Ríkissaksóknarinn í Namibíu, Martha Imalwa, er bjarstýn á að íslensk stjórnvöld muni aðstoð þarlend yfirvöld við að saksækja þrjá núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja sem embætti hennar hefur ákveðið að ákæra í rannsókn Samherjamálsins þar í landi. Imalwa talar um að samstarf Namibíu og Íslands við rannsókn málsins, sem kallað er Fishrot á ensku, hafi gengið vel hingað til. Hún telur að íslensk yfirvöld muni leggja sitt af mörkum í vinnu ákæruvaldsins í Namibíu þrátt fyrir að ekki sé finna samning um framsal sakborninga á milli Íslands og Namibíu. Frá þessu er greint í namibíska blaðinu The Namibian í dag og er vísað í viðtal sem blaðið tók við Iwalwa í gær.
Eins og greint var frá í íslenskum og namibískum fjölmiðlum á föstudaginn stendur til að embætti ríkissaksóknara Namibíu ákæri þá Aðalstein Helgason, Ingvar Júlíusson og Egill Helga Árnason fyrir aðkomu sína að mútugreiðslum til stjórnmála- og áhrifamanna í rekstri Samherja í Namibíu sem stóð yfir frá 2012 til 2019. Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera greindu frá málinu í nóvember 2019.
Þegar Stundin spurði Aðalstein Helgason að því í nóvember 2019 hvort hann hefði fyrirskipað mútugreiðslur í Namibíu sagði hann að það væru lygar: „Það eru lygar.“
Samherji sagði í frétt á heimasíðu sinni fyrir helgi að ákærurnar ættu ekki við rök að styðjast og félagið myndi taka til varna af fullum krafti: „Ef ákæra verður gefin út á hendur áðurnefndum fyrirtækjum gefst Samherja þá fyrst kostur á að koma fram vörnum sínum en slíkri ákæru verður varist af fullum krafti.“
Imalwa: Samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna
Réttarhöldin í málinu hefjast í apríl og eru alls 26 einstaklingar og fyrirtæki sem munu sæta ákæru. Þar eru 6 Namibíumenn, hinir svokölluðu „hákarlar“, 11 fyrirtæki á þeirra vegum, Íslendingarnir 3 og 5 fyrirtæki í eigu Samherja: Esja Holding, Mermaria Seafood Namibia, Saga Seafood, Esja Investment og Heinaste Investments.
„Ég veit að Ísland mun vinna með okkur“
Í samtali við The Namibian segir ríkissaksóknarinn að hún sé fullviss um að íslensk stjórnvöld, væntanlega embætti héraðssaksóknara í Reykjavík, muni sjá til að þremenningarnir íslensku komi fyrir dóminn í Namibíu í apríl. „Ég veit að Ísland mun vinna með okkur,“ segir hún við blaðið.
Þrátt fyrir skort á framsalssamningi á milli landanna þá eru bæði löndin aðilar að samningum á vegum Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi og segir Imalwa að samvinnan gæti farið á grundvelli þeirra.
Hún segir enn fremur að mögulegt sé að saksóknin geti átt sér stað í öðru landi jafnvel þó ákæra sé gefin út í Namibíu.
Ekki er alveg ljóst hvað Imalwa á við með þessum orðum sínum og virðist hún fyrst og fremst vera að velta fyrir sér möguleikum.
Ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti
Í ákærunni kemur fram að Íslendingarnir þrír verði ákærðir fyrir fjársvik eða tilraun til fjársvik auk peningaþvættis. Fjórmenningarnir Bernhard Esau, Sacky Shanghala, James Hatuikulipi og Tamson Hatuikulipi verða einnig ákærðir fyrir þessi brot. Esau og Shangala verða ákærðir fyrir að misnota opinber embætti sín með spilltum hætti fyrir fjárhagslegan ávinning og allir hinir ákærðu, fyrir utan einn sakborning, verða ákærðir fyrir hlutdeild í þessum brotum ráðherranna fyrrverandi.
„Lögin segja skýrt að íslensk stjórnvöld framselja ekki íslenska ríkisborgara til Namibíu,“
Íslenskir ríkisborgarar ekki framseldir til Namibíu
Ólafur Hauksson héraðssaksóknari segir að hann geti ekki tjáð sig um einstaka ummæli ríkissaksóknarans þar sem trúnaður ríki um það samstarf sem fram fer við önnur lönd. Hann segir að þar sem um er að ræða rannsókn sem fram fer í Namibíu þá sé það namibískra yfirvalda að tjá sig um málið.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari á Íslandi, segir að samvinnan við namibísk yfirvöld hafi farið fram á grundvelli réttarbeiðna frá Namibíu og þessar beiðnir hafi farið frá embætti ríkissaksóknara til embættis héraðssaksóknara sem rannsakar málið á Íslandi.
Aðspurður út í orð ríkissaksóknara Namibíu um samvinnuna við íslensk stjórnvöld um saksóknina gegn Samherjamönnunum segir Helgi Magnús að það muni ekki koma til þess að Ísland framselji íslenska ríkisborgara til Namibíu vegna þess að slíkt sé lögbrot. „Lögin segja skýrt að íslensk stjórnvöld framselja ekki íslenska ríkisborgara til Namibíu,“ segir hann.
Hvað nákvæmlega Imalwa á við með ummælum sínum um íslensk yfirvöld muni aðstoða við að Samherjamennirnir svari til saka fyrir dómi í Namibíu liggur því ekki alveg ljóst fyrir.
Athugasemdir