðal annars með sex milljarða króna láni frá eignarhaldsfélagi Samherja á Kýpur, Esju Seafood. Þessar eignir fengu nafnið Útgerðarfélag Akureyringa og rekur Samherji þeir undir þessu heiti í dag. Fyrirtækið á Kýpur, sem meðal annars var líka notað til að greiða mútur til fyrirtækisins Tundavala Invest í Dubaí í skiptum fyrir kvóta, lánaði Útgerðarfélagi Akureyringa rúmlega 46 milljónir dollara, sex milljarða króna, árið 2016. Greint var frá láninu frá Esju Seafood til Útgerðarfélags í Kveik í síðustu viku.
Sama ár gerði Útgerðarfélag Akureyringa upp langtímaskuldir upp á 57 milljónir evra, eða rúmlega 8 milljarða króna, við ótilgreindan aðila.
Þetta lán sýnir ennþá betur þá hringrás fjármuna innan samstæðu Samherja sem Stundin fjallar meðal annars um í greinaröðinni Heimavígi Samherja. Samherji aflar fjár með stórfelldum fiskveiðum í Afríku, fiskurinn er seldur í gegnum Kýpur og svo rata fjármunirnir meðal annars til Íslands með lánveitingum og eru svo notaðir þar til að kaupa eignir, eins og til dæmis kvóta.
Eignuðust 2,6 prósent kvótans í viðskiptunum
Þessi ótilgreindri aðili er að öllum líkindum Landsbankinn en Samherji yfirtók skuldir Brims við bankann þegar útgerðin keypti eignirnar árið 2011 og var stór hluti 14,6 milljarða króna kaupverðisins greiddur með þess konar yfirtöku skulda. Stærsti hluti kaupverðsins var byggður á verðmati 5.900 þorskígildistonna af kvóta sem skipti um hendur í viðskiptunum. Kvótinn var seldur á 2.500 krónur kílóið fyrir 10 árum en í dag er gangverðið á kvóta á markaði miðað við 3.500 krónur kílóið. Um var að ræða 2,6 prósent heildarkvótans við Ísland.
Í fréttum um söluna á sínum tíma kom fram að allt kaupverðið byggði á verðmati þessa kvóta Brims en að aðrar eignir, eins og fiskvinnslan á Akureyri, hefðu fylgt með í kaupunum, sem og tveir togarar sem kvótinn var á. Samherji greiddi 3,5 milljarða í reiðufé í sölunni og rann það fé til skilanefndar Glitnis til að grynnka á skuldum Brims við það fyrirtæki. Yfirtaka skulda við Landsbankann nam því um 11 milljörðum króna.
Í ársreikningi Útgerðarfélags Akureyringa árið 2011, sama ár og kaupin af Brimi áttu sér stað, kom fram að langtímaskuldir félagsins næmu 10,9 milljörðum króna og að 8,7 milljarðar króna væru á gjalddaga árið 2016. Eftir að viðskiptin áttu sér stað var tryggingarbréfum þinglýst á eignir Útgerðarfélags Akureyringa þar sem fram kom að Landsbankinn ætti veð í þeim.
Bæjarstjórnin ályktaði um kaupin
Eignirnar sem Samherji keypti í þessum viðskiptum eru sögulega mikilvægar á Akureyri því þær voru áður í eigu bæjarútgerðar Akureyrar og Kaupfélags Eyfirðinga, KEA. Vilhelm Þorsteinsson, faðir Kristjáns Vilhelmssonar annars stofnanda Samherja, var framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa frá 1965 til 1992 þegar útgerðin var í eigu bæjarins og kaupfélagsins. Útgerðin varð svo eign Brims í byrjun aldarinnar en fór til Samherja 2011.
Viðskipti Samherja og Brims vöktu það mikla athygli að bæjarstjórn Akureyrar fagnaði þeim sérstaklega með ályktun. „Mál er að deilum um fiskveiðistjórnunarkerfið ljúki með samkomulagi og málamiðlun. Úrbætur í atvinnu- og kjaramálum við núverandi aðstæður þola ekki bið. Bæjarstjórn hvetur stjórnvöld til þess að skapa sjávarútvegnum traustan rekstrargrundvöll og öryggi til framtíðar. Það er ein af mikilvægum forsendum sóknar í atvinnumálum við Eyjafjörð og í sjávarbyggðum landið um kring,“ sagði í henni.
Seldi fisk fyrir 20 milljarða
Eins og kom fram í Kveik á fimmtudaginn þá hefur Samherji notað félög á Kýpur til að selja fisk sem fyrirtækið hefur veitt í Afríku, meðal annars í Máritaníu og Marokkó og síðar í Namibíu. Árin 2010 og 2011 seldi Esja Seafood, sem þá hét Katla Seafood, fisk fyrir samtals 150 milljóna dollaraa eða um 20 milljarða íslenskra króna. Þetta félag Katla Seafood hafði áður verið skráð í skattaskjólinu Belís í Mið-Ameríku en var flutt til Kýpur árið 2010 líkt og Kveikur sagði frá.
Ástæða þess að Samherji vildi vera með fisksölufyrirtæki á Kýpur kemur fram í tölvupósti frá Baldvini Þorsteinssyni, syni Þorsteins Más Baldvinssonar, sem sendur var til samstarfsmanna hans í Samherja árið 2009. Stundin sagði frá þessum tölvupósti árið 2019.
„Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar.“
Hagstætt að selja fisk frá Kýpur
Í póstinum sagði Baldvin: „Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við gerum upp. Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“
Tölvupóstur Baldvins, og upplýsingarnar um söluna á fisknum frá Kýpur úr Kveik, er merkilegur meðal annars fyrir þær sakir að Þorsteinn Már Baldvinsson hefur neitað því að Samherji hafi selt fisk frá Kýpur. Í samtali við Stundina í febrúar 2019 sagði hann: „Við stofnuðum aldrei sölufyrirtæki á Kýpur og það er alveg ljóst hvar sölufyrirtæki Samherja eru.“
Í ásreikningum Esju Seafood er sala á fiski hins vegar sögð vera einn helsti tilgangur félagsins: „Helsti tilgangur fyrirtækisins hélt áfram að vera sala á fiski, framleiga á fiskiskipum, eignarhald á langtímafjárfestingum og fjármögnun dótturfélaga og annarra tengdra félaga,“ segir í ársreikningnum 2014.
Fyrirtækið á Kýpur lánaði svo fé til Útgerðarfélags Akureyringa sem notað var til að greiða hluta kaupverðs þeirra eigna Brims sem Samherji keypti á Akureyri árið 2011 en lauk ekki við að greiða fyrr en 2016, líkt og stendur í ársreikningum útgerðarinnar. Þetta sama fyrirtæki á Kýpur lánaði svo enn frekara fé til Íslands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og fékk þannig 20 prósent afslátt af íslenskum krónum.
Útgerðarfélag Akureyringa á einnig 11,9 prósenta hlut í Greiðri leið ehf. en það fyrirtæki á og rekur Vaðlaheiðargöng á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Samherji hefur því bæði fjárfest í lykileignum á Akureyri í gegnum Útgerðarfélag Akureyringa sem og í innviðum eins og Vaðlaheiðargöngum.
Athugasemdir